Slæmur-félagsskapur rökleysan

Posted: mars 3, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Slæmur félagsskapur („guilt-by-association“, „bad company“) rökleysan er ansi hávær þessa dagana. Aðallega sú útgáfa sem gengur út á að ef þú hefur eina skoðun þá hlýtur þú að vera sammála öllum sem hafa sömu skoðun í einu og öllu öðru. Sem er auðvitað æpandi mótsögn í sjálfu sér…

Tökum kannski pínulítið skrýtið, jafnvel öfugsnúið dæmi.

Mér gæti til að mynda þótt kjöt vera vondur matur [sem er nú alls ekki tilfellið] og haldið mig við að borða grænmeti, eingöngu vegna þess að mér þætti það betra á bragðið. Síðan myndi félagsskaps-rökleysa þýða að ég þyrfti endalaust að taka umræðu um á þeim forsendum að ég vilji ekki borða kjöt af siðferðisástæðum! [ég tek þetta viljandi sem dæmi þar sem auðvitað er ekkert slæmt að vilja ekki borða kjöt af siðferðisástæðum og sá félagsskapur engan veginn slæmur].

Þessa dagana er hamast á þeim sem vilja breyta fyrirkomulagi á sölu áfengis á þeim forsendum að fyrst þeir hafi þessa ákveðnu skoðun á þessu ákveðna máli þá tilheyri þeir ákveðnum stjórnmálaflokki, gangi erinda hans og / eða séu fylgjandi ákveðinni pólitískri hugmyndafræði.

Ég held reyndar að þeir sem gera þetta séu ekki svo illa að sér að þeir sjái ekki að það er alveg hægt að hafa skoðun á einu máli út frá sínum eigin forsendum án þess að hafa gengið til liðs við einhverja hreyfingu…

Kannski er þetta bara enn ein birtingarmyndin af skítkastsumræðunni.

Lokað er á athugasemdir.