Það hefur skapast nokkur umræða síðustu daga um hvort rétt hafi verið að loka ákveðinni vefsíðu. Fyrir það fyrsta þá er hverju fyrirtæki auðvitað heimilt að ákveða hverja það vill stunda viðskipti við.
Hitt er að ég hef séð nokkuð marga kvarta undan þessari lokun, á forsendum sem ég er fullkomlega ósammála.
Að hluta til hafa þessi mótmæli verið byggð á að ekki séu skýrar lagaheimildir, að hluta til á að tjáningarfrelsi sé það algilt að ekki megi í nokkru tilfelli loka síðum og í einhverjum tilfellum annað innihald síðunnar væri það mikils virði að ekki mætti loka henni.
Þeim sem hafa mótmælt þessu hefur að vísu vafist fingur um lyklaborð þegar ég hef borið þetta saman við síður sem hýsa barnaklám eða væru að boða stuðning við kynþáttahatur með efni þar sem fólk er myrt.
Í þessu tiltekna tilfelli er vefsíðan beinlínis verkfæri morðingja.. þeas. þeir drepa fólk og nýta vefsíðu til að birta og auglýsa verknaðinn í áróðursskyni. Ef ekki væri í boði að dreifa þessum viðbjóði á vefnum þá væri ekki tilefni til þessara morða.
Það er að vísu réttmæt ábending að þetta má ekki vera geðþótta ákvörðun hverju sinni. Og ég skal játa að ég er ekki viss um hvernig þetta stenst lög eða hvaða lög…
Þessar ábendingar eru góðar og gildar og um að gera að ræða þann vinkil. En þetta snýr eingöngu að því að við þurfum þá að lagfæra lögin og tryggja að hægt sé að loka á svona efni. Hvort sem um er að ræða morð á saklausu fólki, barnaklám eða annan hatursáróður þar sem vefsíður bjóða upp á eða stuðla að lögbrotum.
Ekki ræða hvort þetta þýði að við getum eða getum ekki lokað þessum síðum, ræðum þetta á þeim nótum að við þurfum hugsanlega að bæta löggjöfina.
Var sem sagt í lagi að krítarkortafyrirtæki neituðu að taka við framlögum til Wikileaks?
„Fyrir það fyrsta þá er hverju fyrirtæki auðvitað heimilt að ákveða hverja það vill stunda viðskipti við.“
Og, hvaða lög voru brotin með þessari síðu sem var lokað?
Auðvitað er fyrirtækjum eins og einstaklingum heimilt að ákveða hverja þeir skipta við… en það er líka krafa að þær neitanir byggi á almennum skilmálum og löggjöf.
Ég tók fram að ég vissi ekki hvaða lög hefðu verið brotin, það er aukaatriði, ef svo var ekki, þá þarf að bæta löggjöfina.
Og svo ég bæti við fyrri spurninguna: Væri í lagi að fyrirtækið sem hýsir bloggið þitt lokaði því, og að lénaveitur heimsins tækju sig saman um að úthýsa þér alls staðar?
Já
Gott að það sé á hreinu, en ég er algerlega ósammála því að það eigi að mega loka vefsíðum fólks að geðþótta. Þá erum við komin með ritskoðun þeirra sem völdin hafa.
Fyrirtæki geta ráðið hverja þeir hafa í viðskiptum, ég eiginlega næ ekki þeirri hugsun að ætla að þvinga fyrirtæki eða einstaklinga til viðskiptasambanda..
En ef þú lest pistilinn þá er ég hvergi að tala um að ríkisvaldið geri þetta að „geðþótta“ heldur að sett sé skýr og afdráttarlaus lög.
Og svo ég spyrji nú um „uppáhaldssamlíkinguna mína“ (sem ég spyr þá sem finnst fráleitt að loka síðunni) er þá líka óverjandi að loka síðum með barnaklámi? Ég veit að þessi spurning fer óendanlega í taugarnar á þeim sem telja sig verja tjáningarfrelsi og vera að berjast gegn ritskoðun.. en ég hef ekki fengið nein svör nema þau að fólk þykist vera móðgað og yfir það hafið að svara efnislega.
Þetta er ekki svona einfalt í mörgum tilfellum. T.d. er bannað að segja fólki upp vinnu á ómálefnalegum forsendum. Þar er um að ræða þvingun gegn einkafyrirtækjum um hvern þau eiga „viðskipti“ við. Eins var, muni ég rétt, ólögmætt af krítarkortafyrirtækjum að neita að taka við framlögum til Wikileaks. Þegar um er að ræða gæði sem hið opinbera hefur eitthvað yfir að segja, eins og internetið, sem fellur undir fjarskiptalög, finnst mér sjálfsögð krafa að einkafyrirtæki megi ekki mismuna viðskiptavinum á ómálefnalegum grundvelli.
Varðandi það að setja skýr og afdráttarlaus lög er ég alveg sammála. Það ætti aldrei að loka vefsíðum nema á þeim fari fram lögbrot. Hins vegar má deila um hvernig slík lög eigi að vera. Núverandi lög um hatursáróður á Íslandi eru hryllilega vond, því þar er það gert refsivert að hvetja til fordóma.
Varðandi barnaklámssamlíkinguna (sem mér finnst óeðlilegt að vera pirraður út í, enda finnst mér líka ómálefnalegt að telja eitthvað rangt við samlíkingar við Hitler og nasista) er svarið einfalt: Framleiðsla og dreifing barnakláms er ólögleg. Þess vegna er það lögbrot að sýna barnaklám á vefsíðum, og vefsíðum þar sem lög eru brotin með birtingu efnis er sjálfsagt að loka.
Ég þekki ekki þetta WikiLeaks dæmi.. en muni ég rétt þá snerist það um að þau tóku við greiðslum en komu þeim ekki til skila, sem er auðvitað fráleitt.
Mögulega eiga að vera skilmálar fyrir leyfi til að reka fjarskipta eða fjármálafyrirtæki. En mér finnst ekki ómálefnalegt að hafna viðskiptum á þeim forsendum að eigandi efnis sé að birta morð. Og síðast þegar ég vissi var það lögbrot að myrða fólk.
En ertu þá ekki sammála að fyrst framleiðsla á barnaklámi er ólögleg, og morð eru ólögleg, þá er það góð og gild ástæða?
Barnaklámi er refisvert að dreifa. Að hafa barnaklám á vefsíðu er að dreifa því, og þar með lögbrot. Að setja myndir af morðum á vefsíður er ekki lögbrot (enda er fjöldi dæma um það hjá vefmiðlum sem ekki hefur verið amast við).
Morðingjar eiga að njóta mannréttinda eins og aðrir. Þess vegna ætti að vera óréttmætt að loka vefsíðu manneskju sem er morðingi, af því að hún sé morðingi. (Athyglisverð spurning í þessu samhengi: Bandaríkjastjórn fremur reglulega morð (líklega í hverjum mánuði). Myndirðu vilja banna vefsíður á vegum bandaríska sendiráðsins á íslensku léni?)
Það ætti sem sagt, tel ég, aðeins að vera í lagi að loka vefsíðu vegna innihalds hennar ef innihaldið sjálft felur í sér lögbrot.
Ef það á að vera í lagi loka á síður án þess að um lögbrot hafi verið að ræða, bara af því að eigandi hýsingarfyrirtækisins telji að síðueigandi sé vond manneskja, þá sé ég ekki hver ætti að skilgreina hver er vondur. Nema við látum fyrirtækinu bara eftir að gera það, en þá lendum við í þessu vandamáli að fyrirtækið getur viljað mismuna á grundvelli húðlitar, til dæmis. VIljum við koma í veg fyrir það, með löggjöf gegn mismunun á slíkum grundvelli, þá sé ég ekki hvernig slík löggjöf gæti litið út, ef hún ætti að passa við þá afstöðu sem þú virðist hafa.
Kannski ætti það að vera lögbrot að setja myndir af morðum, amk. í ágóða- og/eða áróðursskyni.
Morðingjar eiga að njóta mannréttinda (eins og allir, líka barnaníðingar og bandaríska sendiráðið). En það eru ekki mannréttindi að nýta sér morð í áróðursskyni. Þetta snýst ekki um hver er vondur og hver ekki, þetta snýst um innihaldið og tilganginn með innihaldinu. Ef bandaríska sendiráðið setti upp síðu með morðum til að reka áróður fyrir einhverju, já, þá myndi ég klárlega vilja loka henni.
Hvað með ef Ku Klux Klan vildi reka hér síðu þar sem þeir kynna „málstað“ sinn og birta myndir af því þegar svertingjar eru myrtir? Allt í góðu lagi??
Ég er ekki að tala um að loka síðum vegna eðlis síðueiganda, ég er að tala um innihaldið og tilganginn með því. Það má vera að það sé einhver vinna að skilgreina þetta svo vel fari, en það er bara verkefni sem þarf að leysa.
Það er auðvitað hægt að hafa ólíkar skoðanir á því hvort ólöglegt eigi að vera að birta myndir af morðum (eða manndrápum yfirleitt). Mér finnst slikar myndir yfirleitt svo ógeðfelldar að ég veigra mér við að skoða þær, en ég er ekki með fyrirframmótaða afstöðu til þess hvort gera ætti slíkt ólöglegt. Þó hallast ég frekar gegn því, einfaldlega af því að ég hef áhyggjur af öllum takmörkunum á tjáningarfrelsi sem yfirvöld eigi að og megi úrskurða um.
En mér finnst að það eigi að gilda einfaldar reglur um ritskoðun, eins og þetta er sem hér er rætt um: Að það megi ekki koma í veg fyrir tjáningu sem ekki felur bókstaflega í sér lögbrot.
Það er svo hægt að ræða undir hvaða kringumstæðum einkafyrirtæki megi stunda slíkt, en ég vil líka hafa mjög strangar reglur þar. Alveg eins og það er ólöglegt að meina fólki aðgang að veitingahúsi á grundvelli litarháttar, kynhneigðar og trúarbragða tel ég að það ætti að vera ólöglegt að beita íþyngjandi aðgerðum vegna tjáningar sem ekki er ólögleg.
Að síðustu finnst mér jafn fráleitt að einkaaðilar ráði yfir lénaveitum sem í einhverjum skilningi tengjast Íslandi, þ.e.a.s. lénum sem íslensk lög taki sérstaklega til. Ég tel að um þær ætti að gilda það sama og um vegakerfið, að hið opinbera eigi að reka það og tryggja öllum aðgang að því sem ekki nota það til að brjóta lög.
OK, þá erum við kannski eitthvað að nálgast..
Ég er ekki að segja að það sé rétt að banna vondar skoðanir eða að skoðanir óæskilegra hópa megi hvergi koma fram. Og auðvitað eiga þetta að vera almennar og skýrar reglur.
Þetta tilfelli er sérstakt vegna þess að það er verið að níðast á (drepa) fólk í þeim tilgangi að koma skoðunum / málstað á framfæri.. og viðkomandi vefsíða er verkfæri í þeim tilgangi. Þetta er grundvallaratriði.. og þess vegna ber ég þetta saman við barnaklámið. Það eru raunveruleg fórnarlömb vegna þess að vefsíðan hefur þetta innihald.. það eru ekki skoðanirnar, heldur aðferðin við að koma þeim á framfæri sem eru viðmiðunin hjá mér. Í þessu tilfelli felur tjáningin í sér lögbrot.. og það mjög gróft.
Ég get verið sammála um að það eigi að vera almennar reglur um úthlutun léna, en ég vil sjá reglur sem koma í veg fyrir svona síður.
Og, telurðu í lagi að einkafyrirtæki neiti að afgreiða svart fólk?
Ekki „í lagi“, en það er ekki hægt að þvinga fyrirtæki eða fólk til að eiga viðskipti við neinn – mögulega má þó setja skýr skilyrði fyrir starfsleyfi – hins vegar er fyrirtæki væntanlega að brjóta önnur lög með því að neita fólki vegna kynþáttar. Viltu þvinga skemmtistaði til að hleypa þekktum ofbeldismönnum inn?
Að það sé eitthvert vandamál að afþakka viðskipti við morðingja, þar sem viðskiptin snúast um að nýta sér morðin í áróðursskyni er einfaldlega fráleitt.
En höfum reglur og lög skýr, ef þau eru það ekki fyrir..
Einar, það voru held ég alla vega engin lög brotin þegar síðunni var lokað, þar sem vísað var til viðskiptaskilmála viðkomandi fyrirtækja, annars vegar Advania og hins vegar ISNIC. Sá sem kemur á viðskiptasambandi við þessi fyrirtæki gengst undir þessa viðskiptaskilmála. Ekki kalla ritskoðun það sem ekki er ritskoðun.
Ef þú vilt endilega kafa dýpra í málið ættir þú þá e.t.v. að byrja á því að sannreyna hvort það sé ekki réttmætt mat þessara fyrirtækja að viðskiptaskilmálar þeirra hafi verið brotnir?
Það er svo allt annað mál að ræða bull eins og ákvæðin hans Ögmundar um það að það skuli hafa íslensk tengsl til þess að mega stofna .is. Það stenst náttúrulega engin rök og miklu eðlilegra að hafa hlutina frjálsa, en leyfa hverju fyrirtæki fyrir sig að ráða viðskiptaskilmálum sínum, innan ramma stjórnarskrár og gildandi landslaga. Þannig er hægt að taka á hverju máli fyrir sig eftir því sem þau koma upp, eins og þetta mál sýnir og leysa úr því. Ég tel þessa ákvörðun rétta, einkamál viðkomandi fyrirtækja og ekki þörf á miklum lagabreytingum í þessu sambandi. Önnur fyrirtæki mega þá eiga þessi viðskipti.
Einokun ISNIC á .is úthlutunum er síðan óskylt mál, en ég hélt satt að segja að það væri í raun búið að rjúfa slíkar einokanir í netheimum, alla vega hefur sú umræða farið fram og verkfæri til þess til staðar, hafi menn til þess áhuga.
Ég sagði reyndar ekkert um að lög hefðu verið brotin með lokun þessarar síðu. Né heldur minntist ég á ritskoðun.
En takk samt fyrir vinsamlegar og föðurlegar ábendingar, karlol …
Sæll Valgarður.
Ég er að verða nokkuð þreyttur á að alltaf þegar menn vilja ritskoðun þá er öllum hlutum stillt upp við hlið barnakláms.
Raunverulega spurningin er, má sýna morð eða má ekki sýna morð.
Má sýna morð ef þú ert með réttar skoðanir og siðferðiskennd?
Ég sá t.d. 60 minutes þátt þegar drápið (eða morðið, fer eftir því hvaða skoðun þú hefur) á Bin Laden var framkvæmt.
Mig minnir að aftakan sjálf hafi ekki verið sýnd en þetta var mikil hetjusaga…
Ég sá í sjónvarpi þegar Gadaffi var dreginn úr holu og stuttu síðar hengdur.
Þetta var sýnt í fjölmiðlum, kannski ekki gagrýnislaust en fjölmiðlum var ekki lokað.
Það var vegna þess að boðskapurinn var „réttur“
Það eru til óteljandi atvik í fréttamiðlum þar sem sýnd eru dráp, spurningin er : MÁ ÞAÐ?
Ef ég myndi aðhyllast „barnaklámskölti“ og væri að birta barnaklám á netinu þá væri ég að brjóta lög. ÞAÐ MÁ EKKI..
Ef ég væri fréttamaður á CNN og væri að fjalla um barnaklám og myndi birta myndir af barnaklámi með fréttinni þá væri ég líka að brjóta lög. ÞAÐ MÁ EKKI..
Ef ég væri múslimskur „hryðjuverkamaður“ og og sýndi dráp á fréttamanni á netinu þá er í lagi loka síðunni (veit ekki með lögin).
Ef ég væri fréttamaður CNN og sýndi sama drápið á fréttamanni þá er það í lagi, þ.e.a.s. ekki þarf að loka CNN (veit ekki með lögin).
Þannig að grundvallarspurningin er :
Má sýna dráp á netinu?
Hin spurningin er :
Viljum við að yfirvald eða einstök fyrirtæki ákveði fyrir okkur í hvaða samhengi við megum skoða dráp, þ.e.a.s. við megum sjá drápið hjá CNN en við megum ekki sjá sama drápið á síðu „hryðjuverkamanna“, það er eitthvað slæmt fyrir okkur…..
Að lokum vill ég taka fram að ég er á engan hátt að verja gjörðir isis og hef óbeit á því sem þeir eru að gera, ég hef áhyggjur á ritskoðun..
Ákveðnar ríkisstjórnir vilja loka á wikileaks vegna þess að þeir eru hryðjuverkamenn og síðan mata okkur á „réttum“ upplýsingum um hverskonar samtök wikileaks er…
Kveðja.
Snorri
Já, ég veit að það er þreytandi að fá erfiðar spurningar, breyttu samlíkingunni í Ku Klux Klan.. sbr. dæmi sem ég nefni.
En fyrir mér snýst þetta ekki um að sýna morð eða ekki – þegar fólk er drepið og upptaka af því er sett á vefsíðu í áróðurs- ágóðaskyni.. þá er vefsíðan orðin verkfæri, ef ekki væri áróðursgildið að setja á vefsíðuna, þá er líklegt að morðið hefði ekki verið framið. Þarna dreg ég mörkin. Það má vera að það sé einhver vinna að skilgreina þetta svo vel fari í lögum, en það er bara verkefni sem þarf að leysa.
Þannig að nei, ég set aðra mælikvarða á fjölmiðla, þó ég geti vissulega gagnrýnt þá fyrir að birta margt af því sem hefur komið þar fram.
Fyrirtæki mega að sjálfsögðu ákveða hverja þeir hafa í viðskiptum.