Ég sé að heilbrigðisráðherra viðurkennir að hafa neytt ólöglegra vímuefna en vill ekki lögleiða neyslu þeirra.
Kannski finnst honum hann hafa farið illa út úr neyslu þeirra – sem ég efast nú reyndar um, ég sé ekki betur en að hann hafi verið ákaflega farsæll í starfi. Eða kannski finnst honum einfaldlega rétt að aðrar viðmiðanir gildi fyrir hann en aðra og betra sé fyrir hann að hafa vit fyrir öðrum.
Ég hef aldrei neytt ólöglegra vímuefna. Ég fór meira að setja í gegnum það að vera í hljómsveit sem var mjög virk og tók góðan þátt í skemmtanalífinu, þar sem nóg var um ólögleg efni. Ég veit að einhverjir efast um að ég segi satt, en það verður að hafa það – ég hef í alvöru aldrei neytt þessara efna.
Ég hef alveg séð fólk lenda í vandræðum. Og ekki efast ég um að neysla þessara efni geti haft alvarlegar afleiðingar. En hitt er líka vel þekkt, fólk prófar, notar tímabundið, hættir og kemst vandræðalaust frá því.
Þetta snýst í fyrsta lagi um það að fólk á að hafa val um að taka heimskulegar ákvarðanir sjálft.
Og þetta snýst um að baráttan gegn notkun ólöglegra vímuefna er löngu gjörsamlega töpuð, gerir illt verra og er í eðli sínu illa ígrunduð. Það eina sem virkar er fræðsla.