Ég hélt að vinur minn væri að gera grín að mér þegar hann sagði við mig í hádeginu að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samþykkt ályktun þess efnis að það ætti að hafa kristin gildi að leiðarljósi við lagasetningar. Við höfum ólíkar skoðanir á trúmálum og þetta hefði verið dæmigert skot. Svo var þetta víst fúlasta alvara. Að minnsta kosti í einhverja klukkutíma.
Reyndar var setningin eitthvað á þá leið að hafa skyldi kristin gildi að leiðarljósi þegar það ætti við! Sem gerir setninguna fullkomlega marklausa, það má einfaldlega ákveða í hvert skipti að þau eigi aldrei við. Svona eins og ákvæði um að mála skulu öll hús í bænum appelsínugul þegar það á við.
Hitt er svo aftur að það hefur engin getað svarað mér, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, hver þessu kristnu gildi eru og hver þeirra skera sig frá svona almennu siðferði – gott ef ekki eftir síðasta landsfund sama flokks.
Þannig að setning þess efnis að hafa skuli eitthvað sem enginn getur sagt hvað er að leiðarljósi, bara þegar hentar, er fullkomlega marklaust hjal.