Sarpur fyrir október, 2012

Ef þetta er hluti af leiknum…

Posted: október 29, 2012 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Ég hef lengi talað fyrir því að nota sjónvarpsupptökur til að aðstoða dómara í knattspyrnuleikjum, sbr. td. http://blog.pressan.is/valgardur/2010/06/20/bullid-gegn-notkun-myndavela-a-hm/

Ég fæ alltaf „já, en mistök dómara eru hluti af leiknum“ annars vegar og hins vegar „leikurinn verður að vera eins alls staðar“.

Ef mönnum finnst leikurinn skemmtilegri eftir því sem mistök dómara eru meiri og afdrifaríkari þá er um að gera að hafa elliæra viðvaninga sem komast ekki úr sporunum í þessu hlutverki. Væri leikurinn ekki enn skemmtilegri þannig? Að minnsta kosti hlýtur það að fylgja ef þetta eru rökin.

Hitt er að leikurinn verði að vera eins í þriðja flokki og á EM. Ég hef hvorki séð fjórða, fimmta eða sjötta dómara í þriðja flokks leikjum, dómarar eru ekki með talstöðvar í fimmta flokki (svo ég viti til), notaður er glænýr bolti á stórmótum, öryggisgæsla er varla til staðar, ekki margir boltar, ekki boltastrákar/stelpur til að flýta leik og það er ekki svo langt síðan það var látið liggja á milli hluta hvort aðstoðardómarar væru á leikjum fjórða flokks. Það er nefnilega heilmikill munur á leik í öðrum flokki kvenna og leiki í Meistaradeild Evrópu. Og það gerir enginn athugasemdir við að umgjörð og dómgæsla sé allt önnur – eins og eðlilegt er – fyrir allt annað umhverfi. En þegar kemur að því að hjálpa dómurum við erfiðar ákvarðanir í sífellt hraðari leik þar sem einstaka leikmenn svífast einskis til að villa um fyrir þeim – þá allt í einu dúkka þessar rökleysur upp.

Ef svona mistök eru talinn eðlilegur hluti af leiknum.. þá er ég smeykur um að áhuginn dvíni. Enda man ég ekki til að nokkur önnur íþróttagrein stæri sig af því að slök dómgæsla sé kostur.

Siðir Háskóla Íslands

Posted: október 25, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég verð að fá að vekja athygli á góðri samantekt á síðu Vantrúar á erindi félagsins til Háskóla Íslands vegna kennsluhátta í guðfræðideild.

Samantektina má finna hér http://www.vantru.is/2012/10/24/12.00/.

Það er nú varla hægt að lýsa þessari fáránlegu atburðarás í styttra máli en gert er í greininni.

En þarna kemur glöggt fram hversu vel og málefnalega Vantrú stóð að þessu erindi og mikill og eindreginn sáttavilji félagsins.

Þá er athyglisvert að sjá misræmi í frásögnum kennara og forstöðumanna guðfræðideildar.

Og kannski staðfestir þetta að eitthvað var bogið við kennsluefnið. Engin leið er að átta sig á hvort um vísvitandi brenglun á gögnum var að ræða eða hvort menn höfðu einfaldlega ekki burði til að skilja texta betur en þetta.

Tilefni erindis Vantrúar var að í kennslu í HÍ væri dregin upp mjög brengluð mynd af félaginu með því að breyta tilvitnunum, skrumskæla texta og setja fram fullyrðingar án þess að nokkrar staðreyndir séu fyrir hendi þeim til stuðnings.

Viðbrögðin voru nefnilega meðal annars að taka illa fenginn texta af innra spjallborði félagins..  rífa úr samhengi og snúa merkingu á haus.

Ingólfur Júlíusson, stuðningur

Posted: október 24, 2012 in Umræða

Ingólfur Júlíusson, ljósmyndar, gítarleikari Q4U og eðaldrengur berst nú við bráðahvítblæði.

Fjölskylda og vinir hafa hafið söfnun – þeir sem vilja styrkja fjölskylduna geta lagt inn á reikning:

Reikningur: 0319-26-002052

Kennitala: 1906712249 (Monica).

Niðurstöður þjóðaratvæðagreiðslunnar á laugardag voru ekki góðar þegar kemur að þjóðkirkjuákvæðinu.

Ef við miðum við skoðanakannanir þar sem mikill meirihluti vill aðskilnað ríkis og kirkju þá er forvitnilegt að staldra við og velta fyrir sér hvers vegna niðurstöður kosninganna eru allt aðrar.

Voru skoðanakannanir svona svakalega vitlausar? Ítrekað?

Þetta staðfestir enn frekar hvers vegna við megum ekki búa við það fyrirkomulag að eitt trúfélag sé ríkisrekið. Það er nefnilega í lykilaðstöðu til að keyra sína áróðursvél fyrir svona kosningar. Fyrir almannafé.

Stanslaust áróður kirkjunnar fyrir kosningar, hvort sem var í kynningarbæklingi, aðkeyptum auglýsingum eða á vef kirkjunnar var nógu slæmur. Hamrað var ítrekað á rangfærslum og spilað á „grýlur“ sem enginn fótur var fyrir.

En fjölmiðlar spiluðu líka með. Fréttablaðið birti nánast daglega greinar stuðningsmanna kirkjunnar en hafnaði greinum þeirra sem vildu aðskilnað. Það var ekki fyrr en einn fyrrverandi prestur sendi inn grein með rangfærslum um mig að ég fékk að birta svargrein.

Fréttastofa RÚV spilaði svo með kirkjunni. Ég fékk að vísu að mæta í Silfur Egils, eins og biskup, en Egill var sá eini sem sá sóma sinn í að kynna ólík sjónarmið. Útvarpsfréttir, Spegillinn, hleypti bara presti að í umræðunni. Talað var við presta í fréttum. Í Kastljósi mætti biskup og hlutlaus stjórnlagaráðsmaður.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti. Einhliða einokun eins trúfélags á umræðu leiðir til niðurstöðu sem ekki byggir á jafnræði og er því ekki lýðræðisleg.

Það er gott að bera þetta saman við ríki sem aðeins leyfa einn stjórnmálaflokk sem stýrir öllum fjölmiðlum. Við myndum ekki kalla það lýðræðislegt fyrirkomulag eða réttlátt.

Með yfirgangi og stanslausum einhliða áróðri staðfesti þjóðkirkjan nefnilega hvers vegna hér má ekki vera þjóðkirkja.

Fyrir mér er augljóst að við eigum ekki að hafa þjóðkirkju.

Það eru auðvitað engin rök fyrir ríkisreknu félagi um lífsskoðanir, hvað þá llifsskoðun sem byggir á ímyndaðri veru, veru sem enginn hefur getað sýnt fram á að sé til. Á tvö þúsund árum hafa jú engin merki fundist. Vegna þess að þetta er trú en ekki vísindi, staðreyndir eða upplýsingar. Þess vegna á þetta ekkert erindi í ríkissjóð, ekki frekar en súpermann, álfar, draugar eða aðrar yfirnáttúrulegar ímyndaðar verur.

Við erum ekki kristin þjóð. Þó það hafi mögulega átt við að einhverju leyti fyrir hundrað árum þá erum við í dag fjölbreytt þjóð með ólíkar lífsskoðanir og mismunandi sjónarmið. Fjórði hver Íslendingur hefur sagt sig úr þjóðkirkjunni, trúleysi fer vaxandi og kirkjur eru tómar. Innan við helmingur landsmanna trúir á þennan guð og ég veit ekki hversu fá prósent kunna trúarjátninguna, hvað þá hversu margir kvitta upp á innihaldið.

Kristin gildi og arfleifð telja sumir hluta af menningu og sögu. Að einhverju leyti, en þau gildi sem skipta máli finnast í flestum öðrum trúar- og lífsskoðunum. Og ekki þarf kirkjan að vera rekin af ríkissjóði ef gildin eru einhvers virði.

Ég nenni varla að nefna til sögunnar þvæluna um frídaga, þjóðfána eða athafnir. Sárafáar þjóðir í kringum okkur eru með þjóðkirkju og þetta vefst ekkert fyrir þeim sem eru án ríkisrekinnar kirkju.

En ég nenni alveg að tala um peningana sem fara í þetta. Fjórir milljarðar. Og þetta eru ekki félagsgjöld og fyrrum kirkjujarðir standa aldrei undir þessu. Prestar fá byrjunarlaun sem eru margföld á við byrjunarlaun annarra stétta. Og fá til viðbótar hlunnindi af jörðum sem kirkjan afhenti ríkinu fyrir meira en öld. Og kirkjan notar gjarnan þau rök að ríkissjóður fái arðinn…

Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?

Rekstur kirkjunnar kostar fjóra milljarða á ári úr sameiginlegum sjóðum.

Þá er þjónusta presta verðlögð sérstaklega.

Prestar eru á margföldum byrjunarlaunum miðað við aðrar stéttir – fyrir utan greiðslur fyrir athafnir.

Kirkjan segir afdráttarlaust að henni beri ekki að veiti fólki þjónustu nema allir aðilar séu þar meðlimir. Nema þegar hún er í kosningabaráttu, þá segir hún að henni beri skylda til að þjóna öllum.

Kirkjan neitar öðrum söfnum  (ma. kristnum) um afnot af húsnæði sem ríkið á, en eru í umsjón kirkjunnar.

Prestar geta neitað fólki um þjónustu vegna kynhneigðar.

Vill einhver (annar en prestar) hafa ríkiskirkjuna áfram?

Já, já? Nei. Já, já já!

Posted: október 18, 2012 in Umræða

Ég ætla að greiða atkvæði með tillögum stjórnlagaráðs í atkvæðagreiðslunni næsta laugardag.

Eitt og annað hefði ég haft öðru vísi ef ég hefði skrifað nýja stjórnarskrá einn og óstuddur. Eins og væntanlega flestir aðrir. Þá eru nokkur smáatriði sem þarf að fínpússa.

Stjórnarskráin – Já

En aðalatriðið er að tillaga að nýrri stjórnarskrá tekur þeirri gömlu fram að flestu ef ekki öllu leyti.

Ég óttast að takist þessi tilraun ekki þá sitjum við uppi með gatslitna, mótsagnakennda og ruglingslega stjórnarskrá.

Auðlindir – Já

Þetta finnst mér sjálfgefið, hver annar ætti að eiga náttúruauðlindirnar?

Kirkjan – Nei

Nei, ríkiskirkja á ekkert erindi í stjórnarskrá

Persónukjör – Já

Þarna hefði ég viljað ganga lengra en tillögur stjórnlagaráðs, en þær eru klárlega til bóta og vonandi upphafið að betri lausn.

Jafnt vægi atkvæði – Já

Ég hef aldrei séð nokkur rök fyrir því að vægi atkvæði í kosningum eiga að vera mismunandi eftir búsetu, kyni, litarhætti eða öðru.

Þjóðaratkvæðagreiðslur – Já

Við eigum auðvitað að nota þjóðaratkvæðagreiðslur og það vantar betri aðferðir og reglur um hvenær og hvernig.

Ég hef talað lengi fyrir því að aðskilja ríki og kirkju. Einfaldlega vegna þess að skoðanir fólks eiga ekkert erindi í ríkisrekstur.

Mér er ekkert illa við kirkjuna, ég þekki mikið af góðu fólki sem þar starfar, gerir það heiðarlega og eftir bestu samvisku. Hún er bara ekki fyrir mig. Og það á ekki að reka hana með fé úr sameiginlegum sjóðum.

Ég neita því ekki að ýmis ummæli fyrrverandi biskups lögðust oft illa í mig. Hrein og klár ósannindi í bland við grímulausa fyrirlitningu á lífsskoðunum annarra gera það að verkum að þar fannst mér einn versti forystumaður kirkjunnar.

Ég dæmi ekki alla kirkjunnar þjóna eða meðlimi út frá ummælum biskups. Og ég batt talsverðar vonir við nýjan biskup. Í fyrstu kom Agnes vel fyrir og ég hef svo sem ekki gefið upp alla von um betri samvinnu.

En það hefur aðeins slegið á þær vonir við að fylgjast með umræðunni um þjóðkirkju ákvæði í stjórnarskrá. Fyrir rúmri viku sagði biskupinn ákvðið í Silfri Egils að þjóðkirkjan ætlaði ekki í kosningabaráttu vegna málsins.

Á mánudag birtist auglýsing á „mbl.is“. Og rétt áðan heyrði ég auglýsingu fyrir tíu-fréttir á Rás2 hjá RÚV.

Upplýsingavefur kirkjunnar leyfir ekki önnur sjónarmiða en skoðanir kirkjunnar.

Þá hélt biskup því ranglega fram að ef breyta ætti kirkjuskipan í stjórnarskrá þá þyrfti að fara fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Þetta er rangt, þetta þarf aðeins ef breyta á kirkjuskipan með lögum án breytingar á stjórnarskrá, ekki ef breyta á stjórnarskránni sjálfri.

Biskup hélt því líka ranglega fram að Hæstaréttardómur væri fyrir því að þjóðkirkju fyrirkomulagið væri brot á mannréttindum.

Og biskup hélt því líka ranglega fram að úrskurðað hefði verið að þjóðkirkja stangaðist ekki á við mannréttindasáttmála Evrópu.

Skrýtnar heimasætur

Posted: október 16, 2012 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég játa að mér finnst það hálf furðuleg ákvörðun að ætla að sitja heima næsta laugardag þegar kosið verður um tillögur stjórnlagaráðs.

Þetta er ekki flókið mál sem verið er að kjósa um. Það er hægt að kynna sér galla núverandi stjórnarskrár á nokkrum mínútum og það þarf ekki mikið lengri tíma til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Fimmtán til tuttugu mínútur ættu að nægja til að geta tekið afstöðu og kannski einn til tveir tímar til að kynna sér málið þokkalega vel.

Þeir sem eru ósáttir við ferlið eða kosningarnar eða spurningarnar geta komið því á framfæri með því að mæta og skila auðu.

Þeir sem eru ósáttir við tillögur stjórnlagaráðs geta komið því á framfæri með því að mæsta á kjörstað og segja „Nei“ við fyrstu spurningunni, að minnsta kosti.

Þeir sem eru ósáttir við gömlu stjórnarskrána og finnast tillögur stjórnlagaráðs til mikilla bóta hafa svo auðvitað þann kost að segja „Já“ á laugardag við tillögum stjórnlagaráðs – og vonandi „Nei“ við þjóðkirkju.

En að sitja heima er einhvers konar rænuleysi og sofandaháttur. Ef kjörsóknin verður minni en í þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum þá er fjöldi fólks að sleppa því að taka afstöðu í svona mikilvægu máli sem aftur tekur afstöðu í almennum kosningum.

Valkostirnir í almennum kosningum eru miklu fjölbreyttari og það er miklu tímafrekar að kynna sér valkosti þar og taka málefnalega afstöðu en í þessu, tiltölulega, einfalda máli.

Að nenna ekki að taka afstöðu í stjórnarskrármálinu en nenna að eyða tíma í almennar kosningar er eiginlega fráleit afstaða. Stjórnarskráin skiptir miklu meira máli og „trompar“ almennar kosningar. Kosningar um stjórnarskrána er svona á 70 ára fresta á meðan kosið er nánast annað hvert ár til þings eða sveitarstjórnar.

Svo eru hinir, sem kannski kjósa í almennu kosningunum án þess að kynna sér hvað er í boði. Getur það verið?

 

Ég var frummælandi á fundi Stjórnarskrárfélagsins um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá síðasta miðvikudag. Talsmenn kirkjunnar töluðu nokkuð oft um að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði úrskurðað að þjóðkirkjuákvæðið væri ekki brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar þau voru innt frekari skýringa var lítið um svör og má jafnvel segja að þau hafi farið undan í flæmingi. Þannig að ég fór að kanna málið. Í stuttu máli þá fann ég lítið og setti inn blogg færslu þar sem ég óskaði skýringa. Engin komu svörin, þrátt fyrir að ég benti fundarfélögum mínum á færsluna, fyrr en ég auglýsti eftir þessu í Silfri Egils í gær. Þá kom tölvupóstur sem benti á mál þessu til stuðnings.

Bent var á mál Darby gegn Svíþjóð (skýrsla Mannréttindanefndar Evrópu nr. 11581/85).

Fyrir það fyrsta segir í úrskurðinum í þessu máli að 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu (um samvisku og trúarbrögð) hafi verið brotin:

The Commission concludes, by 10 votes to 3, that there has been a violation of Article 9 (Art. 9) of the Convention

En skattgreiðslurnar sem slíkar eru ekki taldar brot í Svíþjóð. Forsendur fyrir þeirri niðurstöðu segja hins vegar skýrt að fyrirkomulagið hér á Íslandi er brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

The obligation (to pay church contributions) can be avoided if they choose to leave the church, a possibility which the State legislation has expressly provided for. By making available this possibility, the State has introduced sufficient safeguards to ensure the individual’s freedom of religion.“

Sænska ríkið vinnur þetta mál sem sagt vegna þess að í Svíþjóð er mögulegt fyrir þá sem standa utan trúfélaga að lækka skatta sína sem nemur gjaldi til trúfélaga. Stefnandi hafði ekki nýtt sér þetta vegna annarrar skráningar („resident“).

Á Íslandi er fyrirkomulagið þannig að ég greiði nákvæmlega sömu krónutölu í skatt hvort sem ég er í trúfélagi eða ekki – og nákvæmlega sömu krónutölu og maðurinn-í-næsta-húsi sem er í þjóðkirkjunni og hefur forsendur (tekjur, eignir…).

Gott og vel, ég er ekki lögfræðingur. En ég er læs. Og ég held því fram að fyrirkomulagið hér á Íslandi sé brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Og mér sýnist ég hafa ansi sterk rök.