Sarpur fyrir júní, 2012

Kosningaútsendingafrí

Posted: júní 30, 2012 in Spjall
Efnisorð:

Kosningavakan núna er aðeins önnur kosningavakan síðan 1986 sem ég hef ekkert með tölvukerfi vegna sjónvarps- og útvarpsútsendinga að gera. Árið 1995 kom ég hvergi nærri og reyndar aðeins lítillega í forsetakosningunum 1998. Í mörg skipti var ég nánast á tvöfaldri vakt – bæði á RÚV og Stöð2.

Reyndar stendur þannig á hjá mér að ég veit ekki hvort ég fylgist með vökunni.

En burtséð frá því, þá er kannski kominn tími á þetta.

Ég styð Ara Trausta

Posted: júní 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef gert upp við mig að ég styð Ara Trausta í forsetaskoningunum.

Ari Trausti hefur einfaldlega kynnt hugmyndir sem mér hugnast best um hlutverk embættisins og hvernig hann vill nálgast það. Hann kemur fyrir sem greindur, heiðarlegur og að hafa burði til að leysa þau mál sem upp kunna að koma.

Mér líst að mörgu leyti vel á Þóru og Herdísi og gæti séð báðar fyrir mér sem forseta. Munurinn er kannski ekki mikill, en á endanum hefur Ari Trausti vinninginn. Ég get tekið heilshugar undir skilaboð Þóru um að hverfa frá átakastjórnmálum en sú barátta væri meira virði fyrir nýja stjórnmálaflokka en forsetaframbjóðanda. Þá truflar mig að (ég held) eina málefnið sem Þóra hefur tekið afstöðu til er að – þrátt fyrir trúleysi – vill hún halda kirkjunni sem ríkiskirkju.

Framganga Ólafs Ragnars fyrir hrun er næg ástæða til að þakka fyrir unnin störf og finna eftirmann. En þar fyrir utan er ég mjög ósáttur við framgöngu hans og stuðningsmanna hans í kosningabaráttunni. Mér finnst vond tilhugsun að svona vinnubrögð skili mönnum þetta stóru embætti.

Hannes kemur svo sem þokkalega vel fyrir en hefur einhvern veginn ekki náð að koma til skila hvernig forseti hann yrði. Kannski þarf einfaldlega meiri kraft í kynningar til að koma svona til skila, ósanngjarnt..

Andrea virðist vera vel meinandi – með „stórt hjarta“ – en hún hefur einfaldlega látið of margt frá sér fara sem ég er ekki sáttur við.

Mér finnst mjög mikilvægt að senda skýr skilaboð í forsetakosningunum á laugardag.

Þau skilaboð eiga að vera að við ætlum okkur að halda áfram að taka til eftir hrun.

Sitjandi forseti elti það sem hann hefur væntanlega talið líklegt til vinsælda fyrir hrun og gerði ítrekuð mistök. Ég fæ ekki betur séð en að þær ákvarðanir sem hann tók eftir hrun hafa mótast af þessu sama. Eltingaleik við vinsældir frekra en eigin dómgreind.

Hann hefur rekið frekar ógeðfellda kosningabaráttu með rangfærslum og yfirlæti, þar sem staðreyndir eru látnar liggja á milli hluta og látið nægja að endurtaka rangfærslur með nægilega valdsmannslegum hroka.

Ólafur Ragnar hefur auðvitað ekki verið alslæmur, fyrr mætti nú vera, en eins og ég sá einhvers staðar, þá er „ekki alslæmur“ varla nægjanleg lágmarkskrafa til að gegna forsetaembættinu.

Ef við ætlum að gera upp við hrunið þá þurfum við nefnilega að gera upp við þann hugsunarhátt sem leiddi til hruns. Ákvarðarnir Ólafs Ragnars fyrir hrun, eftir hrun og í kosningabaráttunni virðast nefnilega mótast af sama hugsunarhætti og kom okkur í koll.

Og við erum ekki búin að taka til fyrr en við setjum þann hugsunarhátt í ruslið.

Litli guli hænukjósandinn

Posted: júní 27, 2012 in Samfélag
Efnisorð:

Okkur er stundum hugsað til gamalla dæmisagna.

Einu sinni átti að velja nýjan lit á blokkina okkar. KRingurinn í hópnum stakk upp á að mála blokkina röndótta að hætti KRinga. Ólíkindatólið á þriðju hæðinni vildi hafa hana skærbleika. En flestir vildu hlutlausan hvítan lit.

Nú spurðist út að það væri talsvert um KRinga í blokkinni og að þeir gætu hugsanlega náð meirihluta. Þá var altalað að margir voru hrifnir af hugmyndinni um bleika blokk, hver af sinni ástæðu. Í rauninni voru bara 3 KRingar, enda blokkin í Keflavík. Og enginn vildi skærbleika blokk í alvörunni, þetta byrjaði bara sem einhver vitleysa og vatt upp á sig. Flestir vildu hafa blokkina hvíta.

En þegar litli gula hænukjósandinn fór að spyrja aðra íbúa hvað þeir ætluðu að kjósa voru svörin yfirleitt, „ja, að minnsta kosti ekki í KRlitunum“ eða „ja, alveg örugglega ekki bleika“. Smám saman skapaðist baráttu stemming á milli þeirra sem ekki vildu KRlitinn og þeirra sem ekki vildu bleika litinn. Þeir sem upphaflega voru sáttir við hvíta litinn voru orðnir svo óttaslegnir að þeir kusu annað hvort KRlitinn eða bleika litinn. Íbúarnir ákváðu að kjósa á móti því sem þeir óttuðust mest. Blokkin yrði máluð í þeim lit sem fengi flest atkvæði, ekki þyrfti að fá hreinan meirihluta og því vissara að kjósa „taktískt“.

Þegar til kom kusu 35 af íbúum KRlitina, 40 kusu bleika blokk en 25 kusu þann hvíta. Nítíu og sjö vildu í rauninni búa í hvítri blokk en búa nú í skærbleikri. Vegna þess að þeir kusu „taktískt“. Vegna þess að þegar þeir áttu að taka afstöðu og voru beðnir um að skila heiðarlegu atkvæði var svarið „Ekki ég“.

Viktor Orri útskrifast

Posted: júní 24, 2012 in Fjölskylda
Efnisorð:, ,

Þá er yngsti sonurinn, Viktor Orri, orðinn stjórnmálafræðingur. Viktor úrskrifaðist með  ágætis einkunn frá HÍ í gær, hærri einkunn en gefin hefur verið áður í 32 ára sögu deildarinnar… en svo þurfti félagi hans auðvitað að gera enn betur.

En við héldum upp á þetta hér heima með fjölskyldu og vinum – skemmtileg veisla í frábæru veðri… þegar leið á kvöldið kíktum við til Halla Reynis sem var að útskrifast sem kennari. Við duttum svo aftur inn í partýið hjá Viktori og vinum um nóttina.. virkilega flottur vinahópur.

Kannski tímanna tákn að rauðvínsflaska var algengasta útskriftargjöfin.

Andrés Helgi lenti hins vegar í smáslysi þegar hann skar sig í fingurinn.. en virðist hafa sloppið þokkalega.