Sarpur fyrir ágúst, 2017

Hnignun þekkingar

Posted: ágúst 13, 2017 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Samsæriskenningar eru auðvitað eldgamlar og stöku sinnum hefur meira að segja verið fótur fyrir þeim. En þessi öld hefur að einhverju leyti litast af uppgangi samsæriskenninganna. Ellefti-september bauð auðvitað upp á alls kyns umræður og vangaveltur. Í kjölfarið var eins og margir ánetjuðust samsæriskenningunum… alls staðar voru samsæri, jafnvel þeir sem upphaflega voru fórnarlömb samsæranna voru nú hluti af þeim, þeir sem ruddu brautina (ef svo má að orði komast) voru hluti af einhverju samsæri. Það voru samsæri komin í hvert horn. Hlýnun jarðar var samsæri, að jörðin væri hnöttótt var samsæri, þoturákir á himni voru samsæri, CIA yfirtók heila fólks, Clinton (og ef ekki allur demókrataflokkur Bandaríkjanna) var kominn í barnavændi á pizzustað :), gott ef sami flokkur var ekki farinn að standa að því að láta myrða fólk, erfðabreytt matvæli voru (auðvitað) eitt stórt samsæri, bólusetningar að sjálfsögðu ekkert annað en samsæri – og ef annað var ekki boði þá voru einhverjir tónlistarmenn annað hvort þátttakendur í samsæri eða fórnarlömb [eins og hverjum sé ekki sama].

Þörfin fyrir næsta „fix“ af samsæri var nánast orðin óbærileg og allt var samþykkt möglunarlaust.

Ég er ekki frá því að þetta sé grunnurinn að ákveðinni heimskun kjósenda og þar af leiðandi upphafið að ákveðinni hnignun sem við erum rétt að fá forsmekkinn af.

Brexit og Trump eru fínasta dæmi um þetta. Ekki svo að skilja að þessar kosningar hafi beinlínis flotið á samsærum. En þeir sem unnu keyrðu á rangfærslum og lygum og fönguðu atkvæða þeirra fáfróðu og auðtrúa.

Þannig virðist dómgreind almennings hefur farið aftur, fólk samþykkir fullyrðingar ef þær eru settar fram í dramatískum YouTube myndböndum, „Photoshoppaðar“ myndir eru góðar og gildar, jafnvel hreinar og klárar lygar, hvers kyns dylgjur eru teknar sem staðreyndir, tíst eru staðreyndir, einföld mistök sannanir um yfirgripsmikil samráð, langsóttar tengingar eru endanlegar sannanir, óljósar getgátur góðar og gildar og fullyrðingar á bloggsíðum nefndar til sögunnar sem rök.

Efasemdir, leit að mótrökum, athugun á sannleiksgildi, einföld rökhugsun er látið liggja á milli hluta.

Þessi grunnur fáfræði og trúgirni eru nefnilega það sem hefur kostað okkur að fáfræðin hefur sigrað.

Og ég er smeykur um að þetta eigi eftir að versna.

Kyngreining úr íslensku

Posted: ágúst 12, 2017 in Umræða

Eflaust telst ég til gamaldags málverndunarsinna, er stöðugt að amast við slettum og leiðrétta málfar og benda á stafsetningarvillur [vonandi er þessi færsla í lagi!].

Og ekki geri ég lítið úr því að vilja halda fjölbreytileika og blæbrigðum í íslensku máli.

En mér dettur samt í hug hvort ekki sé ráð að fella niður kyngreiningu. Skiptir hún nokkru máli yfirleitt? Hvort einhver sé hann eða hún er í rauninni algjört aukaatriði.

Fótbolti og peningar

Posted: ágúst 4, 2017 in Fótbolti, Umræða

Það þarf svolítið mikið til að mér blöskri peningarnir í fótboltanum. En þrennt í þessari viku er að ganga fram af mér.

Ég hef gaman af fótbolta, þó ég sé reyndar ekki þessi dæmigerði heiti aðdáandi. Breiðablik er mitt lið hér heima, Derby á Englandi, með Arsenal til vara í efstu deild, Barcelona á Spáni… en hef nú ekki valið mér lið annars staðar. Aðallega hef ég gaman af að horfa á góðan fótbolta, hvort sem er að fylgjast með þessum liðum, fylgjast með stórmótum, leiki í Þýskalandi, bestu kvennaliðin – einfaldlega ef ég dett inn á skemmtilegan leik.

Ég fylgist með fréttum, kaupi Stöð2 Sport, fer öðru hverju á leiki erlendis og spila sjálfur einu sinni í viku yfir veturinn.

Tilboð upp á sextán þúsund fyrir miða á æfingaleik enskra liða hér á Laugardalsvelli er eitt, mögulegir peningar fyrir eitt íslenskt lið sem myndu brengla fótboltann hér heima og svo óskiljanleg upphæð fyrir einn leikmann.