Hugtakið „öfgar“ virðist vera í frjálsu gengisfalli þessa dagana. Eins og einelti. Hugtökin eru notuð af minnsta tilefni og dreift hugsunarlaust til að drepa umræðu á dreif og forðast málefnalega rökræðu og að svara efnislega.
„Öfga“ stimpillinn er þægileg leið til að gera lítið úr skoðunum annarra þegar engin mótrök eða upplýsingar virðast vera fyrir hendi. Og „öfgar“ er einmitt gjarnan notað um skoðanir annarra til að réttlæta órökstuddar skoðanir þegar fátt er um rökstuðning.
En hvað eru öfgar? Geta vel rökstuddar skoðanir verið „öfgar“? Eru óvenjulegar skoðanir „öfgar“? Eru skoðanir sem ganga gegn skoðunum fjöldans alltaf „öfgar“?
Ég hef svo sem ekki talið mig öfgamann hingað til. Langt frá því. En þetta eilífa öfgatal er að verða til þess að ég hef verið að hugsa málið.
Ef það eru öfgar að fylgja sannfæringu sinni og rökstuddum skoðunum hvað sem öðrum finnst… tja, þá er ég líkast til mjög öfgafullur.
Eins og allir þeir sem hafa komið einhverjum framförum til leiðar.
Og ef það er „öfgaleysi“ er að sitja þegjandi undir ranglæti vegna þess að það er ekki vinsælt, þá er ég öfgamaður.
Og stoltur af.
Sæll Valgarður
Það er líka hægt að hafna hugtakanotkuninni á viðlíka ódýran hátt og hugtakinu er oft beitt. Hafi til dæmis farið fram heilmiklar rökræður um eitthvað málefni sem enda á því að annar aðilinn lýsir hinn öfgafullan er mjög ódýrt að fullyrða að það í sjálfu sér bendi til þess eins að sá sem það geri hafi engin rök eða geti ekki rökstutt skoðanir sínar.
Fólk getur verið blint á eigin rörsýni, þrjósku og óbilgirni og af þeim sökum virkað öfgafullt þegar málin eru rædd. Þá má vitaskuld deila um hvort raunverulega sé um fávisku eða skort á samskiptahæfileikum eða eitthvað annað að ræða, en með orðinu öfgar er mögulega verið að lýsa raunverulegum vandamálum, en ekki bara að gefast upp á því að ræða málin.
Ég tek það fram að ég veit ekki til þess að þú teljist öfgafullur.
En ímyndum okkur að verið sé að ræða mál X og að það eigi sér meginþræðina a, b, c og d. Ef vitræn umræða um málið krefst þess að balancera þurfi umræðu um þessa fjóra þætti, getur hópur fólks sem er alveg trylltur yfir atriði b einu verið algerlega óviðræðuhæfur um X. En hópurinn getur ekki komið auga á það sjálfur vegna þess að hann er búinn að múra sig inni með rökstuðningi fyrir því að ekkert annað eigi að ræða en atriði b.
Þegar þessi hópur fær ítrekað að heyra að hann sé öfgafullur ætti hann kannski bara að taka því sem ábendingu um að eitthvað sé að í umræðunni sem hann beri að einhverju marki ábyrgð á, en síður að demba sér í að fárast yfir því hve notkunin á orðinu öfgar sé orðin þreytt og asnaleg.
En auðvitað er líka mikið um að fólk ofnoti orðið einfaldlega og sé ekkert að vanda sig, ég er amk. alveg sammála því. Það finnst mér bara ekki vera eina markverða hlið málsins.
mbk,
Takk fyrir innleggið, jú, auðvitað getur hugtakið átt rétt á sér eins og þú nefnir. En með því að nota þetta frjálslega um allt og ekki neitt þá missir það marks.
Ég myndi reyndar vilja enn þrengri skilgreiningu, ef ég má vera erfiður. Dæmið sem þú nefnir getur hæglega átt við ómerkilegar umræður eins og húsfélag að rífast um lit á húsi. En ef dæminu fylgir yfirgangur, ofbeldi, takmörkun á réttindum annarra…
Ég hef stundum bent á að í samfélagi þar sem lítið sem ekkert er líkamlega barist um nein málefni fær orðið öfgar dálítið aðra merkingu en þá að um sjálfsmorðssprengjufólk eða eitthvað þess háttar sé að ræða – eða vægara líkamlegt ofbeldi. Þá gæti sá þótt öfgafullur sem gerir sínum eigin sjónarmiðum gríðarlega hátt undir höfði á takmörkuðum forsendum en blæs á sjónarmið annarra. Og þegar um hópefli af því tagi er að ræða er það stundum ansi mikill yfirgangur.
Mér finnst það reyndar hreinlega vera góð vísbending um að þankagangur hóps sé farinn að daðra við öfgar þegar hann fjallar mjög hæðnislega um einmitt það þegar hann er kallaður öfgafullur. Það eru til dogmatískir aðilar sem eiga það til að vera með yfirgang og frekju í krafti hópeflis í trúariðkun, trúleysi, femínisma, ný-frjálshyggju og ýmsu öðru. Um leið og viðbrögðin við því eru orðin háðslegar glósur af ýmsu tagi og yfirlýsingar um að það sé ekki hægt að vera öfga þetta eða hitt þykir mér ljóst að viðkomandi er með eigin hugmyndir á of háum stalli og lítð fær um að horfast í augu við gagnrýni.
„Öfgarnar“ í þeim efnum eru að telja engan í „sínu liði“ vera öfgafullan og vera þá annaðhvort í afneitun eða að þrjóskast við að hafa ofbeldi í huga, þegar augljóslega er ekki verið að nota orðið um þess háttar öfgar heldur dogmatík, yfirgang og óbilgirni.
Það er örugglega rétt hjá þér að öfgar fá aðra merkingu í okkra samfélagi en þar sem ofbeldi er meira. Mér finnst samt ekki rétt að gengisfella hugtakið svona, það eitt að ekki sé mikið um öfgar hér er ekki ávísun á að það sé leyfilegt að nota hugtakið í annarri og víðari merkingu.
Ég er svo algjörlega ósammála þér með að það sé einhver vísbending um að hópur sé farinn að daðra við öfgar þó hann hæðist að þess háttar tali. Þvert á móti, getur það einmitt verið augljóst og eðliegt svar þegar fráleitar ásakanir um öfgar eru sífellt endurteknar.
Samkvæmt timarit.is hefur orðið öfgar verið notað um allskyns hluti í íslenskum miðlum áratugum saman. Sjá: http://timarit.is/search_init.jsp?lang=is&orderby=score&q=%F6fgar
Kannski er því meiri hefð fyrir þessu en ætla mætti.
En það virðist enginn vilja kannast við eigin öfgar. Öllum þykja slíkar ásakanir jafn fráleitar og hæðast að þeim, svo líklega er orðið af þeim sökum ekki sérlega gagnlegt í viðræðum við fólkið sem þykir öfgafullt, en gengur etv. í umræðum um fólk milli þeirra sem eru sammála um að einhver annar sé öfgafullur. Kannsi er það bara eðli orðisins.
Kannski er það bara eðli orðsins – átti þetta síðasta að vera.
Ég er svo sem ekki með tölfræði á þessu á takteinum, en síðustu ár / áratugi hefur þetta hugtak verið notað um skoðanir sem engin rök eru fyrir og traðka á mannréttindum og réttlæta ofbeldi. Kannski er þessi ósiður eitthvað eldri, þeas. að nota hugtakið um allt og alla sem eru viðkomandi ósammála.
Mér finnst fráleitt að nota hugtakið um fólk sem kynnir rökstuddar skoðanir á málefnalegan hátt eins og gert hefur verið. Það er gengisfelling því hugtakið verður marklaust. Að segja einhvern öfgafullan verður jafn meiningarlaust eins og að segja „ég er ósammála þessu“.
Öfgamaðurinn Kristinn, stjórnarmaður í öfgafélaginu Siðmennt, mættur með sinn öfgaáróður gegn þeim sem telja öfgahugtakinu misbeitt í umræðunni.
Ég held að orðin hatursáróður og fordómar hafi dálítið tekið við kyndlinum af orðinu öfgar við að tákna málflutning sem traðki á mannréttindum og réttlæti ofbeldi.
Orðið öfgar notar fólk í auknum mæli um að málflutningur af einhverju tagi sé farinn að einkennast af rörsýni, þversögnum, þrjósku, ýkjum og ranglæti eða eitthvað í þeim dúr. En ekki bara að menn séu ósammála – held ég.
Það má deila um hvort það sé góð þróun.
Auðvitað er orðinu öfgar þó oft misbeitt í umræðunni. En gagnrýnin sem felst í notkun þess er alls ekki alltaf og eilíflega marklaus og þegar fólk leggst í að útlista það vandlega að eigin málstaður geti einfallega ekki verið öfgafullur, finnst mér ekki aðeins verið að amast við því að orðinu sé misbeitt, heldur verið að múra fyrir möguleikann á að gagnrýni af því tagi verði tekin til athugunar.
Já, ég myndi kjósa að mér væri bent á þrömgsýni, þversagnir, ýkjur eða ranglæti ef ég gerist sekur um það – það er málefnaleg umræða – frekar en að fá (núorðið) marklausa stimpilinn „öfgar“ án nokkurs rökstuðnings.
Þrjóska þarf ekki að vera vond, getur meira að segja verið nauðsynleg og ekkert við hana að athuga ef maður hefur rökin með sér.
Kannski er fólk einfaldlega ósammála því að málflutningur þess sé öfgafullur og ég sé ekkert að því. Ég vil nefnilega gjarnan sjá umræðuna snúast frekar um málefni en stimpla.
Já, auðvitað vill maður helst ræða málin en ekki sitja undir stimplum. Stimplarnir koma þó kannski stundum til af því að stríðandi aðilar geti einfaldlega ekki rætt málin sín á milli, til þess sé annar eða báðir aðilar of giftir sinni afstöðu. Prófaðu t.d. að rökræða við bókstafstrúarmann og sjáðu „öfgarnar“ sem farið er út í við að forðast vitræna rökræðu.
Matti var hér að ofan að leika sér með öfgastimpilinn í ýmsu samhengi, væntanlega til að sýna hvað hann getur verið merkingarlaus. En það til dæmis að skilgreina húmanisma eða einhvern Siðmenntarisma á þann veg að það sé hreinlega rökfræðilega útilokað að hann geti orðið öfgafullur og hæðast síðan að slíkum ásökunum á þeim forsendum, eins og ég hef séð gert endrum og eins er nokkuð sem ég vona að ég leggist aldrei í að gera. Það þykir mér mjög slapparaleg hugmyndafræði – án þess að ég sé að fullyrða að ég hafi aldrei gert eða sagt neitt viðlíka slappt.
Ég hef heldur betur fengið minn skerf af rökræðum við bókstafstrúarmenn og kosið að svara þeim málefnalega, amk. vona ég að það hafi tekist.
Og Siðmennt hefur nú fengið sinn skammt af stimplum, man ekki eftir „öfgum“ en „hatrömm samtök“ var einn slíkur. Og fyrir mína parta ekkert að því að hæðast að því..
Ég er amk. sammála því að Siðmennt séu ekki „hatrömm samtök“, en ég hafna þeirri lýsingu alveg án þess að skilgreina Siðmennt í huga mér sem samtök um stefnu sem í eðli sínu geti ekki verið hatörmm eða öfgafull. Auðvitað gæti Siðmennt barist fyrir sínum málefnum með hatrömmum eða öfgafullum hætti, hversu fallegar sem hugsjónirnar eru. En ég vil meina að það gerum við til allrar hamingju ekki.
> En það til dæmis að skilgreina húmanisma eða einhvern Siðmenntarisma á þann veg að það sé hreinlega rökfræðilega útilokað að hann geti orðið öfgafullur
> ég hafna þeirri lýsingu alveg án þess að skilgreina Siðmennt í huga mér sem samtök um stefnu sem í eðli sínu geti ekki verið hatörmm eða öfgafull
Hver hefur gert slíkt? Þetta eru útúrsnúningar Kristinn. Jafnvel þó rætt sé um Vantrú. Enginn hefur haldið því fram að Vantrú geti ekki verið öfgafullt félag eða meðlimir í því félagi geti ekki verið öfgafullir. Því er einfaldlega mótmælt að svo sé raunin. Enda er það ekki svo.
Ég var með femínistana í huga sem koma oft með þá bragðdaufu tuggu að það sé ekki hægt að vera of jafnréttissinnaður og þ.a.l. sé öfgafemínismi ekki til.
Þú hefur sagt það sama, oftar en einu sinni, um Vantrú.
Nei, er það? Vantrú hefur ekki lagst í það með sama hætti að skilgreina sig þannig að stimpillinn öfgar geti ekki með neinum hætti átt við félagið. Hinsvegar er ansi oft hæðst að slíkum ásökunum og snúið út úr – að mér finnst.
Mér finnst Vantrú flott félag og ekki öfgafullt. Mér finnst þó oft sem ég skilji hvað býr að baki þess háttar ásökunum þegar Vantrú á í hlut og þótt mér þyki félagið ekkert endilega eiga að taka mið af þeim, finnst mér oft óþarfi að snúa út úr þeim og hæðast.
En kannski er það rangt metið hjá mér. Það má vel vera.
Er Vantrú ekki einmitt gott dæmi, ég veit engin dæmi þess að félagið hafi gert eitthvað „öfgafullt“, svona eins og ég skil hugtakið – þó einstaka meðlimir hafi einhvern tíma látið eitthvað frá sér fara á eigin heimasíðum / bloggum – en andstæðingum félagsins er mikið í mun að klína þessu öfgastimpli á Vantrú. Einmitt, held ég, til að þurfa ekki að taka rökræðuna.