Það þarf svolítið mikið til að mér blöskri peningarnir í fótboltanum. En þrennt í þessari viku er að ganga fram af mér.
Ég hef gaman af fótbolta, þó ég sé reyndar ekki þessi dæmigerði heiti aðdáandi. Breiðablik er mitt lið hér heima, Derby á Englandi, með Arsenal til vara í efstu deild, Barcelona á Spáni… en hef nú ekki valið mér lið annars staðar. Aðallega hef ég gaman af að horfa á góðan fótbolta, hvort sem er að fylgjast með þessum liðum, fylgjast með stórmótum, leiki í Þýskalandi, bestu kvennaliðin – einfaldlega ef ég dett inn á skemmtilegan leik.
Ég fylgist með fréttum, kaupi Stöð2 Sport, fer öðru hverju á leiki erlendis og spila sjálfur einu sinni í viku yfir veturinn.
Tilboð upp á sextán þúsund fyrir miða á æfingaleik enskra liða hér á Laugardalsvelli er eitt, mögulegir peningar fyrir eitt íslenskt lið sem myndu brengla fótboltann hér heima og svo óskiljanleg upphæð fyrir einn leikmann.