Ég hef talað lengi fyrir því að aðskilja ríki og kirkju. Einfaldlega vegna þess að skoðanir fólks eiga ekkert erindi í ríkisrekstur.
Mér er ekkert illa við kirkjuna, ég þekki mikið af góðu fólki sem þar starfar, gerir það heiðarlega og eftir bestu samvisku. Hún er bara ekki fyrir mig. Og það á ekki að reka hana með fé úr sameiginlegum sjóðum.
Ég neita því ekki að ýmis ummæli fyrrverandi biskups lögðust oft illa í mig. Hrein og klár ósannindi í bland við grímulausa fyrirlitningu á lífsskoðunum annarra gera það að verkum að þar fannst mér einn versti forystumaður kirkjunnar.
Ég dæmi ekki alla kirkjunnar þjóna eða meðlimi út frá ummælum biskups. Og ég batt talsverðar vonir við nýjan biskup. Í fyrstu kom Agnes vel fyrir og ég hef svo sem ekki gefið upp alla von um betri samvinnu.
En það hefur aðeins slegið á þær vonir við að fylgjast með umræðunni um þjóðkirkju ákvæði í stjórnarskrá. Fyrir rúmri viku sagði biskupinn ákvðið í Silfri Egils að þjóðkirkjan ætlaði ekki í kosningabaráttu vegna málsins.
Á mánudag birtist auglýsing á „mbl.is“. Og rétt áðan heyrði ég auglýsingu fyrir tíu-fréttir á Rás2 hjá RÚV.
Upplýsingavefur kirkjunnar leyfir ekki önnur sjónarmiða en skoðanir kirkjunnar.
Þá hélt biskup því ranglega fram að ef breyta ætti kirkjuskipan í stjórnarskrá þá þyrfti að fara fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Þetta er rangt, þetta þarf aðeins ef breyta á kirkjuskipan með lögum án breytingar á stjórnarskrá, ekki ef breyta á stjórnarskránni sjálfri.
Biskup hélt því líka ranglega fram að Hæstaréttardómur væri fyrir því að þjóðkirkju fyrirkomulagið væri brot á mannréttindum.
Og biskup hélt því líka ranglega fram að úrskurðað hefði verið að þjóðkirkja stangaðist ekki á við mannréttindasáttmála Evrópu.