Sarpur fyrir júlí, 2012

Innanríkisráðherra lýsti því yfir á heimasíðu sinni að hann teldi hófsöm og vel skipulögð glæpasamtök bestu vörnina gegn öfgafullum glæpum.

„Við vitum hvar við höfum þessa kalla og þeir gera í rauninni engum sérstaklega mikið mein. Þetta er allt í góðu hófi hjá þeim. Ekki viljum við hatramma og öfgafulla glæpamenn vaðandi hér uppi“.

Öfgamaður

Posted: júlí 16, 2012 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Hugtakið „öfgar“ virðist vera í frjálsu gengisfalli þessa dagana. Eins og einelti. Hugtökin eru notuð af minnsta tilefni og dreift hugsunarlaust til að drepa umræðu á dreif og forðast málefnalega rökræðu og að svara efnislega.

„Öfga“ stimpillinn er þægileg leið til að gera lítið úr skoðunum annarra þegar engin mótrök eða upplýsingar virðast vera fyrir hendi. Og „öfgar“ er einmitt gjarnan notað um skoðanir annarra til að réttlæta órökstuddar skoðanir þegar fátt er um rökstuðning.

En hvað eru öfgar? Geta vel rökstuddar skoðanir verið „öfgar“? Eru óvenjulegar skoðanir „öfgar“? Eru skoðanir sem ganga gegn skoðunum fjöldans alltaf „öfgar“?

Ég hef svo sem ekki talið mig öfgamann hingað til. Langt frá því. En þetta eilífa öfgatal er að verða til þess að ég hef verið að hugsa málið.

Ef það eru öfgar að fylgja sannfæringu sinni og rökstuddum skoðunum hvað sem öðrum finnst… tja, þá er ég líkast til mjög öfgafullur.

Eins og allir þeir sem hafa komið einhverjum framförum til leiðar.

Og ef það er „öfgaleysi“ er að sitja þegjandi undir ranglæti vegna þess að það er ekki vinsælt, þá er ég öfgamaður.

Og stoltur af.

Baksýnisspegillinn fluttur

Posted: júlí 15, 2012 in Uncategorized

hingað

Að blogga eða blogga ekki

Posted: júlí 10, 2012 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég ákvað fyrr í sumar að hætta að blogga í kjölfar fráleitrar afgreiðslu Hæstaréttar á meiðyrðamáli sonarins og sinnuleysi fjölmiðla, annarra en DV.

Hæstiréttur hefur nú verið beðinn um nánari skýringar og í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu eru nú góðar líkur á farsælli lausn. Þetta verður tíma- og kostnðarfrekt en ég hef fulla trú á að þetta endi vel. Undarlegir dómar íslenskra dómara eru sem sagt ekki endanlegur dómur.

Ég velti því samt enn fyrir mér hvort það geti verið þess virði að standa í því stríði sem sonurinn hefur gengið í gegnum. Það eitt að vita af þöggunartilburðum íslenska réttarkerfisins er kannski næg fæling.

Ég setti þetta blogg hér af stað eftir að ég hætti að blogga á Eyjunni, aðallega hugsað fyrir fréttir af okkur og fjölskyldunni og einhverjar, til þess að gera, ómerkilegar skoðanir og hugmyndir.

En kannski afdráttarlaus dómur Mannréttindadómstólsins verði til að íslenskir dómstólar hugsa sinn gang.

Og kannski er þess virði að taka aftur upp þráðinn.

Hversu oft skyldi íslenska dómskerfið þurfa að fá „rassskellingu“ frá mannréttindadómstól Evrópu áður en tekið er af alvöru á þessu málum hér á landi?

Væri ekki ódýrara, einfaldara og talsverður vinnusparnaður – að ógleymdri betri ímynd fyrir Ísland – að mennta dómara í tjáningarfrelsi og mannréttindum? Frekar en að vera aftur og aftur gerðir afturreka með dóma með tilheyrandi kostnaði?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/07/10/verda_ad_geta_birt_ordrett_ummaeli/

http://www.dv.is/frettir/2012/7/10/erla-eg-bjost-alltaf-vid-thessari-nidurstodu/

http://www.dv.is/frettir/2012/7/10/erla-eg-bjost-alltaf-vid-thessari-nidurstodu/

http://www.visir.is/tjaningarfrelsid-var-fotum-trodid—domurinn-reifadur/article/2012120719973

Fyrrum forseti Bandaríkjanna, Georg Tvöfalt Vaff Búss, hefur tilkynnt um framboð til forseta Íslands í forsetakosningunum sem fara fram í lok júní 2014.

Eins og kunnugt er hætti Ólafur Ragnar Grímsson nýlega störfum sem forseti til að taka við starfi sendiherra Kína á Indlandi. Ólafur sagði að það hafa alltaf verið að hreinu að hann hafi aðeins boðið sig fram til tveggja ára.

Aðspurður hvers vegna hann sækist eftir forsetaembættinu sagði Georg að hann hafi lengi haft mikið álit á íslenskum kjósendum og hafi langað til að vinna með þeim. Þeir íslensku hagi sér svipað og þeir bandarísku þegar kemur að kosningum, fáir hafi áhuga á staðreyndum, öllum sé sama um að frambjóðandi ljúgi sig hásan og skítkast á aðra frambjóðendur sé ódýr og skilvirk leið til að ná árangri.

Búss taldi lítið mál að ljúga sig út úr því að hann er ekki íslenskur ríkisborgari.

Þegar Baksýnisspegillinn spurði hvað hann ætlaði sér með valdalaust embætti stóð ekki á svarinu. „Ég hef lesið stjórnarskrána ykkar og forsetinn má gera hvað sem hann vill. Það er að segja að svo litlu leyti sem eitthvað stendur í þessu plaggi sem þið kallið stjórnarskrá. Og það litla sem þó stendur get ég túlkað eins og mér hentar“.

En hvers vegna Ísland? „Jú, þegar þið eru komin í Evrópusambandið get ég ráðið öllu þar líka. Stjórnarskráin ykkar segir..“

Brúðkaup í gær

Posted: júlí 8, 2012 in Spjall

Við vorum heldur betur í skemmtilegu brúðkaupi í gær, hjá Katý og Óla.

Það kom svo sem ekkert á óvart að allar veitingar voru frábærar og skemmtiatriðin ekki síðri. Þau hljóta að hafa verið í fullri vinnu við að skipuleggja dagskrána, hvert smáatriði úthugsað. Og svo er alltaf gaman að hitta fjölskyldurnar og vini.

En það sem situr kannski mest eftir er hvað þeim fannst þetta gaman og hvað þau nutu hvers augnabliks, allt frá athöfninni í kirkjunni, með afslöppuðum og skemmtilegum presti, til síðasta dans um nóttina.

Aftur til hamingju og takk fyrir okkur!

Opið bréf til Hæstaréttar

Posted: júlí 3, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Sendi örfáar spurningar til Hæstaréttar vegna synjunar réttarins á því að fjalla um mál Andrésar Helga.

Bréfið birtist á DV hér http://www.dv.is/blogg/kjallari/2012/7/3/opid-bref-til-haestarettar/.

.

Ég velti fyrir mér úrslitum forsetakosninganna, sem mér þykja óneitanlega stórundarleg.

Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi fyrst og fremst sótt fylgi til yngra fólks og fólks með litla menntun. Nú þekki ég fólk á öllum aldri og með alls kyns menntun.

En…

Af þokkalegum fjöldskyldu og vinahópi – svona eitthvað á annað hundraðið – man ég eftir tveimur sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar, annar af einhvers konar skyldu vegna tenginga og hinn var alls ekki ákveðinn, grunar jafnvel að viðkomandi hafi skipt um skoðun.

Auðvitað spurði ég ekki alla, en þetta var mikið rætt og flestir voru eindregnir andstæðingar Ólafs Ragnars. Margir höfðu kosið hann 1996 og margir voru sáttir við forsetatíð hans. En öllum blöskraði kosningabarátta hans og flestir voru búnir að nefna – þegar hann gat ekki ákveðið sig – að þetta væri nú líklega orðið gott.

Af Facebook vinum, sem eru ríflega sex hundruð, voru örfáir að lýsa stuðningi við Ólaf, ég efast um að þeir hafi náð 10, ekki fleiri en 20.

Umgengst ég svona undarlegt fólk?

Skemmtileg Evrópukeppni

Posted: júlí 2, 2012 in Fótbolti

Er ekki við hæfi að óska íslenskulesandi Spánverjum – og öðrum stuðningsmönnum þeirra – til hamingju með frábæran árangur á EM 2012? Jú.

Mótið í ár náði kannski ekki alveg að vera í sama klassa og EM 2008, en fullt af skemmtilegum leikjum og góðum fótbolta. Englendingar, Grikkir og Írar hefðu kannski mátt sitja heima.

En, gaman að sjá, þau lið sem spila fótbolta og sækja eru að vinna leikina.

Meira að segja Ítalir eru farnir að reyna að spila fótbolta og hætta að liggja í vörn.

Yfirburðir Spánverja eru hins vegar svo miklir að þeir virðast geta klárað svona mót með hangandi hendi (fæti?).

Á köflum hafði maður á tilfinningunni að þeir nenntu ekki að skora á meðan andstæðingarnir gátu ekki skorað.

Vonandi fá þeir verðuga keppni á HM 2014. Það gæti gefið bestu HM sögunnar ef fleiri til taka þá sér til fyrirmyndar.