Gott og vel, það má taka tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af mögulegum aukaverkunum vegna bólusetninga vegna Covid-19. En þetta er mjög fámennur hópur sem getur haft raunverulegar áhyggjur og sá fjöldi telur lítið.
Stóra vandamálið er alvarleg fáfræði og getuleysi til að vinna úr einföldustu upplýsingum.
Þarna er ansi fjölmennur hópur sem er ekki einungis að leggja eigin heilsu og jafnvel líf í hættu, sem væri kannski ásættanlegt, heldur fjölda fólks í kringum sig.
Ekki vegna góðra og gilda athugasemda.
Heldur beinlínis og bókstaflega vegna fullkomins getuleysis til að vinna úr einföldum upplýsingum og einhverrar undarlegrar óskhyggju / trúarofstækis.
Nú nýlega kom innlegg í umræður um gildi bólusetninga á Facebook… andstæðingur bólusetning tefldi fram máli sínu til stuðnings myndbandi frá einhverjum náunga. Ekki hafði viðkomandi fyrir því að kanna hvort viðkomandi talsmaður hefði einhverja sögu eða eitthvað staðfesti að hann væri sá sem hann sagðist vera. Og þegar nánar var skoðað virtist viðkomandi ekki einu sinni yfirhöfuð vera til! Og lykilinnihaldið í videó-langhundi var fullyrðing sem stóðst ekki einfalda skoðun.
Síðan komu alls kyns „fabúleringar“ máli hans til stuðnings, löggan átti að hafa truflað útsendinguna, sennilega sviðsett, hvort sem er, breytti engu um innihald fullyrðinganna.
Einhver vinkona/kærasta/eiginkona var tekin sem dæmi um að viðkomandi hefði látist í kjölfar „árásar“ lögreglunnar. Það voru reyndar svo margar ruglingslegar sögur sem hafðar voru eftir viðkomandi konu að andstæðingarnir töldu vænlegast að gefa í skyn að hennar innlegg væri komið frá CIA til að rugla málið. „Verst“ að þeir/þau gleymdu að þeir höfðu rétt áður vísað í þetta sjálf(ir) máli sínu til stuðnings.
Eftir stendur að besta sem andstæðingar bólusetninga gátu bent á var fyrirlestur frá einhverjum gaur sem sennilega er ekki til (amk. ekki sá sem hann segist vera) að halda fram einhverju sem stenst ekki 10 sekúndna skoðun.
Þegar bent var á þetta stjórnlausa og glórulausa rugl var síðasta vörnin,“þið þurfið að sanna að þetta sé ekki rétt“.
Fyrir það fyrsta, þá var búið sanna afdráttarlaust að þetta væri sannanlega rangfærslur sem stæðust ekki einfalda skoðun, komst ekki fram hjá fyrstu athugun.
Þar fyrir utan. það er hlutverk þess sem ber einhverjar fullyrðingar á borða að færa rök fyrir þeim og staðfesta, ekki annarra að afsanna. Það að geta ekki fundið neitt máli sínu til stuðnings og heimta að aðrir afsanni, er hin endanlega uppgjöf í rökræðum.
Þetta er auðvitað svolítið fyndið.
En þetta er líka óendanlega sorglegt.
Fullt af fólki er að leggja eigin heilsu og líf í hættu vegna, til dæmis, einhvers gaurs sem er ekki til að fullyrða eitthvað sem stenst ekki einfalda skoðun.
Og ekki bara eigið líf og heilsu, heldur allra í kringum þau.
Ég er ekki hlynntu skyldu bólusetningu, langt frá því.
En svona glórulaus þvættingur fær mann óneitanlega til að hugsa.
Líkar við:
Líka við Hleð...