Okkur er stundum hugsað til gamalla dæmisagna.
Einu sinni átti að velja nýjan lit á blokkina okkar. KRingurinn í hópnum stakk upp á að mála blokkina röndótta að hætti KRinga. Ólíkindatólið á þriðju hæðinni vildi hafa hana skærbleika. En flestir vildu hlutlausan hvítan lit.
Nú spurðist út að það væri talsvert um KRinga í blokkinni og að þeir gætu hugsanlega náð meirihluta. Þá var altalað að margir voru hrifnir af hugmyndinni um bleika blokk, hver af sinni ástæðu. Í rauninni voru bara 3 KRingar, enda blokkin í Keflavík. Og enginn vildi skærbleika blokk í alvörunni, þetta byrjaði bara sem einhver vitleysa og vatt upp á sig. Flestir vildu hafa blokkina hvíta.
En þegar litli gula hænukjósandinn fór að spyrja aðra íbúa hvað þeir ætluðu að kjósa voru svörin yfirleitt, „ja, að minnsta kosti ekki í KRlitunum“ eða „ja, alveg örugglega ekki bleika“. Smám saman skapaðist baráttu stemming á milli þeirra sem ekki vildu KRlitinn og þeirra sem ekki vildu bleika litinn. Þeir sem upphaflega voru sáttir við hvíta litinn voru orðnir svo óttaslegnir að þeir kusu annað hvort KRlitinn eða bleika litinn. Íbúarnir ákváðu að kjósa á móti því sem þeir óttuðust mest. Blokkin yrði máluð í þeim lit sem fengi flest atkvæði, ekki þyrfti að fá hreinan meirihluta og því vissara að kjósa „taktískt“.
Þegar til kom kusu 35 af íbúum KRlitina, 40 kusu bleika blokk en 25 kusu þann hvíta. Nítíu og sjö vildu í rauninni búa í hvítri blokk en búa nú í skærbleikri. Vegna þess að þeir kusu „taktískt“. Vegna þess að þegar þeir áttu að taka afstöðu og voru beðnir um að skila heiðarlegu atkvæði var svarið „Ekki ég“.