Auðvitað er rétt að loka síðum eins og „deildu“. Það má vera að það sé ekki erfitt að fara fram hjá svona lokunum og væntanlega finna þeir sem reka þetta sér aðrar leiðir.
Og auðvitað eru til betri leiðir til að berjast gegn ólögmætri dreifingu efnis, þeas. þjófnaði.
En það eru kostir við svona lokanir.
Þetta truflar fyrir og tefur rekstur á svona síðum.
Þetta sendir ákveðin skilaboð og áminningu um að þetta er ekki í lagi. Ef þjófnaður er látinn óátalinn (svona almennt séð) þá eru það skilaboð til þeirra sem vilja stela að þetta sé í rauninni í góðu lagi.
Mögulega fara einhverjir þeirra sem hafa notað síðurnar að hugsa sinn gang.
Og kannski verður það til þess að færri missa vinnuna, td. við framleiðslu á efni, útgáfu tónlistar. Jú það eru staðfest dæmi þess að hætt hefur verið við framleiðslu á sjónvarpsefni vegna þess að fyrri hlutar voru „í boði“ á deildu. Er það ekki hið besta mál?