Posts Tagged ‘Vefsíður’

Auðvitað er rétt að loka síðum eins og „deildu“. Það má vera að það sé ekki erfitt að fara fram hjá svona lokunum og væntanlega finna þeir sem reka þetta sér aðrar leiðir.

Og auðvitað eru til betri leiðir til að berjast gegn ólögmætri dreifingu efnis, þeas. þjófnaði.

En það eru kostir við svona lokanir.

Þetta truflar fyrir og tefur rekstur á svona síðum.

Þetta sendir ákveðin skilaboð og áminningu um að þetta er ekki í lagi. Ef þjófnaður er látinn óátalinn (svona almennt séð) þá eru það skilaboð til þeirra sem vilja stela að þetta sé í rauninni í góðu lagi.

Mögulega fara einhverjir þeirra sem hafa notað síðurnar að hugsa sinn gang.

Og kannski verður það til þess að færri missa vinnuna, td. við framleiðslu á efni, útgáfu tónlistar. Jú það eru staðfest dæmi þess að hætt hefur verið við framleiðslu á sjónvarpsefni vegna þess að fyrri hlutar voru „í boði“ á deildu. Er það ekki hið besta mál?

Víst er í lagi að banna vefsíður..

Posted: október 13, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Það hefur skapast nokkur umræða síðustu daga um hvort rétt hafi verið að loka ákveðinni vefsíðu. Fyrir það fyrsta þá er hverju fyrirtæki auðvitað heimilt að ákveða hverja það vill stunda viðskipti við.

Hitt er að ég hef séð nokkuð marga kvarta undan þessari lokun, á forsendum sem ég er fullkomlega ósammála.

Að hluta til hafa þessi mótmæli verið byggð á að ekki séu skýrar lagaheimildir, að hluta til á að tjáningarfrelsi sé það algilt að ekki megi í nokkru tilfelli loka síðum og í einhverjum tilfellum annað innihald síðunnar væri það mikils virði að ekki mætti loka henni.

Þeim sem hafa mótmælt þessu hefur að vísu vafist fingur um lyklaborð þegar ég hef borið þetta saman við síður sem hýsa barnaklám eða væru að boða stuðning við kynþáttahatur með efni þar sem fólk er myrt.

Í þessu tiltekna tilfelli er vefsíðan beinlínis verkfæri morðingja.. þeas. þeir drepa fólk og nýta vefsíðu til að birta og auglýsa verknaðinn í áróðursskyni. Ef ekki væri í boði að dreifa þessum viðbjóði á vefnum þá væri ekki tilefni til þessara morða.

Það er að vísu réttmæt ábending að þetta má ekki vera geðþótta ákvörðun hverju sinni. Og ég skal játa að ég er ekki viss um hvernig þetta stenst lög eða hvaða lög…

Þessar ábendingar eru góðar og gildar og um að gera að ræða þann vinkil. En þetta snýr eingöngu að því að við þurfum þá að lagfæra lögin og tryggja að hægt sé að loka á svona efni. Hvort sem um er að ræða morð á saklausu fólki, barnaklám eða annan hatursáróður þar sem vefsíður bjóða upp á eða stuðla að lögbrotum.

Ekki ræða hvort þetta þýði að við getum eða getum ekki lokað þessum síðum, ræðum þetta á þeim nótum að við þurfum hugsanlega að bæta löggjöfina.