Þá er bara að reyna að spá einhverju fyrir um úrslitaleikinn á HM… nánast engin spá hefur gengið eftir hjá mér þannig að ég verð að reyna einu sinni enn.
Þýska liðið er það lið sem hefur heillað mig einna mest í keppninni í Brasilíu. Það er ekki bara leikurinn á móti heimamönnum, heldur nánast í öllum leikjum sem ég hef séð til þeirra.. mis mikið auðvitað. Hér áður fyrr gat ég aldrei haldið með Þjóðverjum, mér fannst þeir spila grófan, stórkarlalegan og óspennandi fótbolta þar sem oftar en ekki var hugsað frekar um manninn en boltann. Auðvitað var þetta einföldun, en það gengur ekki að hafa sí breytilega eða flókna fordóma.
Síðustu ár hefur áferðin breyst talsvert á leik liðsins, liðið spilar góðan bolta og að öðrum ólöstuðum hefur Özil kannski hrifið mig mest.
Argentínumenn hafa gjarnan verið með frábæra einstaklinga en um leið farið í taugarnar á mér áratugum saman. Í einföldum heimi staðalmynda fótbolta landsliða þá hafa þeir verið liðið sem fann upp á leikaraskap.
Ég ímynda mér að ef Argentína og Þýskaland myndu spila fimm leiki (til þrautar) þá ynnu þjóðverjar fjóra og Argentínumenn einn – en þessi eini gæti allt eins verið úrslitaleikurinn á sunnudaginn. Úrslitaleikurinn er auðvitað bara einn leikur. Leikur með öllum sínum tilviljunum, mistökum leikmanna, mistökum dómara – og taugaspennu augnabliksins.
Kannski fær Neuer rautt spjald snemma leiks eftir aldrei-þessu-vant vanhugsað úthlaup. Eða eftir vel útfært úthlaup en jafn vel heppnaða dýfu sóknarmanns. Það væri synd, en kannski yrði það til að fráleit rauðuspjaldareglan verði endurskoðuð.
Kannski hittir Messi á leik sem hæfir tilefninu.
Kannski endar þetta í framlengdri vítakeppni.
Kannski skora Þjóðverjara á þriðju mínútu og halda út.