Greinin Mýtan um skaðleysi frjálsrar sölu áfengis er á „upplyst.org“. Ég ætlaði að senda inn nokkrar spurningar, en þetta varð eiginlega full langt.
Smá inngangur samt.
Svo það fari ekkert á milli mála þá ber ég mikla virðingu fyrir greinarhöfundi og er sannfærður um að hann tekur spurningunum vel, getur kannski leiðrétt mig að einhverju (nú eða öllu) leyti eða svarað mér.. eða ef ekki, þá er ég viss um að hann tekur mark á þeim punktum sem ég nefni.
Þá er líka rétt að taka fram að ég mjög ánægður með síðuna „upplyst.org“, það er alveg til fyrirmyndar að halda úti síðu með gagnrýna hugsun að leiðarljósi og þar sem leitast er við að hafa réttar upplýsingar aðgengilegar.
En einmitt með gagnrýna hugsun að leiðarljósi langar mig að velta upp nokkrum spurningum.
Smá útúrdúr. Það er rétt að taka fram að ég styð núverandi frumvarp og myndi styðja þó allar upplýsingar og fullyrðingar í greininni væru réttar.. en það er önnur saga og önnur umræða.
Þá er líka rétt að hafa á hreinu að mér finnst þetta ekkert stórmál til eða frá og skiptir mig ekki miklu.
Ég hef hins vegar mikinn áhuga á upplýstri umræðu og að rétt sé farið með gögn og tölur. Ekki gef ég mig út fyrir að vera sérfræðing á heilbrigðissviði, en ég þykist hafa þokkalega reynslu af því að greina gögn og tölur.
Algengasta villan við meðferð upplýsinga er að gefa sér að tölfræðileg fylgni þýði orsakasamhengi. Auðvitað getur fylgni bent til þess en oft kemur upp í hugann dæmisagan um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís til að minnka dauðsföll af völdum drukknunar! Það þarf nefnilega að skoða hvað er á bak við tölurnar og sérstaklega þarf að varast að draga ályktanir út frá meðaltölum, það þarf að skoða undantekningarnar og frávik. Undantekningar geta átt sér sínar eðlilegu skýringar, en þær eru einmitt oft vísbending um annað og / eða flóknara orsakasamhengi en virðist þegar skautað er yfir gögnin.
Ég hef ekki skoðað öll skjöl og skýrslur sem eru í boði enda talsvert mikið í boði [og þetta er ekki aðalatriðið], en ég skoðaði gagnagrunn WHO, WHO Data Repository, fyrir nokkru og staldraði við..
Þannig, svo ég komi mér að efninu, þá eru hér nokkrar spurningar:
- Áfengisneysla jókst vissulega hér á landi í kjölfar þess að bjórinn var leyfður, en dróst svo saman og var orðin minni en áður en bjórinn var leyfður (án þess að hann væri bannaður aftur) og jókst svo aftur (án þess að vörutegundum væri fjölgað) – getur hugsast að fleiri þættir en það að leyfa bjór hafi áhrif á heildarneyslu?
- Einhverjar helstu áhyggjur andstæðinga bjórsins var að unglingadrykkja myndi aukast, hún hefur hins vegar dregist saman (amk. svo langt sem ég veit, en mögulega eru tölur þarna ekki óyggjandi) – getur verið að aðrir þættir eins og fræðsla og forvarnir hafi mun meiri áhrif?
- Áfengisneysla jókst jafnt og þétt eftir aldamót, en dróst saman eftir hrun og hefur aukist aftur.. getur verið að almennt efnahagsástand skipti mestu?
- Áfengisneysla virðist haldast nokkuð vel í hendur við almenn kjör og nokkur fylgni virðist vera á milli bíla, sjónvarpstækja (flatskjáa) og áfengisneyslu – getur verið að sameiginleg orsök sé meiri eftirspurn vegna betri kjara?
- Getur hugsast að útsölustaðir, sérstaklega í formi veitingastaða, séu til að mynda háðir eftirspurn (betri lífsskjör, fjölgun ferðamanna), ekki löggjöf eða ákvörðunum ríkisins?
- Skaðsemi (hlutfallsleg dauðsföll) sem rakin er til áfengisneyslu er minni á Ítalíu (1,6) en á Íslandi (2,1) þrátt fyrir að áfengi sé selt í matvöruverslunum – getur verið að aðgengi að áfengi og skaðsemi haldist bara ekkert endilega í hendur?
- Ef við skoðum sömu greiningu á skaðsemi þá eru tölurnar eiginlega út og suður, til dæmis má benda á skaðsemi í Bretlandi (3,4) en í Sloveníu (7,9) þrátt fyrir að neysla sé eins – er mögulegt að aðrir þættir en heildarneysla skipti máli?
- Áfengisneysla á Möltu er minni (5,4l) en í Finnlandi, (12,5l), þrátt fyrir að (amk. eftir því sem ég best veit) vín sé selt í matvöruverslunum á Möltu en aðeins í ríkisreknum verslunum í Finnlandi – getur verið að það sé einfaldlega ekki einhlítt samhengi á milli fyrirkomulags áfengissölu og áfengisneyslu og málið miklu flóknara?
- Það birtast oft rannsóknir sem benda til að hóflega neysla áfengis vinni gegn margs konar sjúkdómum, ég játa að ég þekki ekki hversu vandaðar þær rannsóknir eru – en getur hugsast að þrátt fyrir ákveðna skaðsemi af völdum óhóflegrar drykkju þá séu aðrir kostir sem vega þungt á móti? Ef rétt er, er varlegt að horfa eingöngu á neikvæðu hliðarnar?
Líkar við:
Líka við Hleð...