Archive for the ‘Samfélag’ Category

Það hafa verið nokkrar umræður um hvort samfélagsmiðlar hafi gert rétt í að loka aðgangi einstaklinga sem hafa neitað að fylgja reglum.

Ég er ekki nokkrum vafa.. einkafyrirtækjum ber engin skylda til að leyfa misyndismönnum að misnota kerfi og vettvang þeirra til að koma hættulegum og viðbjóðslegum skilaboðum á framfæri. Einhverra hluta vegna lítur reyndar út fyrir að þeir vinir mínir á samfélagsmiðlum sem aðhyllast frjálshyggju og frjálsa samkeppni eru hvað ákveðnastir í því að skylda eigi einkafyrirtæki til að

Það er kannski einfaldast að bera saman við að ef ég væri að reka leigu á hljóðkerfum, sjónvarpstöð eða bar. Mér bæri engin skylda til að leigja fólki hljóðkerfi til að breiða út hatursboðskap og koma þannig óorði á mitt fyrirtæki. Væri ég að reka bar og einn fastagesturinn væri stöðugt að stofna til rifrilda og slagsmála þá þætti mér ég í fullum rétti að meina honum aðgang. Og með sjónvarpsstöð, þá bæri mér engin skylda til að hleypa hverjum sem er að með hvaða bull sem er eins lengi og þeim sýnist. Enda gera sjónvarpsstöðvar þetta ekki.

Margir hafa vísað til Voltaire og talið mikils virði að leyfa öllum að segja sína skoðun, hversu ósammála sem við erum viðkomandi.

Þarna kemur tvennt til.

Fyrir það fyrsta, þá er mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum, lygum, rangfærslum og óstaðfestum fullyrðingum hins vegar. Ég hef aldrei skilið hugmynd Voltaires þannig að hann talaði fyrir sannanlegum lygum, ósannindum eða óstaðfestum fullyrðingum. Það er ekki skoðun að fjórir plús fjórir geri ellefu, það er einfaldlega rangt. Og það er ekki skoðun að heiminum sé stjórnað af eðlum frá öðrum sólkerfum, það er fullyrðing út í bláinn.

En jafnvel þar fyrir utan. Ég er einfaldlega ekkert á því að allar skoðanir eigi rétt á sér. Það er gjarnan talað um einhvern heilagan rétt þegar kemur að stjórnmálum, en sama fólki vefst gjarnan tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar ég spyr hvort skoðanir sem styðja fjöldamorð, stríðsglæði, áróður rasista og barnaníð eigi rétt á sér.

Fyrir mér er þetta kýrskýrt, einkafyrirtæki ráða því hvernig kerfi þeirra eru notuð, rangfærslur eru ekki skoðanir og það eiga ekkert allar skoðanir rétt á sér.

Það er auðvitað til gagnslaust að rökræða við meðlimi sértrúarsafnaða.. ef þeir tækju rökum og ef þeir gætu unnið úr upplýsingum þá væru þeir auðvitað ekki meðlimir sértrúarsafnaðar.

Loftslagsbreytingafneitarar er sennilega mest áberandi sérstrúarsöfnuðurinn þessa dagana, kannski rétt á undan flatjarðarsinnum og hávaðinn og athyglin í öfugu hlutfalli við þekkinguna – en athygli er stöðug, sennilega vegna óþolandi vegna rænuleysis fjölmiðla sem þurfa hverja vitleysuna á fætur annarri til að halda áhorfi og / eða fá netumferð.

Það mætti reyndar hafa gaman af rökleysum afneitara ef málið væri ekki svona alvarlegt.

Þeir benda gjarnan á að einhver tiltekinn fjöldi vísindamanna afneiti hlýnun jarðar eða amk. telji hana ekki af mannavöldum. Oftar en ekki eru þessir vísindamenn ekki með neina sérþekkingu á loftslagsmálum, sem eru nefnilega nokkuð flókin og það kallar á mikla menntun og reynslu að skilja þetta.

En hvers vegna vísa þeir alltaf til þess að einhverjir „vísindamenn“ haldi einhverju fram? Er tilvísunin í „vísindamenn“ vegna þess að það sé svo mikið að marka „vísindamenn“. Gott og vel, hvers vegna ekki að taka þúsund sinnum meira marka meira en á þúsund sinnum fleiri vísindamönnum?

Og ef það er ekkert að marka vísindamenn, hvers vegna þá að tilgreina sérstaklega að það sé verið að vísa til „vísindamanna“?

Sumir afneitara þykjast svo vera vísindalega sinnaðir og séu að beita aðferðum vísindanna til að efast og gagnrýna… sem væri gott ef ekki væri búið að svara gagnrýni þannig að hafið er yfir vafa.. og svo væri líka gott ef þeir hinir sömu beittu sams konar gagnrýni og efa þegar þeir skoða gögn afneitunarbloggara og YouTubeAfneitara.

Ekki má gleyma þeim sem sjá risavaxið samsæri í kenningum um hlýnun jarðar af mannavöldum… ég skil ekki almennilega hvernig, en mér heyrist þetta snúast um að Al Gore hafi farið aftur í tímann og mútað nánast hverjum einasta vísindamanni jarðar. Ekki veit ég enn hvað þetta hefur kostað hann eða hvað hann á að hafa grætt á þessu tímaflakki sínu.

En afneitarar sjá ekki neina tengingu við nokkuð augljósa hagsmuni þeirra hafa sig hvað mest í frammi.

En gott og vel, rökræður við afneitara eru að mestu tilgangslausar.

En það er að minnsta kosti hægt að hætta að veita þeim athygli – ég hef óþægilegan grun um að margir þeirra nærist einmitt á athyglinni. Eða hver er tilgangurinn með að vera sí gjammandi í öllum fjölmiðlum? Eins og marg oft hefur verið bent á, þá eru nú fæstar þeirra aðgerða, sem stungið hefur verið upp á, annað en til bóta hvort sem er.

Þannig er sennilega besta ráðið að hætta að þrasa beint, hætta að vekja athygli á fáfræðinni og getuleysinu til að vinna úr upplýsingum, ekki setja inn á Facebook eða Twitter, ekki smella á tengla hjá fréttaveitum og slökka á (eða skipta af) sjónvarpsstöðvum og útvarpsrásum sem hleypa þeim gagnrýnislaust í loftið.

Nú stefnir í að greiðslur ríkissjóðs til kirkjunnar hækki all verulega, eiginlega algjörlega út í bláinn, upp úr þurru og án nokkurrar jarðtengingar (enda finnst kirkjunni það eflaust óþarft) – ja, nema við teljum með gegndarlausan áróður frá almennatengslavél kirkjunnar.

Það virðist gjarnan gleymast hvernig þetta kom til. Samkvæmt því sem kirkjan heldur fram afhenti hún ríkinu einhverjar óskilgreindar eignir, fékk eignir afhentar 1997 og enn fleiri 2006 (eða þar um bil). Út af fyrir sig er stór undarlegt að ríkissjóður afhendi nokkrum einstaklingum verðmætar eignir án endurgjalds.

Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að kirkjan hafi aldrei átt neinar eignir til að afhenda. Nú skal ég viðurkenna að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og/eða gögn, en miðað við aðgengilegar upplýsingar þá einfaldlega gengur þetta ekki upp.

Við siðaskiptin færðust allar eignir kirkjunnar til Danakonungs og við fullveldi/sjálfstæði til íslenska ríkisins. Þessi flutningur eigna virðist staðfestur og það var einn af grundvallarþáttum í mismun á kaþólsku og lúter, kirkjan var ekki sjálfstæð heldur tilheyrði hún ríkinu – (amk. eins og mér var kennt þetta í barnaskóla).

Þjóðkirkjan er enn þann dag í dag ríkisstofnun á fjárlögum, svokölluð A hluta stofnun og ekki betur séð en að hún hafi verið þannig frá siðaskiptum. Þá má benda á (aftur) að lengst af var ekki trúfrelsi og því áttu allir íslendingar sinn hlut í kirkjunni og hennar eignum.

Aftur skal ég játa að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og gögn.

En sönnunarbyrðin er hjá kirkjunni. Telji kirkjan sig hafa átt einhverjar eignir til að afhenda þarf hún að sýna skjalfest fram á að hún hafi verið sjálfstæður lögaðili og gefa yfirlit yfir nákvæmlega hvaða eignir þetta voru og hvernig hún eignaðist þær.

Það þarf líka að gera kröfu um að kirkjan hafi ekki eignast neitt með vafasömum viðskiptaháttum, svo sem að lofa einhverju en ekki var staðið við, það myndi jú væntanlega gera viðskiptin ólögmæt.

Eftir umræður síðustu daga um verðtryggingu er ég kominn á þá skoðun að það væri til mikilla bóta að taka upp sérstakan sýndargjaldmiðil til húsnæðiskaupa, „húsnæðiskaupakrónur“ (HKK), eða kannski eitthvert enn betra nafn.

Umræðan um verðtrygginguna er orðin þannig að hún stýrist af alls kyns rangfærslum og misskilningi og það er eiginlega orðið vonlaust verk að eltast við að leiðrétta og halda réttum upplýsingum til haga.

Með því að taka upp húsnæðiskaupakrónur er virkni lántöku og afborgana mun skiljanlegri („gegnsærri“).

Tökum dæmi.

Segjum okkur að við byrjum með HKK í dag, 1 HKK sé jafnvirði 10.000 íslenskra króna.

Lántakandi sem hefði tekið 10 milljóna lán í íslenskum krónum (sem vantar upp á að kaupa litla eign) fær nú lán upp á 1.000 HKK. Hann skiptir þeim í 10m íslenskar krónur og kaupir sína eign. Gefum okkur að lánið sé til 10 ára með 1% vöxtum (já, ég má láta mig dreyma í bloggfærslu) – og höfum einn gjalddaga á ári til einföldunar.

Ef lánið er með föstum afborgunum, þá borgar lántakandi 100 HKK á hverju ári, vexti af höfuðstól í HKK og kaupir íslenskar krónur á gengi HKK á gjalddaga.

Eftir eitt ár greiðir lántakandi þannig 100 HKK afborgun og 10 HKK í vexti, alls 110 HKK. Gefum okkur að gengi HKK sé 11.000 eftir eitt ár. Lántakandi þarf þá að kaupa íslenskar krónur á genginu 11.000, greiðir lánveitanda 1.210.000 (11.000 * 110) ÍKR.

Gefum okkur að gengi HKK lækki og detti aftur niður í 10.000 fyrir næsta gjalddaga (já, ég mátti láta mig dreyma), þá greiðir lántakandi áfram 100 HKK, 9 HKK í vexti og nú þarf hann að kaupa 1.090.000 ÍKR til að greiða. Afborgunin er alltaf sú sama 100 HKK, vextirnir lækka á hverjum gjalddaga og höfuðstóllinn lækkar sýnilega á hverjum gjalddaga.

Sama gildir um jafngreiðslulán, það er reiknað í HKK (sennilega er greiðslan eitthvað nærri 105-106 HKK á gjalddaga, nenni ekki að reikna nákvæmlega) og þegar kemur að gjalddaga er afborgun og vextir í HKK, greiðslan alltaf sú sama í HKK og lántakandi skiptir yfir í íslenskar krónur til að greiða. Afborgun hækkar aðeins, vextir lækka og höfuðstóll lækkar á hverjum gjalddaga.

Auðvitað kemur þetta í sama stað niður, en það er mun einfaldara að skilja hvernig verðtrygging virkar og það er mun skýrara að sjá höfuðstól lánsins lækka og horfa á fastar afborganir eða fastar greiðslur sem breytast ekki á lánstímanum.

PS. biðst fyrirfram afsökunar á mögulegum innsláttarvillum í útreikningum, er að gera þetta á hlaupum.

Ég styð dótturina, Alexöndru Briem, (að sjálfsögðu) í prófkjöri Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ekki bara vegna þess að hún er dóttir mín, heldur einfaldlega vegna þess að hún á fullt erindi í borgarstjórn.

Þetta er ekki flókið, hún er málefnaleg, sem þýðir að hún kynnir sér málefni áður en hún tekur afstöðu og hlustar á rök með og á móti.

Hún er dugleg, hefur unnið gríðarlega gott starf fyrir Pírata, störfin þar eru gott dæmi um að hún kemur hlutum í verk og klárar þau verkefni sem þar að vinna.

Heiðarleg og vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag.

Sem sagt, allt sem við þurfum á að halda hjá þeim sem við viljum að vinni fyrir okkur.

Nú er það reyndar þannig að það er mikið úrval af góðu fólki í framboði í prófkjörinu og ég hvet alla til að kynna sér frambjóðendur og taka þátt.

Litli guli hænukjósandinn

Posted: júní 27, 2012 in Samfélag
Efnisorð:

Okkur er stundum hugsað til gamalla dæmisagna.

Einu sinni átti að velja nýjan lit á blokkina okkar. KRingurinn í hópnum stakk upp á að mála blokkina röndótta að hætti KRinga. Ólíkindatólið á þriðju hæðinni vildi hafa hana skærbleika. En flestir vildu hlutlausan hvítan lit.

Nú spurðist út að það væri talsvert um KRinga í blokkinni og að þeir gætu hugsanlega náð meirihluta. Þá var altalað að margir voru hrifnir af hugmyndinni um bleika blokk, hver af sinni ástæðu. Í rauninni voru bara 3 KRingar, enda blokkin í Keflavík. Og enginn vildi skærbleika blokk í alvörunni, þetta byrjaði bara sem einhver vitleysa og vatt upp á sig. Flestir vildu hafa blokkina hvíta.

En þegar litli gula hænukjósandinn fór að spyrja aðra íbúa hvað þeir ætluðu að kjósa voru svörin yfirleitt, „ja, að minnsta kosti ekki í KRlitunum“ eða „ja, alveg örugglega ekki bleika“. Smám saman skapaðist baráttu stemming á milli þeirra sem ekki vildu KRlitinn og þeirra sem ekki vildu bleika litinn. Þeir sem upphaflega voru sáttir við hvíta litinn voru orðnir svo óttaslegnir að þeir kusu annað hvort KRlitinn eða bleika litinn. Íbúarnir ákváðu að kjósa á móti því sem þeir óttuðust mest. Blokkin yrði máluð í þeim lit sem fengi flest atkvæði, ekki þyrfti að fá hreinan meirihluta og því vissara að kjósa „taktískt“.

Þegar til kom kusu 35 af íbúum KRlitina, 40 kusu bleika blokk en 25 kusu þann hvíta. Nítíu og sjö vildu í rauninni búa í hvítri blokk en búa nú í skærbleikri. Vegna þess að þeir kusu „taktískt“. Vegna þess að þegar þeir áttu að taka afstöðu og voru beðnir um að skila heiðarlegu atkvæði var svarið „Ekki ég“.