Mér finnst mjög mikilvægt að senda skýr skilaboð í forsetakosningunum á laugardag.
Þau skilaboð eiga að vera að við ætlum okkur að halda áfram að taka til eftir hrun.
Sitjandi forseti elti það sem hann hefur væntanlega talið líklegt til vinsælda fyrir hrun og gerði ítrekuð mistök. Ég fæ ekki betur séð en að þær ákvarðanir sem hann tók eftir hrun hafa mótast af þessu sama. Eltingaleik við vinsældir frekra en eigin dómgreind.
Hann hefur rekið frekar ógeðfellda kosningabaráttu með rangfærslum og yfirlæti, þar sem staðreyndir eru látnar liggja á milli hluta og látið nægja að endurtaka rangfærslur með nægilega valdsmannslegum hroka.
Ólafur Ragnar hefur auðvitað ekki verið alslæmur, fyrr mætti nú vera, en eins og ég sá einhvers staðar, þá er „ekki alslæmur“ varla nægjanleg lágmarkskrafa til að gegna forsetaembættinu.
Ef við ætlum að gera upp við hrunið þá þurfum við nefnilega að gera upp við þann hugsunarhátt sem leiddi til hruns. Ákvarðarnir Ólafs Ragnars fyrir hrun, eftir hrun og í kosningabaráttunni virðast nefnilega mótast af sama hugsunarhætti og kom okkur í koll.
Og við erum ekki búin að taka til fyrr en við setjum þann hugsunarhátt í ruslið.
Líkar við:
Líka við Hleð...