Sarpur fyrir október, 2014

Ég sé að heilbrigðisráðherra viðurkennir að hafa neytt ólöglegra vímuefna en vill ekki lögleiða neyslu þeirra.

Kannski finnst honum hann hafa farið illa út úr neyslu þeirra – sem ég efast nú reyndar um, ég sé ekki betur en að hann hafi verið ákaflega farsæll í starfi. Eða kannski finnst honum einfaldlega rétt að aðrar viðmiðanir gildi fyrir hann en aðra og betra sé fyrir hann að hafa vit fyrir öðrum.

Ég hef aldrei neytt ólöglegra vímuefna. Ég fór meira að setja í gegnum það að vera í hljómsveit sem var mjög virk og tók góðan þátt í skemmtanalífinu, þar sem nóg var um ólögleg efni. Ég veit að einhverjir efast um að ég segi satt, en það verður að hafa það – ég hef í alvöru aldrei neytt þessara efna.

Ég hef alveg séð fólk lenda í vandræðum. Og ekki efast ég um að neysla þessara efni geti haft alvarlegar afleiðingar. En hitt er líka vel þekkt, fólk prófar, notar tímabundið, hættir og kemst vandræðalaust frá því.

Þetta snýst í fyrsta lagi um það að fólk á að hafa val um að taka heimskulegar ákvarðanir sjálft.

Og þetta snýst um að baráttan gegn notkun ólöglegra vímuefna er löngu gjörsamlega töpuð, gerir illt verra og er í eðli sínu illa ígrunduð. Það eina sem virkar er fræðsla.

Ég að einhver þingmaður nær ekki þeirri hugsun að samflokksmaður hans hafi sjálfstæða skoðun og sé ekki með sömu skoðun og hinir „í liðinu“.

Kannski kristalla þessi ummæli þingmannsins stærsta vanda íslenskra stjórnmála. Menn eru saman „í liði“ og í einhvers konar keppni við „andstæðingana“. Það sem skiptir máli er að hafa betur í keppninni. Ekki að komast að niðurstöðu með því að ræða málið.

Á meðan það þykir undarlegt og tilefni til að móðgast að þingmaður hafi sjálfstæða skoðun – og á meðan það þykir yfirleitt fréttnæmt – þá vantar „ljósár“ upp á þroska manna til að sitja á löggjafarsamkomu.

Auðvitað er rétt að loka síðum eins og „deildu“. Það má vera að það sé ekki erfitt að fara fram hjá svona lokunum og væntanlega finna þeir sem reka þetta sér aðrar leiðir.

Og auðvitað eru til betri leiðir til að berjast gegn ólögmætri dreifingu efnis, þeas. þjófnaði.

En það eru kostir við svona lokanir.

Þetta truflar fyrir og tefur rekstur á svona síðum.

Þetta sendir ákveðin skilaboð og áminningu um að þetta er ekki í lagi. Ef þjófnaður er látinn óátalinn (svona almennt séð) þá eru það skilaboð til þeirra sem vilja stela að þetta sé í rauninni í góðu lagi.

Mögulega fara einhverjir þeirra sem hafa notað síðurnar að hugsa sinn gang.

Og kannski verður það til þess að færri missa vinnuna, td. við framleiðslu á efni, útgáfu tónlistar. Jú það eru staðfest dæmi þess að hætt hefur verið við framleiðslu á sjónvarpsefni vegna þess að fyrri hlutar voru „í boði“ á deildu. Er það ekki hið besta mál?

Víst er í lagi að banna vefsíður..

Posted: október 13, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Það hefur skapast nokkur umræða síðustu daga um hvort rétt hafi verið að loka ákveðinni vefsíðu. Fyrir það fyrsta þá er hverju fyrirtæki auðvitað heimilt að ákveða hverja það vill stunda viðskipti við.

Hitt er að ég hef séð nokkuð marga kvarta undan þessari lokun, á forsendum sem ég er fullkomlega ósammála.

Að hluta til hafa þessi mótmæli verið byggð á að ekki séu skýrar lagaheimildir, að hluta til á að tjáningarfrelsi sé það algilt að ekki megi í nokkru tilfelli loka síðum og í einhverjum tilfellum annað innihald síðunnar væri það mikils virði að ekki mætti loka henni.

Þeim sem hafa mótmælt þessu hefur að vísu vafist fingur um lyklaborð þegar ég hef borið þetta saman við síður sem hýsa barnaklám eða væru að boða stuðning við kynþáttahatur með efni þar sem fólk er myrt.

Í þessu tiltekna tilfelli er vefsíðan beinlínis verkfæri morðingja.. þeas. þeir drepa fólk og nýta vefsíðu til að birta og auglýsa verknaðinn í áróðursskyni. Ef ekki væri í boði að dreifa þessum viðbjóði á vefnum þá væri ekki tilefni til þessara morða.

Það er að vísu réttmæt ábending að þetta má ekki vera geðþótta ákvörðun hverju sinni. Og ég skal játa að ég er ekki viss um hvernig þetta stenst lög eða hvaða lög…

Þessar ábendingar eru góðar og gildar og um að gera að ræða þann vinkil. En þetta snýr eingöngu að því að við þurfum þá að lagfæra lögin og tryggja að hægt sé að loka á svona efni. Hvort sem um er að ræða morð á saklausu fólki, barnaklám eða annan hatursáróður þar sem vefsíður bjóða upp á eða stuðla að lögbrotum.

Ekki ræða hvort þetta þýði að við getum eða getum ekki lokað þessum síðum, ræðum þetta á þeim nótum að við þurfum hugsanlega að bæta löggjöfina.

Ég greip nokkra búta úr umræðum um frumvarp til að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum í fréttum Rúv í gær.. ég ætlaði nú reyndar að láta það gott heita sem ég hef skrifað um þetta mál – en ég var eiginlega enn pirraður yfir rökleysunum þegar ég vaknaði í morgun.

Ég heyrði Ögmund Jónasson tala af miklu yfirlæti niður til flutningsmanna, hvort þeir væru „börn“ og að auðvitað myndu kaupmenn stilla rauðvíninu upp við hliðina á steikunum (man ekki orðrétt).

Fyrir það fyrsta.. kannski hefur Ögmundur ekki komið til útlanda, en ég hef oft verið á flakki, það hefur alveg komið fyrir að ég hafi farið í matvöruverslanir en ég man ekki til þess að rauðvíni hafi verið stillt upp hjá kjötinu. Það hefur (eðlilega) verið með öðrum drykkjarvörum. Kannski þekkist þetta, ég ætla ekki að fullyrða, en þetta er að minnsta kosti ekki vaninn.. ekki frekar en að kaupmenn stilli (óhollum gossullinu) upp hjá kjötinu í dag.

Svona yfirlæti er auðvitað þreytandi, en það fyllir mælinn þegar það er byggt á fáfræði.

Þetta er auðvitað ekkert aðalatriði.

Aðalatriðið er að jafnvel þó kaupmenn myndu stilla víninu upp hjá kjötinu þá er ég alveg fullfær um að taka ákvörðun sjálfur um hvað ég kaupi og hvað ég kaupi ekki. Ögmundur og/eða aðrir þingmenn þurfa einfaldlega ekkert að hafa vit fyrir mér. Við erum ekki börn. Takk fyrir umhyggjuna, en sama og þegið.

Annar þingmaður talaði um að áfengi myndi flæða hér ef breytingin yrði samþykkt. Já, já, eins og áfengi flæðir í þeim löndum Evrópu sem hafa leyft sölu áfengis í matvöruverslunum..

Enn einn talaði af alvöru um að þetta væri „lýðheilsumál“. Mögulega. En í ljósi þess að við Íslendingar erum ekki fyrirmyndir annarra þjóða þegar kemur að áfengisneyslu – og aðrar þjóðir eru ekki að fara að taka upp þann sið Íslendinga að selja áfengi í ríkisreknum sérverslunum – þá er kannski vert að velta fyrir sér hvort núverandi fyrirkomulag sé einmitt „lýðheilsuvandamál“. Og það væri til mikilla bóta að hætta að umgangast áfengi með þeim Molbúahætti sem við gerum.

PS. nei mér er alls ekkert illa við Ögmund, er oft sammála honum (ja, amk. kemur það fyrir), hann er sjálfum sér samkvæmur og hans afstaða og rökin fyrir henni eru yfirleitt skýr – ég er einfaldlega ósammála í þetta sinn.

Ég er ekki frá því að ákveðin straumhvörf séu að verða í umræðum um trúmál og trúleysi hér á landi.

Til skamms tíma höfum við trúlaus verið máluð sem sérvitringar og jafnvel „kverúlantar“ sem sitja nöldrandi út í horni og enginn þarf að taka alvarlega. Með dyggri aðstoð hlutdrægra fjölmiðla hefur verið máluð brengluð mynd af þeim sem ekki vilja hafa ríkisrekið trúfélag.

En trúleysingjar í Siðmennt og Vantrú hafa – með kannski ólíkri nálgun – opnað umræðuna, málefnalega, og bent á eitt og annað sem stenst ekki í samfélagi sem vill virða trúfrelsi/frelsi til lífsskoðana og sýna þeim mismunandi skoðunum umburðarlyndi.

Umræðan hefur stöður orðið sýnilegri og smátt og smátt hefur orðið meira og meira áberandi að það eru hvorki meðlimir Siðmenntar né Vantrúar sem eru sérvitringarnir eða „kverúlantarnir“..

Það er fjarri mér að alhæfa.. það er mikið af góðu fólki sem vill vel, bæði innan kirkjunnar og annarra trúfélaga – fólk sem hægt er að eiga málefnalegar samræður við.

Það sem hefur breyst er – mögulega í einhvers konar örvæntingu – að sífellt fleiri talsmenn kirkjunnar opinbera forneskjulegan þankagang með umræðuhefð sem varla verður kölluð annað en skítkast, útúrsnúningar og jafnvel klár ósannindi – í bland við kröfur sem jaðra við óstjórnlega heimtufrekju.

Ég sé merki þess að það hilli undir lokin á baráttu Siðmenntar og Vantrúar… það liggur við að við getum slakað á og leyft öfgamönnum í forsvari kirkjunnar að koma henni hjálparlaust úr ríkisforsjá. Þeim fjölgar stöðugt sem sjá að svona starfsemi á ekki heima í ríkisrekstri.

Ég er nú samt ekki verr innrættur en svo að ég vona virkilega að kirkjan hafi rænu á að skipta um talsmenn áður en þeir ná að valda henni meiri skaða.

Ég er að minnsta kosti sannfærður um að það er vel leysanlegt að koma starfsemi hvers kyns lífsskoðunarfélaga fyrir þannig að hver fái að hafa sína skoðun í friði og láta vera að krefjast þess að aðrir borgi brúsann. En bestu bandamenn okkar sem vilja breytingar eru öfgamennirnir í forsvari ríkiskirkjunnar.