Sarpur fyrir mars, 2017

Ég er ekki hagfræðimenntaður – en áskil mér nú samt rétt til að spyrja „heimskulegra spurninga“ um hagfræði.

Ég heyri gjarnan þær skýringar að ekki gangi að lækka vexti vegna þess að það myndi þýði aukna þenslu – með alveg skelfilegum afleiðingum.

Jú, jú, ég get alveg skilið að lægri vextir kalli á aukna eftirspurn eftir lánsfé.

En hvað með hina hliðina?

Þýða lægri vextir ekki minna framboð?

Getur ekki verið að lægri vextir séu nákvæmlega það sem til þarf til að sporna við þenslu – svona að því gefnu að það sé æskilegt markmið, það er amk. alltaf notað sem rök fyrir háum vöxtum að lækkun þeirra myndi auka þenslu.

Mér sýnist amk. að hagkerfi ríkja með lága vexti séu ekki beinlínis að springa vegna þenslu.

Stundum þarf einhver að spyrja eins og bjáni.. Seðlabanki?

Greinin Mýtan um skaðleysi frjálsrar sölu áfengis er á „upplyst.org“. Ég ætlaði að senda inn nokkrar spurningar, en þetta varð eiginlega full langt.

Smá inngangur samt.

Svo það fari ekkert á milli mála þá ber ég mikla virðingu fyrir greinarhöfundi og er sannfærður um að hann tekur spurningunum vel, getur kannski leiðrétt mig að einhverju (nú eða öllu) leyti eða svarað mér.. eða ef ekki, þá er ég viss um að hann tekur mark á þeim punktum sem ég nefni.

Þá er líka rétt að taka fram að ég mjög ánægður með síðuna „upplyst.org“, það er alveg til fyrirmyndar að halda úti síðu með gagnrýna hugsun að leiðarljósi og þar sem leitast er við að hafa réttar upplýsingar aðgengilegar.

En einmitt með gagnrýna hugsun að leiðarljósi langar mig að velta upp nokkrum spurningum.

Smá útúrdúr. Það er rétt að taka fram að ég styð núverandi frumvarp og myndi styðja þó allar upplýsingar og fullyrðingar í greininni væru réttar.. en það er önnur saga og önnur umræða.

Þá er líka rétt að hafa á hreinu að mér finnst þetta ekkert stórmál til eða frá og skiptir mig ekki miklu.

Ég hef hins vegar mikinn áhuga á upplýstri umræðu og að rétt sé farið með gögn og tölur. Ekki gef ég mig út fyrir að vera sérfræðing á heilbrigðissviði, en ég þykist hafa þokkalega reynslu af því að greina gögn og tölur.

Algengasta villan við meðferð upplýsinga er að gefa sér að tölfræðileg fylgni þýði orsakasamhengi. Auðvitað getur fylgni bent til þess en oft kemur upp í hugann dæmisagan um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís til að minnka dauðsföll af völdum drukknunar! Það þarf nefnilega að skoða hvað er á bak við tölurnar og sérstaklega þarf að varast að draga ályktanir út frá meðaltölum, það þarf að skoða undantekningarnar og frávik. Undantekningar geta átt sér sínar eðlilegu skýringar, en þær eru einmitt oft vísbending um annað og / eða flóknara orsakasamhengi en virðist þegar skautað er yfir gögnin.

Ég hef ekki skoðað öll skjöl og skýrslur sem eru í boði enda talsvert mikið í boði [og þetta er ekki aðalatriðið], en ég skoðaði gagnagrunn WHO, WHO Data Repository, fyrir nokkru og staldraði við..

Þannig, svo ég komi mér að efninu, þá eru hér nokkrar spurningar:

  1. Áfengisneysla jókst vissulega hér á landi í kjölfar þess að bjórinn var leyfður, en dróst svo saman og var orðin minni en áður en bjórinn var leyfður (án þess að hann væri bannaður aftur) og jókst svo aftur (án þess að vörutegundum væri fjölgað) – getur hugsast að fleiri þættir en það að leyfa bjór hafi áhrif á heildarneyslu?
  2. Einhverjar helstu áhyggjur andstæðinga bjórsins var að unglingadrykkja myndi aukast, hún hefur hins vegar dregist saman (amk. svo langt sem ég veit, en mögulega eru tölur þarna ekki óyggjandi) – getur verið að aðrir þættir eins og fræðsla og forvarnir hafi mun meiri áhrif?
  3. Áfengisneysla jókst jafnt og þétt eftir aldamót, en dróst saman eftir hrun og hefur aukist aftur.. getur verið að almennt efnahagsástand skipti mestu?
  4. Áfengisneysla virðist haldast nokkuð vel í hendur við almenn kjör og nokkur fylgni virðist vera á milli bíla, sjónvarpstækja (flatskjáa) og áfengisneyslu – getur verið að sameiginleg orsök sé meiri eftirspurn vegna betri kjara?
  5. Getur hugsast að útsölustaðir, sérstaklega í formi veitingastaða, séu til að mynda háðir eftirspurn (betri lífsskjör, fjölgun ferðamanna), ekki löggjöf eða ákvörðunum ríkisins?
  6. Skaðsemi (hlutfallsleg dauðsföll) sem rakin er til áfengisneyslu er minni á Ítalíu (1,6) en á Íslandi (2,1) þrátt fyrir að áfengi sé selt í matvöruverslunum – getur verið að aðgengi að áfengi og skaðsemi haldist bara ekkert endilega í hendur?
  7. Ef við skoðum sömu greiningu á skaðsemi þá eru tölurnar eiginlega út og suður, til dæmis má benda á skaðsemi í Bretlandi (3,4) en í Sloveníu (7,9) þrátt fyrir að neysla sé eins – er mögulegt að aðrir þættir en heildarneysla skipti máli?
  8. Áfengisneysla á Möltu er minni (5,4l) en í Finnlandi, (12,5l), þrátt fyrir að (amk. eftir því sem ég best veit) vín sé selt í matvöruverslunum á Möltu en aðeins í ríkisreknum verslunum í Finnlandi – getur verið að það sé einfaldlega ekki einhlítt samhengi á milli fyrirkomulags áfengissölu og áfengisneyslu og málið miklu flóknara?
  9. Það birtast oft rannsóknir sem benda til að hóflega neysla áfengis vinni gegn margs konar sjúkdómum, ég játa að ég þekki ekki hversu vandaðar þær rannsóknir eru – en getur hugsast að þrátt fyrir ákveðna skaðsemi af völdum óhóflegrar drykkju þá séu aðrir kostir sem vega þungt á móti? Ef rétt er, er varlegt að horfa eingöngu á neikvæðu hliðarnar?

Það er mikið rætt um áfengi og lýðheilsu þessa dagana. Sumt stenst líkast til skoðun, annað er vægast sagt vafasamt og ansi finnst mér mikið um einfaldanir á (að því er virðist) flóknu samspili. Og ekki er ég sammála þeim ályktunum sem flestir virðast draga um orsakir og afleiðingar.

Margir telja víst að lýðheilsu hraki umtalsvert ef minni háttar breyting verður á fyrirkomulagi á sölu á áfengi. Skorpulifur er eitt dæmið sem er gjarnan tekið og líkast til er fylgni á milli dagdrykkju og hennar. Ekki veit ég hvort heildarneyslan hefur áhrif og ekki get ég sagt að ég sé sannfærður um að þær breytingar sem eru til umræðu leiði beint til aukinnar dagdrykkju.

Látum það aðeins liggja á milli hluta, því..

Hvað með aðra heilsuþætti? Nú þykist ég hafa séð ansi margar rannsóknir sem benda til að hófleg neysla áfengis vinni gegn mörgum sjúkdómum, gott ef ekki hjartasjúkdómum, jafnvel krabbameini, kannski ekki skalla [enda ekki sjúkdómur]. Svo er „hófleg neysla“ áfengis eitthvað sem ekki er vel skilgreint, amk. ekki enn.

Þannig að hvers vegna eru lýðheilsufræðingar að einblína á neikvæðu þættina, sem virðast jafnvel takmarkaðir við eitt neyslumynstur áfengis, en hunsa um leið alla mögulega jákvæða þætti?

PS. já, nei, ég veit ekki hvað þetta kallast, þeas. að halda áfram að röfla um eitthver smáatriði sem skipta mig litlu, bara vegna þess að umræðan fer í skapið á mér – en það hlýtur að vera til eitthvert læknisfræðilegt heiti.

Slæmur félagsskapur („guilt-by-association“, „bad company“) rökleysan er ansi hávær þessa dagana. Aðallega sú útgáfa sem gengur út á að ef þú hefur eina skoðun þá hlýtur þú að vera sammála öllum sem hafa sömu skoðun í einu og öllu öðru. Sem er auðvitað æpandi mótsögn í sjálfu sér…

Tökum kannski pínulítið skrýtið, jafnvel öfugsnúið dæmi.

Mér gæti til að mynda þótt kjöt vera vondur matur [sem er nú alls ekki tilfellið] og haldið mig við að borða grænmeti, eingöngu vegna þess að mér þætti það betra á bragðið. Síðan myndi félagsskaps-rökleysa þýða að ég þyrfti endalaust að taka umræðu um á þeim forsendum að ég vilji ekki borða kjöt af siðferðisástæðum! [ég tek þetta viljandi sem dæmi þar sem auðvitað er ekkert slæmt að vilja ekki borða kjöt af siðferðisástæðum og sá félagsskapur engan veginn slæmur].

Þessa dagana er hamast á þeim sem vilja breyta fyrirkomulagi á sölu áfengis á þeim forsendum að fyrst þeir hafi þessa ákveðnu skoðun á þessu ákveðna máli þá tilheyri þeir ákveðnum stjórnmálaflokki, gangi erinda hans og / eða séu fylgjandi ákveðinni pólitískri hugmyndafræði.

Ég held reyndar að þeir sem gera þetta séu ekki svo illa að sér að þeir sjái ekki að það er alveg hægt að hafa skoðun á einu máli út frá sínum eigin forsendum án þess að hafa gengið til liðs við einhverja hreyfingu…

Kannski er þetta bara enn ein birtingarmyndin af skítkastsumræðunni.

Mér sýnist helst á samfélagsmiðlunum að það sé einhver stærsti glæpur þingmanna að hafa eigin skoðanir og standa við þær.

Gefum okkur að þingmaður bjóði sig fram og nái kjöri með það skýra stefnu í ákveðnu máli.

Nú kemur í ljós að meirihluti þjóðarinnar sé fullkomlega ósammála þingmanninum.. Auðvitað ekki allir, kannski tveir af hverjum þremur. Á þá þingmaðurinn að skipta um skoðun og hætta að hafa þá skoðun sem hann stóð fyrir þegar hann náði kjöri? Á hann að brjóta stjórnarskrána og kjósa gegn eigin sannfæringu? Á sá hluti kjósenda sem ekki er í meirihluta ekki rétt á að skoðanir þeirra heyrist á þingi?