Sarpur fyrir febrúar, 2013

Ingólfur Júlíusson, ljósmyndari, gítarleikari og ég-veit-ekki-hvað hefur barist við erfiðan sjúkdóm í nokkra mánuði.

Ofan á alla erfiðleikana og ofan á allt það álag fylgir svona veikindum þá hefur þetta komið illa niður á fjárhag heimilisins.

Ingólfur hefur verið einstaklega hjálplegur við fjölskyldu, vini, kunningja og þess vegna hálf ókunnuga í gegnum tíðina – og nú er komið að okkur að styrkja Ingólf.

Fimmtudagskvöldið 28. febrúar verða hljómleikar í Norðurljósasal Hörpu til stuðnings Ingólfi.

Þarna koma fram:

 • Ari Eldjárn
 • Bodies
 • Dimma
 • Fræbbblarnir
 • Hellvar
 • Hljómeyki
 • Hrafnar
 • Hörður Torfason
 • KK
 • Nóra
 • Nýdönsk
 • ÓP-hópurinn
 • Q4U

sem í sjálfu sér er nægilega góð ástæða til að mæta.

En þegar við bætist að allir þeir sem koma fram gefa sínu vinnu og Ingólfur og fjölskylda njóta góðs af þá er þetta auðvitað skyldumæting.

Tölfræðiklám

Posted: febrúar 26, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Það fer alltaf í taugarnar á mér þegar tölfræði er notuð til að sýna fram á eitthvað án þess að nokkrar forsendur séu fyrir að lesa úr tölunum.

Nú heyrum við fréttir af því að beiðnum lögreglu um hlerarnir sé nánast aldrei hafnað, eitthvað um 1%. Og gefið er í skyn að við eigum að draga þær ályktanir að heimilidir til hlerana séu misnotaðar.

Fyrir það fyrsta þá segir þetta ekki neitt. Mögulega hefur lögreglan einfaldlega tamið sér vinnubrögð þannig að lítið sé um ástæðulausar beiðnir. Og hitt er líka rétt að hafa í huga, að skaði þess sem er hleraður er oftast lítill sem enginn, að minnsta kosti ef rétt er farið með gögn.. á meðan það geta verið miklir hagsmunir af því að upplýsa erfið mál.

Ef einhver getur bent á að heimild til hlerunar hafi verið veitt án gildrar ástæðu þá eru það góð rök til að halda því fram að þær séu of oft veittar.

Og ef einhver getur bent á að gögn úr hleruðum símtölum hafi verið misnotuð, þá er það heldur betur góð ástæða til að endurskoða lög og reglugerðir.

Hvort tveggja eru góð og gild málefnaleg rök.

Svona tölfræði eru marklausar upplýsingar sem segja nákvæmlega ekki neitt.

 

Ég hélt að vinur minn væri að gera grín að mér þegar hann sagði við mig í hádeginu að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samþykkt ályktun þess efnis að það ætti að hafa kristin gildi að leiðarljósi við lagasetningar. Við höfum ólíkar skoðanir á trúmálum og þetta hefði verið dæmigert skot. Svo var þetta víst fúlasta alvara. Að minnsta kosti í einhverja klukkutíma.

Reyndar var setningin eitthvað á þá leið að hafa skyldi kristin gildi að leiðarljósi þegar það ætti við! Sem gerir setninguna fullkomlega marklausa, það má einfaldlega ákveða í hvert skipti að þau eigi aldrei við. Svona eins og ákvæði um að mála skulu öll hús í bænum appelsínugul þegar það á við.

Hitt er svo aftur að það hefur engin getað svarað mér, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, hver þessu kristnu gildi eru og hver þeirra skera sig frá svona almennu siðferði – gott ef ekki eftir síðasta landsfund sama flokks.

Þannig að setning þess efnis að hafa skuli eitthvað sem enginn getur sagt hvað er að leiðarljósi, bara þegar hentar, er fullkomlega marklaust hjal.

 

 

Ég skal játa (smá) fordóma

Posted: febrúar 22, 2013 in Umræða

Nú reyni ég, svona eftir bestu getu, að forðast að vera með fordóma, ég reyni að skoða hvert mál með opnum huga og hugsa fyrir hvort mögulega sé önnur hlið sem er þess virði að skoða.

Helst reyni ég að taka ekki afstöðu, nú eða dæma, fyrr en að vel athuguðu máli.

Ég játa hins vegar að ég er haldinn fordómum að einu leyti. Ef aðili ræður sér lögmann / lögmenn sem þekktir eru fyrir að verja og standa í málaferlum fyrir siðblinda glæpamenn, stóra sem smáa, fólk með vondan málstað og/eða herja á fólk með látum og hótunum út af hvers kyns smámunum…

Þá geri ég einfaldlega ráð fyrir að viðkomandi hafi vondan málstað. Vissulega jaðrar þetta við fordóma. En reynslan hefur líka haft sitt að segja.

Fimmtudagskvöldið 28. febrúar verða haldnir hljómleikar í Norðurljósum Hörpu til styrktar Ingólfi Júlíussyni sem barist hefur við bráðahvítblæði síðustu mánuði. Veikindin hafa reynst Ingólfi og fjölskyldu fjárhagslega erfið og hafa fjölskylda og vinir sameinast um að standa að þessum styrktarhljómleikum fyrir þau.

Við Fræbbblar tökum (að sjálfsögðu) þátt ásamt fjölda annarra tónlistarmanna og skemmtikrafta. Ég held satt að segja að það hafi tekist einstaklega vel til að setja upp bæði fjölbreytta og eftirminnilega dagskrá. Nánar um það þegar nær dregur.

Það gefa allir sína vinnu og tekjurnar renna óskiptar til Ingólfs og fjölskyldu.. ef einhver kemst ekki má styðja við þau með því að leggja inn á bankareikning 0319-26-002052, kennitölu 190671-2249.

Nánar um viðburðinn á http://www.facebook.com/events/354810194632973/.

Miðasala er hafin á http://www.harpa.is/midasala/framundan/nr/2374.

Klám og tunglferðir

Posted: febrúar 15, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég sá einhvers staðar þá fullyrðingu að fyrst við (auðvitað ekki við Íslendingar, heldur einhverjir aðrir) hefðum getað sent menn til tunglsins þá gætum við stöðvað dreifingu á klámi á netinu.

Þetta er auðvitað slá-ryki-í-augun-á-fólki fullyrðing og ekki ætluð til annars en að blekkja – þeas. bera saman eitthvað tvennt, láta líta út fyrir að það sé sambærilegt og draga svo ályktun.

Auðvitað er aðalástæðan fyrir því að bann á klámi er fáránleg sú að ríkisvaldinu kemur ekkert við hvort fólk vill horfa á klám eða ekki.

En svona fyrir þá sem vilja hengja sig í samlíkinguna þá er allt í lagi að hafa í huga að við vissum jú hvar tunglið var áður en ákveðið var að fara þangað. Það hefur enginn, mér vitanlega, getað skilgreint hvað er klám og hvað ekki – hvað þá að þær skilgreiningar sem hafa verið reyndar standist skoðun ólíkra tíma og menningarheima.

Og, jú, það er vissulega ekki hægt að segja að það sé fullkomlega útilokað að stöðva klám inn á tölvur landsmanna, að því gefnu að einhverjum tækist að skilgreina klám. En það myndi væntanlega kosta eitthvað svipað og að senda mann til tunglsins. Og setja fáránlegar takmarkanir á almenna notkun netsins. Við eigum kannski nóg af peningum í svona….

Ekki „trúleysingi“

Posted: febrúar 14, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Birgir Baldursson – og væntanlega fleiri – benti á góðan myndatexta frá Gudloysi á Facebook í gær..

I am not an „atheist“ because I don’t define myself by what I am not. I don’t fuck pigs either, but I don’t fell the need to call myself an „apigfucker“

sem útleggst í lauslegri þýðingu

Ég er ekki „trúleysingi“ vegna þess að ég skilgreini mig ekki út frá því sem ég er ekki. Ég sef ekki hjá svínum en ég hef enga þörf fyrir að kalla mig „ekkisvínahjásofari“

Þetta er nokkuð góður punktur. Og eins og Birgir bendir á, eru trúaðir ekki einfaldlega „skynsemisleysingjar“?

Okkur vantar eiginlega betra hugtak yfir þá sem aðhyllast heilbrigða skynsemi og hafna bábiljum, hjávísindum, hindurvitnum og hvers kyns kukli sem byggir ekki á öðru en óljósum hugdettum.

Einhverjar hugmyndir? Má taka Birgi á orðinu og svara „Nei, ég er ekki trúaður ég er skynsamur“?

 

Akademískt frelsi

Posted: febrúar 13, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Getur nokkuð verið að þeir sömu og höfðu hvað hæst um „akademískt frelsi“ þegar gerðar voru athugasemdir við vinnubrögð stundakennara við Háskóla Íslands um trúleysingja fyrir nokkru – séu þeir sömu og eru nú að fara fram á rannsóknir og jafnvel hreinsanir í þessum sama skóla?

Hvað skal kjósa? Þriðja hugsun

Posted: febrúar 11, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég verð svo í þessum vangaveltum um hvað ég get hugsað mér að kjósa og hvað ekki – að nefna nokkuð mikilvæg atriði, traust og trúverðugleika. Ég set eftirfarandi atriði ekki sem úrslitaatriði, en þau vega þungt.

 • Það gengur til dæmis ekki að flokkur tali um að minnka rekstur ríksisins en vilji á sama tíma halda ríkisreknu trúfélagi.
 • Það er ekki í boði að fá atkvæði frá mér þó frambjóðendur tali fjálglega um málfrelsi og frelsi eintaklingsins en lyfti svo ekki litla fingri þegar freklega er brotið á einföldum mannréttindum. Hér standa þeir verr að vígi sem eiga fulltrúa á þingi, það hefur til dæmis enginn lagt fram frumvarp um að breyta lögum um meiðyrði, hvað þá að bæta þeim skaðann sem beittir hafa verið misrétti.
 • Það gengur heldur ekki að tala um frjálsa samkeppni og afhenda svo völdum aðilum verðmæti, hvort sem það eru bankar eða veiðiheimildir.
 • Og það er mikilvægt að gera upp við hrunið. Ekki það að ég vilji „hengja“ alla sem annað hvort sváfu á verðinum eða gerðu mistök. En það skiptir máli að viðurkenna mistök, að hafa lært eitthvað og geta sagt hvað yrði gert öðru vísi.
 • Og svo má ekki gleyma að það er ekki í lagi að starfa við löggjöf og segjast hafa „haft hliðsjón“ af lögum við ákvarðanir í stað þess að fylgja þeim.
 • Svo gef ég lítið fyrir upphrópanir og loforð um töfralausnir í efnahagsmálum, nema viðkomandi geti sýnt hvernig viðkomandi lausn á að virka, málefnalega og með örkum og hafi svarað mótrökum.
 • Þá fer verulega stór mínus á vogina hjá flokki sem skartar frambjóðendum sem boða hvers kyns kukl og hjávísindi.

 

Hvað skal kjósa? Önnur hugsun…

Posted: febrúar 9, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég setti inn færslu fyrir nokkrum dögum þar sem ég velti fyrir mér hvað ég ætli að kjósa í næstu kosningum. Kannski er þetta ótímabært þegar ekki er ljóst hvaða valkostir verða í framboði…

Fyrir utan það sem ég nefndi fyrst, þeas. að vinnubrögðin skipta miklu máli, þá eru nokkur mál sem eru frágangssök. Ég veit að ég finn ekkert draumaframboð og engan lista eða flokk sem ég verð sammála í einu og öllu. Og auðvitað er ég tilbúinn til að skoða öll mál og skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar koma fram eða ef ég heyri góð rök.

En, að því óbreyttu, gef ég ekki afslátt af eftirfarandi atriðum (röðin skiptir ekki máli):

 • Fullan aðskilnað ríkis og kirkju, ég segi fullan til að losna við hártoganir og útúrsnúninga um núverandi fyrirkomulag.
 • Nýja stjórnarskrá á þessu ári, helst þá sem nú liggur fyrir, en það má auðvitað rökræða minni háttar breytingar. Framboð sem heldur því fram að núverandi stjórnarskrá sé bara nógu góð eða bíða megi með breytingar fær ekki atkvæði frá mér.
 • Afnám núverandi kvótakerfis, það má finna málamiðlun og gefa aðlögunartíma, en óbreytt kerfi með „eignarhaldi“ einstaklinga eða fyrirtækja á sameiginlegum auðlindum kemur ekki til greina.
 • Mannréttindi og málfrelsi verði færð til þess horfs sem þau eru í Evrópu og í fullri alvöru verði tekið á því að koma í veg fyrir frekari rassskellingar Mannréttindadómsstóls Evrópu.
 • Já og allt tal um afnám verðtryggingar er tóm tjara, amk. eitt og sér.