Það er víst aldrei of oft kveðin vísa að hafa varann á upplýsingum sem birtast á netinu – svo ég uppfæri nú mínar bestu ráðleggingar.
Sérfræðingurinn / læknirinn / vísindamaðurinn
Aðallega er gott að hafa í huga að skoðanir og sjónarmið vísindamanna eru í sjálfu sér ekki mikils virði, það eina sem telur eru hvort viðkomandi hafi sýnt fram á einhverjar niðurstöður / staðreyndir.
Svo er gott að hafa í huga að ef einhver fullyrðing er studd með að sá sem vísað er til sé læknir, vísindamaður og/eða sérfræðingur, að kanna hvort viðkomandi titlar standist. Það er algengt að þeir sérfræðingar sem vísað er til – furðulegum fullyrðingum til stuðnings – hafi sótt sínar gráður á bakhliðina-á-Cheerios-pakka. Ekki kannski alltaf bókstaflega (en stundum) en aðallega keypt sér gráðu án nokkurrar menntunar frá einum af fjölmörgum stofnunum sem bjóða þetta til sölu – nú eða hafi einfaldlega gripið, eða skáldað, gráðuna úr lausu lofti.
Þá er gott að athuga álit annarra sérfræðingar, það er algengt að vísa í að einhver sé vísindamaður eins og það taki af allan vafa um gildi sjónarmiðanna, þrátt fyrir að 98% vísindamanna á viðkomandi sviði hafi komist að annarri niðurstöðu.
Í þessu tilfelli er gott að hafa í huga að ef ekki er tekið mark á 98%, hvers vegna þá að taka mark á einhverjum af hinum? Og ef þeir örfáu hafa vægi vegna stöðu sinnar (ef hún stenst yfirleitt skoðun), hvers vegna ekki að taka margfalt meira mark á öllum hinum?
Þá er gjarnan tekið fram að einhver sé
- „þekktur“ – en það segir eingöngu að viðkomandi hafi náð athygli
- „virtur“ – getur auðvitað verið rétt, en er gjarnan notað til að breiða yfir að litið er niður á viðkomandi í ‘faginu’, enda hvort sem er, fyrsta atriðið hér skiptir meira máli, stenst þetta einhverja skoðun
Heimildamyndirnar
Það er vinsælt að vísa til heimildamynda, oftar en ekki á YouTube. Þau eru sjaldnast tímans virði og gott að hafa í huga að ef innihaldið stenst ekki skoðun í rituðu máli þá má velta fyrir sér hvers vegna verið er að stilla upp í mynd.
Þegar myndband er skoðað er gott að hafa varann á með eftirfarandi atriði
- mjög gjarnan er verið að breiða yfir rýrt innihaldið með því að láta karlmann með djúpa rödd eða konu með háa rödd tala með leikrænum tilburðum, jafnvel dramatísk tónlist undir og mynd-‘effektar’.
- þá er algengt að sýna myndir af einhverju (eða spila hljóðupptöku) og fullyrða að þarna sjáist (heyrist) eitthvað.. en ef viðkomandi skjal / mynd / upptaka er skoðað þá er nákvæmlega ekkert sýnilegt (heyranlegt) sem sagt er að eigi að sjást (heyrast).
- þá er ekki óþekkt að myndir sem birtar eru séu „fótósjoppaðar“, hljóðupptökum breytt, video ‘editeruð’ og skjöl fölsuð… það er mjög góð hugmynd að ganga úr skugga um upprunann.
Bloggfærslurnar
Kannski eru bloggfærslur algengasti miðillinn fyrir glórulaust rugl og skaðlegan áróður.
Þegar þær eru lesnar er gott að hafa í huga að:
- tilvísanir í aðrar bloggfærslur / höfunda eru ekki heimildir
- tilvísanir í góðar og gildar heimildir eru gjarnan settar fram án þess að nokkur stuðningur við fullyrðinguna sé í viðkomandi heimildum
- færslur þar sem höfundur á erfitt með að halda þræði eru til marks um að viðkomandi hafi ekki mikla þekkingu á efninu – eða mikla getu til að vinna úr upplýsingum og heimildum… svona ef út í það er farið.
- langhundar staðfesta ekki mikla þekkingu
Umræðan
Þá eru nokkrar aðferðir gjarnan notaðar af þeim sem vilja rugla í fólki…
- rannsakaðu þetta sjálf(ur) ->þetta merkir yfirleitt, „mig rámar í að hafa heyrt þetta einhvers staðar en ég nennti ekki að skoða“
- rannsakaðu þetta sjálf(ur) -> er svo stundum notað þegar viðkomandi skammast sín fyrir lélegar heimildir
- ég hef lesið / horft á svo og svo margar greinar / bækur / heimildarmyndir -> það eitt og sér er auðvitað alveg verðlaust, ef innihaldið er ekki nóg til að viðkomandi geti fært rök fyrir máli sínu, þá eru þetta nú ekki merkilegar greinar, bækur heimildamyndir, ef eitthvað er, þá er frekar pínlegt að heyra að einhver hafi ekki betri rök