Ég er enn að furða mig á undarlegum og nánast forneskjulegum skoðunum á því hvort selja megi vín í matvöruverslunum eða ekki.
Ég er væntanlega eitthvað tregur, en ég get ekki mögulega skilið rök – eða rökleysur – sem einkenna umræðuna.
Fyrir mér er þetta frekar einfalt. Áfengi er vara sem er leyfilegt að selja hér á landi án sérstakra kvaða, fyrir utan takmarkanir vegna aldurs sem gildir um margt annað.
Hvers vegna ríkið ætti eitt að reka verslun sem selur þessa vöru er mér algerlega óskiljanlegt. Svo ég tíni nú til nokkur atriði
- Aðalatriðið eru að þetta er grundvallaratriði þegar kemur að því hverju ríkið á að vera að vasast í og hverju ekki – það er ekki ríkisins að segja hvenær má selja mér og hvenær ég má kaupa vöru sem er leyfileg að selja á annað borð.
- Það er mikill tvískinningur í því að selja tóbak í matvöruverslunum en ekki vín. Vín í hófi þykir hollt og er í fæstum tilfellum ávanabindandi. Ég hef ekki heyrt að tóbak sé talið til hollustu og tóbak er nánast undantekningarlaust ávanabindandi.
- Ég sé engin rök fyrir því að þurfa að kaupa eina tegund af matvöru fyrir 18:00 á laugardögum ef til kemur að við fáum gesti á sunnudegi eða okkur skyldi detta í hug á sunnudegi að bjóða í mat. Allt annað er aðgengilegt í næstu búð. Ef ég er ekki svo heppinn að búa á höfuðborgarsvæðinu gæti ég þurft að hugsa fyrir þessu enn fyrr.
- Að meðhöndla áfengi eins og stórkostlega verðmæti gerir lítið annað en að gera þetta spennandi og eftirsótt.
- Takmarkaður opnunartími og sérstakar verslanir gerir ekki annað en að trufla og tefja fyrir og leggja krók á leið þeirra sem nota áfengi í hófi. Þetta breytir engu fyrir þá sem eru í vandræðum með áfengisneyslu. Ef eitthvað er þá verður þetta til þess að þeir birgja sig upp fyrir lokun.. eiga þannig meira áfengi en annars og drekka jafnvel meira.
- Sú hugsun að miða verslun með áfengi við þá sem eiga í vandræðum með neyslu þess gengur ekki upp, hún truflar þá sem ekki eiga í vandræðum en hjálpar þeim sem eiga í erfiðleikum í rauninni ekkert. Með sömu rökum mætti beita takmörkunum á sölu annarra vörutegunda – og ætti í raun miklu frekar við um aðrar vörur en áfengi.
- Ein rökin eru þau að vöruúrval sé betra í ríkisrekinni verslun en í einkareknum. Mér finnast þau rök fráleit og þarf ekki að horfa mjög langt aftur til hafta í verslun til að sjá að þau standast ekki. Enda ættu þeir sem telja þetta góð og gild rök að einbeita sér að ríkið yfirtaki rekstur og hefji einkasölu á mikilvægari vörum en áfengi. Vissulega yrði vöruúrval mismunandi eftir stöðum, en ef sú verður raunin að einkarekstur standi ekki undir betra vöruúrvali en ríkisrekstur þá er um leið verið að halda því fram að reksturinn sé niðurgreiddur. Ef það er tilfellið fæ ég ekki séð hvers vegna ríkið ætti að niðurgreiða rekstur á verslun með áfengi en ekki öðrum vörum. Þá gengur ekki upp að halda því fram að vöruúrval á áfengi sé betra hér en annars staðar. Við sjáum til þess að gera fáar vörutegundir af þeim sem framleiddar eru. Ef ekki væri meira framboð annars staðar þá væri engin grundvöllur fyrir framleiðslunni.
- Þá er ákveðin mótsögn í rökum þeirra sem telja bæði að hlutirnir séu í fínu lagi eins og þeir eru, vöruúrval og þjónustu séu eins og best verður á kosið – á sama tíma og þeir telja rétt að takmarka neyslu annarra með því að takmarka opnunartíma og framboð – þessir sem þykjast þess umkomnir að segja okkur hinum hvað okkur sé fyrir bestu. Væri þá ekki nær að þeir fögnuðu minna framboði?
- Svo er kannski ágætt að hafa í huga að á Íslandi er mjög sérstakt fyrirkomulag á sölu áfengis, muni ég rétt er þetta nánast óþekkt nema í Svíþjóð. Er einhver í alvöru að halda því fram að vínmenning okkar sé til þeirra fyrirmyndar og eftirbreytni að við getum ekkert lært af öðrum þjóðum – og þeim væri nær að taka upp ríkisrekna einkasölu á borðvínum?