Archive for the ‘Samfélag’ Category

Eymd notuð til að ala á fordómum

Posted: febrúar 20, 2023 in Samfélag

Ég sé að nokkrir vina minna eru að deila færslu með mynd af einhverjum sem er í svefnpoka í strætóskýli og lýsir (eðlilega) áhyggjum af því að þannig sé komið fyrir einhverjum að þurfa að hýrast þarna.

Það sem truflar mig hins vegar er tilvísun í að fólk af öðrum uppruna, uppnefnt í viðkomandi færslu, hafi það gott hér á landi á meðan.

Nú veit ég svo sem ekkert hvaðan sá/sú sem var í strætóskýlinu kemur, hver saga viðkomandi er, hvaða úrræði hafa verið reynd til að aðstoða eða hvað hefur yfirleitt komið til – ég get ekki einu sinni verið viss um að þetta sé ekki sviðsett (þó það sé kannski ekki líklegt).

En ég get verið alveg viss um að það að taka vel á móti flóttafólki er ekki að koma í veg fyrir að allt sé reynt til að aðstoða fólk sem þarf að hjálp að halda, „landa“ okkar eins og sagt er í færslunni.

Orðljót barátta eða ekki

Posted: febrúar 16, 2023 in Samfélag

Það er svo sem ekkert leyndarmál að ég er ekki mikill stuðningsmaður stjórnar Eflingar.

Því ber ekki að rugla saman við að ég styðji ekki baráttu láglaunafólks, ég ber bara ekki mikla virðingu fyrir framgöngu eða hegðun forystu félagsins.

Í sjálfu sér getur komið fyrir besta fólk að missa sig í baráttu fyrir því sem það trúir á og hefur helgað sig.. Og ekki ætla ég að vera of viðkvæmur fyrir orðanotkun.

Það sem truflar mig við framgöngu forystumanna félagsins er að þetta virðist nú frekar skipulagt en hitt, rangfærslur, drullumall beint að einstaklingum sem hafa vogað sér að hafa sjálfstæða skoðun. Það er eins og það fari vel skipulögð samfélagsmiðla herferð reglulega af stað.

Og ekki hjálpar að í mörgum tilfellum virðist þetta vera til að breiða yfir rökleysur, málefnafátækt og rangfærslur.

Án þess að hafa kannski hugsað alveg til enda..

En smá vangaveltur þegar kemur að því að hugsa hvernig á að kosta vegakerfið.

Er einfaldasta nálgun að skattleggja hjólbarða?

Þetta er greitt óháð tegund eldsneytis, hvar er ekið og mælir þokkaleg vel notkun – stærð dekkja mætti skipta máli.

Svo má reyndar færa rök fyrir því að vegakerfið sé í raun þjónusta við alla, án tillits til hvernig og hversu mikið hver nýtir sér samgöngur – en það er væntanlega önnur umræða.

Gott og vel, það má taka tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af mögulegum aukaverkunum vegna bólusetninga vegna Covid-19. En þetta er mjög fámennur hópur sem getur haft raunverulegar áhyggjur og sá fjöldi telur lítið.

Stóra vandamálið er alvarleg fáfræði og getuleysi til að vinna úr einföldustu upplýsingum.

Þarna er ansi fjölmennur hópur sem er ekki einungis að leggja eigin heilsu og jafnvel líf í hættu, sem væri kannski ásættanlegt, heldur fjölda fólks í kringum sig.

Ekki vegna góðra og gilda athugasemda.

Heldur beinlínis og bókstaflega vegna fullkomins getuleysis til að vinna úr einföldum upplýsingum og einhverrar undarlegrar óskhyggju / trúarofstækis.

Nú nýlega kom innlegg í umræður um gildi bólusetninga á Facebook… andstæðingur bólusetning tefldi fram máli sínu til stuðnings myndbandi frá einhverjum náunga. Ekki hafði viðkomandi fyrir því að kanna hvort viðkomandi talsmaður hefði einhverja sögu eða eitthvað staðfesti að hann væri sá sem hann sagðist vera. Og þegar nánar var skoðað virtist viðkomandi ekki einu sinni yfirhöfuð vera til! Og lykilinnihaldið í videó-langhundi var fullyrðing sem stóðst ekki einfalda skoðun.

Síðan komu alls kyns „fabúleringar“ máli hans til stuðnings, löggan átti að hafa truflað útsendinguna, sennilega sviðsett, hvort sem er, breytti engu um innihald fullyrðinganna.

Einhver vinkona/kærasta/eiginkona var tekin sem dæmi um að viðkomandi hefði látist í kjölfar „árásar“ lögreglunnar. Það voru reyndar svo margar ruglingslegar sögur sem hafðar voru eftir viðkomandi konu að andstæðingarnir töldu vænlegast að gefa í skyn að hennar innlegg væri komið frá CIA til að rugla málið. „Verst“ að þeir/þau gleymdu að þeir höfðu rétt áður vísað í þetta sjálf(ir) máli sínu til stuðnings.

Eftir stendur að besta sem andstæðingar bólusetninga gátu bent á var fyrirlestur frá einhverjum gaur sem sennilega er ekki til (amk. ekki sá sem hann segist vera) að halda fram einhverju sem stenst ekki 10 sekúndna skoðun.

Þegar bent var á þetta stjórnlausa og glórulausa rugl var síðasta vörnin,“þið þurfið að sanna að þetta sé ekki rétt“.

Fyrir það fyrsta, þá var búið sanna afdráttarlaust að þetta væri sannanlega rangfærslur sem stæðust ekki einfalda skoðun, komst ekki fram hjá fyrstu athugun.

Þar fyrir utan. það er hlutverk þess sem ber einhverjar fullyrðingar á borða að færa rök fyrir þeim og staðfesta, ekki annarra að afsanna. Það að geta ekki fundið neitt máli sínu til stuðnings og heimta að aðrir afsanni, er hin endanlega uppgjöf í rökræðum.

Þetta er auðvitað svolítið fyndið.

En þetta er líka óendanlega sorglegt.

Fullt af fólki er að leggja eigin heilsu og líf í hættu vegna, til dæmis, einhvers gaurs sem er ekki til að fullyrða eitthvað sem stenst ekki einfalda skoðun.

Og ekki bara eigið líf og heilsu, heldur allra í kringum þau.

Ég er ekki hlynntu skyldu bólusetningu, langt frá því.

En svona glórulaus þvættingur fær mann óneitanlega til að hugsa.

Ég var búinn að fallast á að fylgja þessu máli ekki frekar eftir, í kjölfar símtals frá starfsmanni embættisins, en sendi minn skilning á innihaldi þess símtals til að hafa þetta nú skriflegt. Ég taldi málinu þar með lokið. En svo brá við nú einhverjum mánuðum síðar að ég fæ hið undarlegasta bréf frá embættinu.

Eftir lestur bréfsins kemur ekki annað til greina hjá mér en að skipta um skoðun og fara fram á að erindi mitt verði skoðað efnislega í fullri alvöru.

Látum einhvern grautarlegan texta um lagalegt umhverfi embættisins liggja á milli hluta, aðallega einhvers konar lagatæknilegar réttlætingar á afskiptaleysi, þetta kemur erindi mínu efnislega ekkert við og ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessu.

Ég veit ekki hvaða tilverurétt þetta embætti á ef ekki að bregðast við erindum þar sem sterk rök eru leidd að mannréttindabrotum, rök sem hvergi hafa verið hrakin í samskiptum mínum við ráðuneyti eða embættið.

Þá er nefnt til sögunnar að kostnaður við að taka erindið fyrir yrði of mikill. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona. Fyrir það fyrsta þá velti ég fyrir mér hvort það færi ekki jafnvel minni tími í að skoða erindið og afgreiða málið en það hefur hugsanlega farið í að skrifa þennan langhund. Hvort sem er, þessi áætlaði kostnaður getur varla talið mikið rekstri embættisins og getur varla skipti máli í samhengi við rangláta skattheimtu.

Það er kannski ekki furða þó íslensk stjórnvöld séu ítrekað „rassskellt“ af Mannréttindadómstól Evrópu ef svarbréfið er til marks um viðhorf til rökstuddra ábendinga um mannréttindabrot.

Ég óska þess að samskipti séu framvegis skrifleg óska jafnframt að fá að birta bæði svör embættisins og innihald símtalsins skriflega.

Ég fékk símtal frá starfsmanni hjá umboðsmanni Alþingis í gær þar sem erindið var að útskýra fyrir mér afstöðu umboðsmanns vegna erindis míns vegna sóknargjalda. Og fara fram á að það nægði sem svar í stað þess að senda formlegt svarbréf. Það skiptir mig svo sem engu á hvaða formi svarið er. En ég ætla að senda þessa færslu til umboðsmanns til staðfestingar á mínum skilningi á símtalinu, nú eða gefa tækifæri á leiðréttingu.

Fyrir það fyrsta þá kom fram að megin efnið í svarbréfi umboðsmanns skipti engu máli, þeas. sá kafli sem útskýrði að umboðsmaður vildi ekki taka mál sem fyrri (settur) umboðsmaður hefði svarað.

Þá kom fram að þrátt fyrir að umboðsmaður hafi svarað málefninu með allt öðrum rökum en ráðuneytið – án þess að ég skilji hvers vegna umboðsmaður var að taka sjálfstæða afstöðu til erindis míns til ráðuneytisins í stað þess að taka afstöðu til þess hvort svar ráðuneytisins væri boðlegt – og hann myndi ekki svara frekar hvort hann teldi svar ráðuneytisins eðlilegt en hann myndi ekki gera athugasemdir við svörin.

Þá var ítrekað að hlutverkumboðsmaðsmanns væri að bregðast við ef fólk teldi brotið á sér af stjórnsýslunni, ekki (svona almennt) að gera athugasemdir við störf Alþingis.

Hitt er að ég fór fram á að umboðsmaður benti Alþingi á að það væru meinbugur á núgildandi lögum, eins og umboðsmaður [benti sjálfur á] getur gert, hefur gert og er full ástæða til. Mér var sagt að umboðsmaður myndi ekki nýta sér þennan rétt en ég fékk engin svör, upplýsingar eða rökstuðning um hvers vegna honum þætti ekki ástæða til að benda á þennan (að mér finnst) augljósa galla.

Ég fékk annað svar frá umboðsmanni Alþingis vegna erindis míns um lækkun skatta vegna sóknargjalda. Er ekki alls kostar sáttur við svarið og sendi ítrekun.

Ef ég skil rétt þá er ekki talin ástæða til að klára málið vegna þess að nýr einstaklingur hefur tekið við embættinu og ekki sé gert ráð fyrir að umboðsmaður taki mál sem einstaklingur sem gegndi stöðunni áður hafi fjallað um.

En þó ekki sé gert sérstaklega ráð fyrir því, þá fæ ég ekki séð að neitt eigi að koma í veg fyrir að umboðsmaður klári mál og/eða gefi nánara álit á fyrri málum. Það er varla hugmyndin að mál dagi uppi og sitji óleyst þegar nýr einstaklingur hafi tekið við embættinu?

Í ítrekun minni óskaði ég eftir því að umboðsmaður nýti sér rétt sem hann sannanlega hefur til að tilkynna Alþingi ef hann verði þess var að meinbugur séu á gildandi lögum. Það var aldrei tekin afstaða til þess af fyrri (settum) umboðsmanni og ég tel mjög mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu varðandi þetta atriði.

Þá benti ég á að svar setts umboðsmanns passar ekki við svör ráðuneytisins. Ekki var tekin afstaða til þess hvort svör ráðuneytisins væru viðunandi.

Er það ekki innan verksviðs embættisins að bregðast við erindum ef stjórnsýslan svarar erindum á ófullnægjandi hátt?

Lækkun sóknargjalda, þriðja tilraun

Posted: febrúar 4, 2021 in Samfélag
Efnisorð:

Ég fékk aftur svar frá Fjármálaráðuneytinu vegna erindis míns um að fá skattgreiðslur lækkaðar vegna sóknargjalda. Ég sendi eftirfarandi sem þriðju tilraun.

Í svarinu kemur fram að engin ný gögn komi fram í seinna bréfi mínu. Það er vissulega rétt, enda er tilgangurinn ekki að koma með ný gögn heldur að benda á að ég fékk engin marktæk svör. Einnig, ef út í það er farið, þá koma engin ný gögn fram í svörum ráðuneytisins.

Í svarinu er tilvísun í lagatexta og síðan er dregin – að mér finnst – bæði undarleg og vafasöm ályktun og hún aftur studd með „þá má segja“.

Nú hef ég ekki próf í lögfræði en ég er samt nokkuð viss um að það að einhverjum finnist að það „megi segja eitthvað“ hefur ekki sérstaklega mikið lagalegt gildi, hvað þá að sú þokukennda hugmynd geti réttlætt brot á mannréttindum.

Ég á til að mynda erfitt með að ímynda mér að ef (svo ólíklega vildi til að) ég mældist keyra á hraða umfram hámarkshraða að ég gæti komið með hjá sektargreiðslu með því að halda því fram að „það megi segja“ að hámarkshraðinn sé annar en hann er. Eða hvað?

Er það virkilega afstaða ráðuneytisins að það að einhverjum finnist að það megi segja eitthvað sé nægjanlegt fyrir dómstólum? Jafnvel þó það sem „segja má“ stangist á við staðreyndir, sé hrein rökleysa og / eða komi málinu einfaldlega ekkert við.

Þá er einhver undarleg rökleysa, ef ekki ranghugmynd, jafnvel vanþekking, að minnsta kosti grundvallar misskilningur, að fyrst ekki sé hægt að tengja skattgreiðslur einstaklings við ákveðin útgjöld þá sé ekki hægt að veita lækkun á skattgreiðslum. Það er óumdeilt að útgjöld ríkissjóðs eru lægri vegna þess að ég er ekki skráður í lífsskoðunarfélag. Þess vegna er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að lækka greiðslur mínar sem þessu nemur.

Að lokum er fjallað um mál Darby gegn sænska ríkinu. Sú umfjöllun staðfestir þann skilning minn að fyrirkomulag þessara greiðslna stangist á við mannréttindasáttmála Evrópu. Engu að síður er þessum texta svo fylgt eftir með þeirri fullyrðingu að ekkert bendi til þess að greiðslur ríkisins feli í sér brot! Sem er bókstaflega þvert á það sem sagt er í næstu setningum á undan.

Í lok bréfsins segir að málinu sé lokið af hálfu ráðuneytisins. Þessu máli lýkur ekki af minni hálfu fyrr en ég fæ viðunandi lausn. Eina spurningin er hvort ráðuneyti klári málið án frekar málalenginga eða þurfi að fá á sig dóm.

Sendi eftirfarandi bréf til fjármálaráðherra.

Í ljósi þess að ég tilheyri hvorki trúfélagi né lífsskoðunarfélagi þá vil ég fara fram á að skattgreiðslur  mínar verði lækkaðar sem upphæð sóknargjalda nemur.

Í máli sem Darby höfðaði gegn sænska ríkinu og áfrýjaði til Mannréttindadómstóls Evrópu – mál 11581/85 – kom fram að kröfu hans var hafnað á þeim forsendum að hann gæti sagt sig úr lífsskoðunarfélagi og lækkað þannig skattgreiðslur sínar.

Það er því ljóst að Mannréttindadómstóllinn telur það forsendu þess að ekki sé verið að brjóta mannréttindi með greiðslu sóknargjalda úr ríkissjóði að hver einstaklingur eigi kost á að lækka skattgreiðslur sem þeirri upphæð nemur.

Það hafa verið nokkrar umræður um hvort samfélagsmiðlar hafi gert rétt í að loka aðgangi einstaklinga sem hafa neitað að fylgja reglum.

Ég er ekki nokkrum vafa.. einkafyrirtækjum ber engin skylda til að leyfa misyndismönnum að misnota kerfi og vettvang þeirra til að koma hættulegum og viðbjóðslegum skilaboðum á framfæri. Einhverra hluta vegna lítur reyndar út fyrir að þeir vinir mínir á samfélagsmiðlum sem aðhyllast frjálshyggju og frjálsa samkeppni eru hvað ákveðnastir í því að skylda eigi einkafyrirtæki til að

Það er kannski einfaldast að bera saman við að ef ég væri að reka leigu á hljóðkerfum, sjónvarpstöð eða bar. Mér bæri engin skylda til að leigja fólki hljóðkerfi til að breiða út hatursboðskap og koma þannig óorði á mitt fyrirtæki. Væri ég að reka bar og einn fastagesturinn væri stöðugt að stofna til rifrilda og slagsmála þá þætti mér ég í fullum rétti að meina honum aðgang. Og með sjónvarpsstöð, þá bæri mér engin skylda til að hleypa hverjum sem er að með hvaða bull sem er eins lengi og þeim sýnist. Enda gera sjónvarpsstöðvar þetta ekki.

Margir hafa vísað til Voltaire og talið mikils virði að leyfa öllum að segja sína skoðun, hversu ósammála sem við erum viðkomandi.

Þarna kemur tvennt til.

Fyrir það fyrsta, þá er mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum, lygum, rangfærslum og óstaðfestum fullyrðingum hins vegar. Ég hef aldrei skilið hugmynd Voltaires þannig að hann talaði fyrir sannanlegum lygum, ósannindum eða óstaðfestum fullyrðingum. Það er ekki skoðun að fjórir plús fjórir geri ellefu, það er einfaldlega rangt. Og það er ekki skoðun að heiminum sé stjórnað af eðlum frá öðrum sólkerfum, það er fullyrðing út í bláinn.

En jafnvel þar fyrir utan. Ég er einfaldlega ekkert á því að allar skoðanir eigi rétt á sér. Það er gjarnan talað um einhvern heilagan rétt þegar kemur að stjórnmálum, en sama fólki vefst gjarnan tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar ég spyr hvort skoðanir sem styðja fjöldamorð, stríðsglæði, áróður rasista og barnaníð eigi rétt á sér.

Fyrir mér er þetta kýrskýrt, einkafyrirtæki ráða því hvernig kerfi þeirra eru notuð, rangfærslur eru ekki skoðanir og það eiga ekkert allar skoðanir rétt á sér.