Sarpur fyrir júlí, 2014

Áfengi og Ríkið

Posted: júlí 22, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Ég er enn að furða mig á undarlegum og nánast forneskjulegum skoðunum á því hvort selja megi vín í matvöruverslunum eða ekki.

Ég er væntanlega eitthvað tregur, en ég get ekki mögulega skilið rök – eða rökleysur – sem einkenna umræðuna.

Fyrir mér er þetta frekar einfalt. Áfengi er vara sem er leyfilegt að selja hér á landi án sérstakra kvaða, fyrir utan takmarkanir vegna aldurs sem gildir um margt annað.

Hvers vegna ríkið ætti eitt að reka verslun sem selur þessa vöru er mér algerlega óskiljanlegt. Svo ég tíni nú til nokkur atriði

  1. Aðalatriðið eru að þetta er grundvallaratriði þegar kemur að því hverju ríkið á að vera að vasast í og hverju ekki – það er ekki ríkisins að segja hvenær má selja mér og hvenær ég má kaupa vöru sem er leyfileg að selja á annað borð.
  2. Það er mikill tvískinningur í því að selja tóbak í matvöruverslunum en ekki vín. Vín í hófi þykir hollt og er í fæstum tilfellum ávanabindandi. Ég hef ekki heyrt að tóbak sé talið til hollustu og tóbak er nánast undantekningarlaust ávanabindandi.
  3. Ég sé engin rök fyrir því að þurfa að kaupa eina tegund af matvöru fyrir 18:00 á laugardögum ef til kemur að við fáum gesti á sunnudegi eða okkur skyldi detta í hug á sunnudegi að bjóða í mat. Allt annað er aðgengilegt í næstu búð. Ef ég er ekki svo heppinn að búa á höfuðborgarsvæðinu gæti ég þurft að hugsa fyrir þessu enn fyrr.
  4. Að meðhöndla áfengi eins og stórkostlega verðmæti gerir lítið annað en að gera þetta spennandi og eftirsótt.
  5. Takmarkaður opnunartími og sérstakar verslanir gerir ekki annað en að trufla og tefja fyrir og leggja krók á leið þeirra sem nota áfengi í hófi. Þetta breytir engu fyrir þá sem eru í vandræðum með áfengisneyslu. Ef eitthvað er þá verður þetta til þess að þeir birgja sig upp fyrir lokun.. eiga þannig meira áfengi en annars og drekka jafnvel meira.
  6. Sú hugsun að miða verslun með áfengi við þá sem eiga í vandræðum með neyslu þess gengur ekki upp, hún truflar þá sem ekki eiga í vandræðum en hjálpar þeim sem eiga í erfiðleikum í rauninni ekkert. Með sömu rökum mætti beita takmörkunum á sölu annarra vörutegunda – og ætti í raun miklu frekar við um aðrar vörur en áfengi.
  7. Ein rökin eru þau að vöruúrval sé betra í ríkisrekinni verslun en í einkareknum. Mér finnast þau rök fráleit og þarf ekki að horfa mjög langt aftur til hafta í verslun til að sjá að þau standast ekki. Enda ættu þeir sem telja þetta góð og gild rök að einbeita sér að ríkið yfirtaki rekstur og hefji einkasölu á mikilvægari vörum en áfengi. Vissulega yrði vöruúrval mismunandi eftir stöðum, en ef sú verður raunin að einkarekstur standi ekki undir betra vöruúrvali en ríkisrekstur þá er um leið verið að halda því fram að reksturinn sé niðurgreiddur. Ef það er tilfellið fæ ég ekki séð hvers vegna ríkið ætti að niðurgreiða rekstur á verslun með áfengi en ekki öðrum vörum. Þá gengur ekki upp að halda því fram að vöruúrval á áfengi sé betra hér en annars staðar. Við sjáum til þess að gera fáar vörutegundir af þeim sem framleiddar eru. Ef ekki væri meira framboð annars staðar þá væri engin grundvöllur fyrir framleiðslunni.
  8. Þá er ákveðin mótsögn í rökum þeirra sem telja bæði að hlutirnir séu í fínu lagi eins og þeir eru, vöruúrval og þjónustu séu eins og best verður á kosið – á sama tíma og þeir telja rétt að takmarka neyslu annarra með því að takmarka opnunartíma og framboð – þessir sem þykjast þess umkomnir að segja okkur hinum hvað okkur sé fyrir bestu. Væri þá ekki nær að þeir fögnuðu minna framboði?
  9. Svo er kannski ágætt að hafa í huga að á Íslandi er mjög sérstakt fyrirkomulag á sölu áfengis, muni ég rétt er þetta nánast óþekkt nema í Svíþjóð. Er einhver í alvöru að halda því fram að vínmenning okkar sé til þeirra fyrirmyndar og eftirbreytni að við getum ekkert lært af öðrum þjóðum – og þeim væri nær að taka upp ríkisrekna einkasölu á borðvínum?

Facebook þumalputtareglur

Posted: júlí 16, 2014 in Umræða
Efnisorð:

Facebook getur verið alveg ágætis fyrirbæri, þeas. ef maður nýtir kostina og forðast gallana – kannski sérstaklega tilhneigingu Facebook til að vilja verða nýtt internet. Facebook getur nefnilega fljótt orðið fáránlega stór tímaþjófur. Mér finnst fínt að fá fréttir að vinum, kunningjum, ættingjum og jafnvel gömlum nágrönnum og skólafélögum sem ég umgengst ekki daglega. Þá þigg ég með þökkum að fá að vita af viðburðum sem margir færu annars fram hjá mér. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af „persónuverndarmálum“, ég set ekkert þarna sem hvers sem er má ekki vita.. geri þar fyrir utan ekki ráð fyrir að nokkur maður hafi áhuga. En ég hef tamið mér nokkrar „þumalputtareglur, það er að segja atriði sem ég geri (nánast) aldrei:

  • ég spila aldrei leiki, aldrei
  • ég tek aldrei þátt í „hver/hvernig ert þú…“ prófum
  • mér líkar aldrei við þessa ofur hallærislegu sjálfshjálpartexta sem virðast vera í tísku
  • ég forðast leturskreytta texta, þeas. texta sem búið er að setja upp sem mynd með skræpóttu letri og/eða myndskreytingu sem bætir engu við innihaldið
  • mér finnst (orðið) óþarfi að tilkynna sérstaklega að mér líki við að einhver skipti um „prófíl“ mynd
  • ég svara að ég komist ekki á viðburð ef ég kemst ekki eða hef ekki áhuga, án þess að eyða tíma í að afsaka mig eða skýra hvers vegna, ég kann samt ágætlega við að fá fréttir af sem flestum viðburðum
  • já, og – mjög mikilvægt – ég merki aldrei að mér líki vel við stöðu uppfærslur þar sem viðkomandi skrifar um sjálfan sig í þriðju persónu
  • ég nenni ekki lengur að segja að mér líki við breyttar prófíl myndir, ekki nema kannski viðkomandi hafi sett betri andlitsmynd af sér, þessi árátta að setja nýja prófíl mynd fyrir hvern viðburð er frekar hallærisleg
  • ég skoða aldrei myndskeið sem eru kynnt eitthvað á þá leið að ég trúi ekki hvað gerist næst eða að ég verði að sjá hvað gerist
  • ég tek aldrei þátt í umræðum þar sem einhver setur inn texta og endar á „Ræðið“.. mér finnst þetta eitthvað svo yfirlætislegt eða eins og viðkomandi sé að skipa fyrir
  • ég hef ekki grun um hvað „poke“ er eða hvaða tilgangi það þjónar og læt sem vind um augun þjóta

Úrslitaleikurinn…

Posted: júlí 13, 2014 in Fótbolti

Þá er bara að reyna að spá einhverju fyrir um úrslitaleikinn á HM… nánast engin spá hefur gengið eftir hjá mér þannig að ég verð að reyna einu sinni enn.

Þýska liðið er það lið sem hefur heillað mig einna mest í keppninni í Brasilíu. Það er ekki bara leikurinn á móti heimamönnum, heldur nánast í öllum leikjum sem ég hef séð til þeirra.. mis mikið auðvitað. Hér áður fyrr gat ég aldrei haldið með Þjóðverjum, mér fannst þeir spila grófan, stórkarlalegan og óspennandi fótbolta þar sem oftar en ekki var hugsað frekar um manninn en boltann. Auðvitað var þetta einföldun, en það gengur ekki að hafa sí breytilega eða flókna fordóma.

Síðustu ár hefur áferðin breyst talsvert á leik liðsins, liðið spilar góðan bolta og að öðrum ólöstuðum hefur Özil kannski hrifið mig mest.

Argentínumenn hafa gjarnan verið með frábæra einstaklinga en um leið farið í taugarnar á mér áratugum saman. Í einföldum heimi staðalmynda fótbolta landsliða þá hafa þeir verið liðið sem fann upp á leikaraskap.

Ég ímynda mér að ef Argentína og Þýskaland myndu spila fimm leiki (til þrautar) þá ynnu þjóðverjar fjóra og Argentínumenn einn – en þessi eini gæti allt eins verið úrslitaleikurinn á sunnudaginn. Úrslitaleikurinn er auðvitað bara einn leikur. Leikur með öllum sínum tilviljunum, mistökum leikmanna, mistökum dómara – og taugaspennu augnabliksins.

Kannski fær Neuer rautt spjald snemma leiks eftir aldrei-þessu-vant vanhugsað úthlaup. Eða eftir vel útfært úthlaup en jafn vel heppnaða dýfu sóknarmanns. Það væri synd, en kannski yrði það til að fráleit rauðuspjaldareglan verði endurskoðuð.

Kannski hittir Messi á leik sem hæfir tilefninu.

Kannski endar þetta í framlengdri vítakeppni.

Kannski skora Þjóðverjara á þriðju mínútu og halda út.

Tommy Ramone – Erdélyi

Posted: júlí 12, 2014 in Tónlist
Efnisorð:, ,

Tommy Ramone er látinn, síðastur af upprunalegum meðlimum The Ramones.

Ég held að flestir sem hafa áhuga á tónlist og sérstaklega þeir sem fylgdust með seinni hluta síðustu aldri viti hverjir Ramones voru og hvaða áhrif þeir höfðu. En ég er ekki viss um að margir hafi keypt plöturnar þeirra eða hlustað mikið á þá. Ég efast satt að segja um að margir þekki mörg lög frá þeim.

Það var kannski einkennandi fyrir þá að þeir spiluðu fyrir tugi þúsunda á íþróttaleikvangi í Brasilíu, komu heim til Bandaríkjanna og það mættu nokkrir tugir.

Ég náði aldrei að sjá Ramones, þetta var eitthvað sem ég var alltaf á leiðinni að fara að gera, en kom aldrei í verk, voru einhvern veginn aldrei að spila þar sem ég var á ferðinni… það næsta sem ég komst var þegar Steinþór heitinn hringdi í mig úr tíkallasíma frá Kaupmannahöfn, var á hljómleikum og vildi leyfa mér að heyra.

Tommy var upphaflegur trommuleikari Rarmones en spilaði ekki lengi með hljómsveitinni. Muni ég söguna rétt þá var þetta nokkurs konar neyðarúrræði vegna þess að þeir fundu ekki trommara. Um leið og hann fannst sneri Tommy sér að því sem hann hafði mestan áhuga á, upptökum, og stjórnaði upptökum á fyrstu plötum hljómsveitarinnar.

Það er kannski ekki rétt að alhæfa en mér finnast „varnir“ fyrrum stjórnenda föllnu bankanna einkennast af hreinum og klárum rökleysum. Einhver myndi kalla þetta þrálátt og þreytandi væl, ég er reyndar of kurteis til þess.

Oft heyrist eitthvað á þá leið að gagnanna gegn þeim hafi verið aflað á óleyfilegan hátt. Gott og vel, það getur gert það að verkum, ef rétt er, að þeir sleppi, réttilega, við dóm. Það segir mér hins vegar ekki að þeir hafi ekki gert neitt rangt, þvert á móti staðfestir þetta fyrir mér að þeir hafið einmitt gerst sekir um það sem verið er að saka þá um en fundið leið til að sleppa við refsingu.

Hin bylgjan af „málsvörnum“ er eitthvað á þá leið að ekki sé verið að sækja starfsmenn og stjórnendur bankafyrirtækja til saka í öðrum löndum.

Þetta eru rakalaus þvættingur á mörgum hæðum.

Fyrir það fyrsta þá er nú einmitt verið að sækja forsvarsmenn fjármálafyrirtækja til saka – og dæma – „í öðrum löndum“.

Í öðru lagi þá gætu lög og reglur og umhverfi verið öðru vísi hér en „í öðrum löndum“ – ég þekki svo sem ekki nákvæmlega, mögulega er þetta svipað í Evrópu og hér.

En jafnvel þó fyrri tveir liðir eigi ekki við, þá er einfaldlega ekkert sem segir að framferði bankamanna í öðrum löndum hafi verið eins og hér á landi. Jafnvel þó bankamenn „annarra landa“ hafi haldið sig innan ramma laganna og ekki gerst brotlegir þá er ekkert sem segir að allir íslenskir bankamenn að hafa frítt spil til að brjóta lög hér á landi. Ættu þeir að mega brjóta lög bara vegna þess að þeir vinna í banka?

Ég veit ekki hvort þeir eru sekir eða saklausir í einstaka málum. Hef í fæstum tilfellum einfaldlega skoðað nægilega vel.

En þetta eru skelfilegar rökleysur.

Neymar lærdómur

Posted: júlí 5, 2014 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Sennilega er HM 2014 í fótbolta eitthvert besta stórmót sem haldið hefur verið í fótbolta. Til þess að gera fáir dauðir leikir, mikið af mörkum, enn meira af næstum því mörkum að ógleymdum frábærum markvörslum og mikilli „dramatík“.

En ég er samt að hafa áhyggjur af því hvert fótboltinn stefnir.

Brassarnir voru „sparkaðir niður“ í fyrstu leikjunum. Þeir mættu í gær og spörkuðu leikmenn Kólumbíu niður. Sem aftur svöruðu fyrir sig með því að stórslasa einn besta leikmann heims, sem missir í kjölfarið af þeim leikjum sem eftir eru í mótinu. Og við missum af honum.

Það hefur verið bent á í kjölfar bitsins hjá Suarez að það séu nú fleiri dæmi um grófa og stórhættulega hegðun, sem menn komist upp með án mikilla refsinga. Þetta hefur verið sagt Suarez til varnar og sem rök fyrir því að hans bann fyrir ítrekuð brot hafi verið of langt. Þetta er auðvitað kjaftæði, hann átti sitt bann skilið og jafnvel lengra. Hitt er svo annað mál að miklu fleiri leikmenn eiga skilið að fá gott frí frá fótbolta.

Ég veit að fótbolti er leikur með snertingu. En hvaða snertingar eru leyfðar og hvernig er ágætlega vel skilgreint.

Í leik Brasilíu og Kólumbíu í gær flautaði dómarinn á svona um það bil fimmta hvert brot. Hann var samt stöðugt flautandi og leikurinn hvað eftir annað stopp. Á endanum var einn leikmanna stórslasaður. Viljandi. Einn sá besti í heimi.

Það er stöðugt verið að halda í leikmenn, toga í peysur, fara örlítið utan í, grípa í, setja úr jafnvægi, sparka aðeins í leikmann, smá snerting við boltann um leið og andstæðingurinn er straujaður, klipið, kýlt.. og svo á hinn bóginn verið að þykjast detta eða meiða sig til að fá eitthvað frá dómaranum.

Það er einfalt að hreinsa fótboltann af þessum sóðaskap. Fyrir það fyrsta á að aðstoða dómara við að grípa öll tilfelli með myndavélum. Gult spjalt og 10 mínútur af leikvelli fyrir hvert brot þar sem farið er í leikmann í stað bolta.. mögulega ein aðvörun fyrir fyrsta brot ef saklaust. Kannski mætti á móti bíða með rautt spjald eftir þriðja gula spjaldinu. Og leikmaður á ekki að komast upp með að þykjast vera að reyna að fara í boltann, það er hans ábyrgð að snertingin við andstæðinginn sé leyfileg. Sama gildir um hvers kyns leikaraskap og óheiðarleika.

Myndum við fá sjö rauð spjöld í hverjum leik? Nei, leikmenn læra strax..það tekur ekki langan tíma að hreinsa fótboltann. Og ef það verður gert þá sjáum við bestu leikmenn heims óáreitta og óslasaða – leikurinn flæðir og að minnsta kosti fyrir minn smekk verður hann miklu skemmtilegri.

Ég er aðeins að vandræðast með hverjum ég á að halda með það sem eftir er af HM 2014 í fótbolta.

Íslendingar dottnir út.

Spánverjar dottnir út.

Í getraunaleiknum í vinnunni spáði ég Brasilíu sigri og það myndi telja aðeins í heildarkeppninni þar. Ég hef hins vegar verið vonlaus spámaður að öðru leyti og á varla möguleika jafnvel þó þeir vinni.

Svo setti ég nokkrar krónur á Belgíu fyrir mótið, án þess að hafa í rauninni nokkra trú á þeim, stuðullinn var bara svo freistandi – og stundum gerast jú óvæntir hlutir.

Að öllu jöfnu held ég með því liði sem spilar skemmtilegasta og besta fótboltann.

Í gegnum tíðina hef ég svo líka verið veikur fyrir óvæntum úrslitum, þeas. þegar minni spámenn slá þá stærri úr keppni. Reynslan hefur nú samt kennt mér að það er kannski ekki alltaf svo gaman þegar fram í sækir, leikirnir eru jú oftast skemmtilegri þegar bestu leikmennirnir / liðin eru hvað lengst með. Smálið sem kemst áfram á leiðinlegum varnarleik og því að skora eitt mark eftir að hafa kýlt fram… það er einfaldlega ekki að skila öðru en fleiri leiðinlegum leikjum.

Það hefur vissulega verið svolítið gaman að fylgjast með Kosta ríka, en ég er ekkert viss um að ég vilji sjá þá í úrslitaleiknum.

Ég var mikill aðdáandi Hollendinga á áttunda áratungum en að sama skapi lítill á HM 2010.. og í ljósi þess að þeirra bestu leikmenn eru frekar óheiðarlegir, jafnvel hálfgerðir skúrkar inni á vellinum, þá held ég ekki með þeim.

Frakkar eru með mjög sterkt lið og ef þeir slá Þjóðverja út gætu þeir klárað mótið, heilsteypt lið, en vantar kannski einstaklinga sem skipta máli. En þeir virðast stundum hafa haft minnimáttarkennd gagnvart Þjóðverjum og gætu dottið út næst.

Þjóðverjar hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, en liðið þeirra í ár er með þeim skemmtilegri sem hafa spilað fyrir Þýskaland. Liðið er auðvitað ekki í sama gæðaflokki og Spánverjar, en þeir hafa tekið miklum framförum og þeir eiga meira hrós skilið en margir vilja gefa þeim. Þá tekur laumu Arsenal aðdáandinn í mér eftir því að þar eru flestir leikmenn Arsenal og varla verra fyrir sjálfstraustið þar á bæ að hafa sem flesta nýkrýnda heimsmeistara í liðinu.

Belgar eru með ágætis leikmenn en liðið var engan veginn verið að heilla mig fyrr en kannski á móti Bandaríkjamönnum. Margir frábærir leikmenn, en sennilega of margir veikir hlekkir. En það gæti verið gaman að fá heimsmeistara úr óvæntri átt og sennilega eru þeir eina óvænta liðið sem á möguleika.

Nema auðvitað Kólumbía. Þeir eru að spila mjög góðan bolta, svona það sem ég hef séð – sem hefði reyndar mátt vera meira. Ef Kólumbía nær að slá Brasilíu út þá gætu þeir svo sem farið alla leið.

Brasilía hins vegar er sennilega líklegasta liðið til að klára þetta. Þeir hafa ekki engan veginn staðið undir væntingum og mögulega fer taugaspennan með þá í þessu móti. En eftir því sem þeir ná að vinna fleiri leiki minnkar stressið kannski aðeins hjá þeim. En þeir hafa einfaldlega ekki spilað nægilega góðan bolta til að ég haldi neitt sérstaklega með þeim.

Þá er það Argentína. Ég hef einhvern veginn aldrei þolað argentínska landsliðið. Ég er löngu búinn að gleyma hvers vegna. Mögulega vegna þess að þeir voru ákveðnir frumkvöðlir í leikaraskap og öðrum óheiðarleika, svona í minningunni. En þeir eru ekkert verri en flest liðanna í dag. Ágætis lið, frábærir einstaklingar og skemmtilegir leikir. Þar til auðvitað á móti Sviss, eiginlega frekar ráðalausir og lítið að gerast.