Ég játa að mér finnst það hálf furðuleg ákvörðun að ætla að sitja heima næsta laugardag þegar kosið verður um tillögur stjórnlagaráðs.
Þetta er ekki flókið mál sem verið er að kjósa um. Það er hægt að kynna sér galla núverandi stjórnarskrár á nokkrum mínútum og það þarf ekki mikið lengri tíma til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Fimmtán til tuttugu mínútur ættu að nægja til að geta tekið afstöðu og kannski einn til tveir tímar til að kynna sér málið þokkalega vel.
Þeir sem eru ósáttir við ferlið eða kosningarnar eða spurningarnar geta komið því á framfæri með því að mæta og skila auðu.
Þeir sem eru ósáttir við tillögur stjórnlagaráðs geta komið því á framfæri með því að mæsta á kjörstað og segja „Nei“ við fyrstu spurningunni, að minnsta kosti.
Þeir sem eru ósáttir við gömlu stjórnarskrána og finnast tillögur stjórnlagaráðs til mikilla bóta hafa svo auðvitað þann kost að segja „Já“ á laugardag við tillögum stjórnlagaráðs – og vonandi „Nei“ við þjóðkirkju.
En að sitja heima er einhvers konar rænuleysi og sofandaháttur. Ef kjörsóknin verður minni en í þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum þá er fjöldi fólks að sleppa því að taka afstöðu í svona mikilvægu máli sem aftur tekur afstöðu í almennum kosningum.
Valkostirnir í almennum kosningum eru miklu fjölbreyttari og það er miklu tímafrekar að kynna sér valkosti þar og taka málefnalega afstöðu en í þessu, tiltölulega, einfalda máli.
Að nenna ekki að taka afstöðu í stjórnarskrármálinu en nenna að eyða tíma í almennar kosningar er eiginlega fráleit afstaða. Stjórnarskráin skiptir miklu meira máli og „trompar“ almennar kosningar. Kosningar um stjórnarskrána er svona á 70 ára fresta á meðan kosið er nánast annað hvert ár til þings eða sveitarstjórnar.
Svo eru hinir, sem kannski kjósa í almennu kosningunum án þess að kynna sér hvað er í boði. Getur það verið?