Facebook getur verið alveg ágætis fyrirbæri, þeas. ef maður nýtir kostina og forðast gallana – kannski sérstaklega tilhneigingu Facebook til að vilja verða nýtt internet. Facebook getur nefnilega fljótt orðið fáránlega stór tímaþjófur. Mér finnst fínt að fá fréttir að vinum, kunningjum, ættingjum og jafnvel gömlum nágrönnum og skólafélögum sem ég umgengst ekki daglega. Þá þigg ég með þökkum að fá að vita af viðburðum sem margir færu annars fram hjá mér. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af „persónuverndarmálum“, ég set ekkert þarna sem hvers sem er má ekki vita.. geri þar fyrir utan ekki ráð fyrir að nokkur maður hafi áhuga. En ég hef tamið mér nokkrar „þumalputtareglur, það er að segja atriði sem ég geri (nánast) aldrei:
- ég spila aldrei leiki, aldrei
- ég tek aldrei þátt í „hver/hvernig ert þú…“ prófum
- mér líkar aldrei við þessa ofur hallærislegu sjálfshjálpartexta sem virðast vera í tísku
- ég forðast leturskreytta texta, þeas. texta sem búið er að setja upp sem mynd með skræpóttu letri og/eða myndskreytingu sem bætir engu við innihaldið
- mér finnst (orðið) óþarfi að tilkynna sérstaklega að mér líki við að einhver skipti um „prófíl“ mynd
- ég svara að ég komist ekki á viðburð ef ég kemst ekki eða hef ekki áhuga, án þess að eyða tíma í að afsaka mig eða skýra hvers vegna, ég kann samt ágætlega við að fá fréttir af sem flestum viðburðum
- já, og – mjög mikilvægt – ég merki aldrei að mér líki vel við stöðu uppfærslur þar sem viðkomandi skrifar um sjálfan sig í þriðju persónu
- ég nenni ekki lengur að segja að mér líki við breyttar prófíl myndir, ekki nema kannski viðkomandi hafi sett betri andlitsmynd af sér, þessi árátta að setja nýja prófíl mynd fyrir hvern viðburð er frekar hallærisleg
- ég skoða aldrei myndskeið sem eru kynnt eitthvað á þá leið að ég trúi ekki hvað gerist næst eða að ég verði að sjá hvað gerist
- ég tek aldrei þátt í umræðum þar sem einhver setur inn texta og endar á „Ræðið“.. mér finnst þetta eitthvað svo yfirlætislegt eða eins og viðkomandi sé að skipa fyrir
- ég hef ekki grun um hvað „poke“ er eða hvaða tilgangi það þjónar og læt sem vind um augun þjóta