Sóknargjöld, Umboðsmaður Alþingis… einu sinni enn.

Posted: júlí 9, 2021 in Samfélag
Efnisorð:,

Ég fékk annað svar frá umboðsmanni Alþingis vegna erindis míns um lækkun skatta vegna sóknargjalda. Er ekki alls kostar sáttur við svarið og sendi ítrekun.

Ef ég skil rétt þá er ekki talin ástæða til að klára málið vegna þess að nýr einstaklingur hefur tekið við embættinu og ekki sé gert ráð fyrir að umboðsmaður taki mál sem einstaklingur sem gegndi stöðunni áður hafi fjallað um.

En þó ekki sé gert sérstaklega ráð fyrir því, þá fæ ég ekki séð að neitt eigi að koma í veg fyrir að umboðsmaður klári mál og/eða gefi nánara álit á fyrri málum. Það er varla hugmyndin að mál dagi uppi og sitji óleyst þegar nýr einstaklingur hafi tekið við embættinu?

Í ítrekun minni óskaði ég eftir því að umboðsmaður nýti sér rétt sem hann sannanlega hefur til að tilkynna Alþingi ef hann verði þess var að meinbugur séu á gildandi lögum. Það var aldrei tekin afstaða til þess af fyrri (settum) umboðsmanni og ég tel mjög mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu varðandi þetta atriði.

Þá benti ég á að svar setts umboðsmanns passar ekki við svör ráðuneytisins. Ekki var tekin afstaða til þess hvort svör ráðuneytisins væru viðunandi.

Er það ekki innan verksviðs embættisins að bregðast við erindum ef stjórnsýslan svarar erindum á ófullnægjandi hátt?

Lokað er á athugasemdir.