Halldór Ingi

Posted: júní 11, 2021 in Minningar, Tónlist

Við fengum þær sorgarfréttir um síðustu helgi að gamall félagi, Halldór Ingi Andrésson væri látinn.

Það kunna margir sögu hans betur, en það rifjuðust upp nokkrar góðar minningar.

Hann hafði reyndar skapað sér nafn sem „alvöru“ tónlistargagnrýnandi áður en leiðir okkar lágu saman.

En ég áttaði mig á hversu alvarlega hann tók hlutverkið og hversu áhugasamur hann var þegar hann skrifaði plötudóm um fyrstu plötu okkar Fræbbbla. Það kom ekki bara skemmtilega á óvart hversu jákvæður hann var heldur var skemmtileg nýbreytni að hann tók þessari frumraun okkar af fullkomnu fordómaleysi, fann jákvæðar hliðar og kveikti á tengingum sem fæstir voru að eltast við að skilja. Hann hafði sem sagt hlustað, skilið og sett í samhengi.

Við kynntumst betur og þegar hann var útgáfustjóri Fálkans og sá um útgáfu á annarri stóru plötu okkar. Það var svo sem ekki gefið að taka þá áhættu að gefa út aðra plötu, því sú fyrsta hafði nú ekki selst mikið, þrátt fyrir að vekja nokkra athygli. En hann lagði sig ekki bara allan fram um að við fengjum allt sem til þurfti til að gera góða plötu, hann var alltaf til í að hlusta og gefa góð ráð – en aldrei að taka fram fyrir hendurnar á okkur.

Útkoman fékk nú ekki sömu athygli og er sennilega flestum gleymd, en það var staðið vel að öllu og hún seldist betur en nokkur önnur plata okkar.

Seinna, þegar hann fór að selja plötur, var alltaf ómetanlegt að kíkja við – þó það væri nú óneitanlega allt of sjaldan. En Halldór Ingi var hafsjór af fróðleik um tónlist og það var alltaf gaman að hitta á hann og spjalla.

Önnur seinni tími minning var þegar við hittumst á hljómleikum í Listasafninu, ætli við höfum ekki talað um tónlistarheima og geima megnið af hljómleikunum.

Samúðarkveðjur frá okkur Iðunni til fjölskyldu og vina.

Lokað er á athugasemdir.