Sarpur fyrir febrúar, 2014

Teygjanleg hugtök

Posted: febrúar 23, 2014 in Umræða

Félagi minn sagði við mig þegar ég var að falast eftir sæti á stjórnlagaþingi að við ættum að hafa stjórnarskrána á frönsku. Ja, kannski ekki beinlínis og bókstaflega, en punkturinn var að hugtök væru miklu skýrari og skilmerkilegri á frönsku en á flestum öðrum tungumálum.

Mér verður oftar og oftar hugsað til þegar íslenskar stjórnmálagarpar fara offari í að svíkja gefin loforð og/eða fara einfaldlega með rangt mál.

Einhver frægasti útúrsnúningurinn síðustu mánaðar er væntanlega að „strax“ sé teygjanlegt hugtak.

Og um leið og við erum farin að gefa okkur að hvert einasta hugtak sé teygjanlegt og sjálfsagt að láta það merkja það sem hentar hverju sinni… þá eru hugtökin vitanlega fullkomlega gagnslaus.

Nú eru „hungursneyð“, „loforð“, „almenningur“ og „fullveldi“ orðin teygjanleg hugtök hjá forystumönnum ríkistjórnarinnar. Af því að það hentar þeim.

En þetta er grátt gaman hjá þeim. Og varhugaverð braut sem þeir eru að feta.

Kannski finnst einhverjum líka að „friðhelgi Alþingis“, „lög“, „ráðherra“, „dómsvald“ megi allt eins vera teygjanleg hugtök. Ég vona ekki. En ef svo fer, þá vitum við hverjir bera ábyrgð.

Ég verð að ítreka hugmynd vegna Alþingis og sveitarstjórnakosninga. Væri ekki ráð að þeir taki próf sem vilja setjast á Alþingi, sveitarstjórn, taka sæti í ríkisstjórn eða gegna öðrum ábyrgðarstöðum sem hafa mikil áhrif á rekstur þjóðarbúsins og framtíð þjóðarinnar.

Almenn greindarpróf væri auðvitað það fyrsta.

Almenn þekking væri svo eitthvað sem mætti prófa.

Og kannski hæfileikinn til að vinna úr upplýsingum og rökum.

Svona eins og gjarnan er gert þegar fólk er ráðið í ábyrgðarstöður í atvinnulífinu.

Og til að forðast allan misskilning þá er ég ekki að tala um að eingöngu yfirburðafólk á þessu sviðum megi bjóða sig fram (þó það væri auðvitað ekki al slæm hugmynd), aðeins að setja til þess að gera lágan og lítinn þröskuld til að fólk sem jaðrar við að vera greindarskert, veit ekkert í sinn haus og/eða getur ómögulega skilið einföld rök. Það er fordæmi fyrir svona takmörkunum í núverandi kosningalögum og þær eru ekki að ástæðulausu.

Það mætti svo gjarnan bæta prófi í siðblindu við.

Afsakaðu séra, en..

Posted: febrúar 10, 2014 in Trú

Sér Örn Báður skrifar á Vísi (og sennilega í Fréttablaðið) í dag og segir:

Hér á landi er langstærstur hluti barna skírður ár hvert til kristinnar trúar og þau börn ættu að fá fræðslu um sína trú – feimnislaust og af fullri einurð og án afsakana kennara – og þá með biblíusögum, sálmasöng, bænum og öllu sem tilheyrir. Börn annarrar trúar ættu að sjálfsögðu að hafa sama rétt.

Afsakaðu, en hver er að banna foreldrum að fræða börn börn og fara með þau í kirkju og/eða sunnudagaskóla?

Hvers vegna að troða þessu inn í skólann og þar með upp á börn sem eru trúlaus (sem þér virðist nú ekki detta í hug sem möguleiki) eða börn sem eru annarrar trúar?

Hvað kemur þetta skólastarfi við? Fræðsla er eitt, og sjálfsögð, hvorki sálmasöngur né bænir hafa fræðslugildi.

Við getum kannski verið sammála um að kynna biblíusögurnar – helst allar, ekki bara handvaldar – það er fljótlegasta leiðin að trúleysi. En bara sem þjóðsögur og helgisögur, ekki sem einhvern sannleik. Þú virðist nú haga seglum eftir vindi þegar kemur að því að hafa skoðun á hvort sögur biblíunnar eru helgisögur eða sögulegar frásagnir – en við getum væntanlega verið sammála um að það á ekki að líta á þetta sem sögulegar heimildir í fræsðlustofnunum.

Það virðast einhver álög á mér við að reyna að fá þjónustu þessar vikurnar… þeas. ef ég tryði á svoleiðis þvælu (þeas. eins og álög).

Ég hef gjarnan keypt áskrift að enska boltanum og/eða Evrópuboltanum nokkra mánuði á ári, en nenni ekki að sitja yfir þessu allt árið.

Nú var komið að því að kaupa nokkra mánuði og ég byrjaði að hringja í Stöð2 síðasta mánudag. Ég ætlaði bara að kaupa febrúar, mars og apríl, ég næ væntanlega lítið að horfa í maí, hvort sem er.

Nú, fimmtán símtölum seinna, fjórum tölvupóstum og löngu, tímafreku netspjalli er ég búinn að gefast upp.

Sá sem tók við fyrsta símtalinu gleymdi að senda mér tilboðið. Hann benti mér hins vegar á smá hugmynd sem gæti nýst mér þar sem ég vinn. Gott mál. Vel þegið hversu vel vakandi hann var. Ég hringdi aftur og sá sem tók við því símtali sendi mér tilboð, en ekki miðað við upphaflegar forsendur og ekkert kom fram um að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði. Einu sinni enn hringdi ég… .

Já, vel á minnnst, ég hringdi.. það er ekkert einfalt að hringja. Yfirleitt var ég þetta ellefti til tuttugasti og annar í röðinni. Og biðin eftir að ná í gegn var ekki beinlínis mæld í sekúndum eða örfáum mínútum. Ég gat nú reyndar ekki alltaf beðið lengi.

Þrisvar þáði ég að panta að fá símtal til baka. Það var bara einu sinni hringt til baka.

En, já, einu sinni enn hringdi ég. Nú var mér sagt að ég þyrfti að senda tölvupóst á ákveðið netfang og að yfirmaður minn þyrfti að staðfesta. Gott og vel. Við gerðum það síðasta miðvikudag. Ekkert svar. Þá var mér sagt að það hefði verið skráð í kerfið að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði þó það kæmi ekki fram í tilboðinu. En viðkomandi sagðist senda staðfestingu í tölvupósti. Sú staðfesting kom ekki.

Einu sinni enn hringdi ég. Ég þurfti að byrja upp á nýtt og útskýrði að ég hefði sent tölvupóst, þá var lofað að skoða málið. Ég fékk svo tölvupóst um kvöldið þar sem mér var sagt að ég þyrfti að senda tölvupóst á ákveðið netfang. Sem ég hafði útskýrt að ég væri löngu búinn að gera. Ég svaraði tölvupóstinum og útskýrði einu sinni enn að ég hefði sent umbeðinn tölvupóst á þetta tiltekna netfang.

Ekkert svar.

Ég ákvað að prófa eitthvað sem er kallað „netspjall“, eitthvað sem var alltaf verið að benda á þegar ég beið í símanum – og hélt að væri einhvers konar spjallþráður fyrir áskrifendur, „netspjall“ gefur það jú til kynna. Þetta reyndist vera þjónustu á netinu.

Enn eina ferðina útskýrði ég að ég hefði sent tölvupóst á uppgefið netfang. Svarið var, „þú þarft að senda tölvupóst á þetta netfang“. Mér var farið að líða eins og ég væri að tala við vegg. Ég útskýrði enn einu sinni.

Ég var kominn á fremsta hlunn með að kaupa áskrift án þess að nýta mér vinnustaðinn, vildi bara fá staðfestingu á að þetta yrði í lagi um helgina. Og ég bað enn einu sinni um staðfestingu á að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði, febrúar – mars og apríl – alls ekki maí og ég vildi ekki þurfa að hafa fyrir að segja upp þá. Já, já, kom svarið eftir drykklanga stund, ég er búinn að senda þér uppsögn frá 1. júní 2014. Ég benti á að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði og tók það skýrt fram í netspjallinu nokkrum línum áður. Nú var mér sagt að ég yrði að borga fyrir maí. Ég get sem sagt ekki keypt febrúar, mars og apríl. Þrátt fyrir að það væri margsinnis búið að staðfesta við mig að ég gæti keypt þrjá mánuði.

smá viðbót

Ég fékk loksins svar við tölvupóstunum sem ég hafði sent á miðvikudag. Svarið var þess eðlis að starfsmenn þar sem ég vinn ættu ekki rétt á neinu. Og að ég yrði að kaupa maí.

Enn eitt ruglið. Því samstarfsfélagi minn er með áskrift á þessum kjörum, honum hafði reyndar fyrst verið sagt að okkar fyrirtæki væri ekki hluti af tilboði, en síðar leiðrétt…

Ég hef verið harður talsmaður þess að fólk kaupi löglega áskrift og notfæri sér ekki að stela efni. En svei mér þá ef ég er ekki farinn að fá ákveðna samúð…

Ósamræmi í málflutningi

Posted: febrúar 6, 2014 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég á marga góða vini, kunningja, spjallfélaga og þess vegna fólk sem líkar ekkert sérstaklega vel við mig.. sem mér finnst hafa ansi undarlegar og, í rauninni, ósamrýmanlegar skoðanir á tveimur málum.. sem eru í rauninni náskyld.

Þá er ég annars vegar að tala um ólöglega dreifingu á höfundarréttarvörðu efni… sem mörgum finnst í góðu lagi vegna þess að ekki sé hægt að koma í vef fyrir dreifingu – og gefa lítið fyrir það hversu siðferðilega rangt það er að taka efni höfunda og dreifa í leyfisleysi. „það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta“, „fólk verður að aðlaga sig að raunveruleikanum“, „höfundarnir verða svo vinsælir að þeir mega bara þakka fyrir“, summera nokkurn veginn upp flest rökin.

Hins vegar er mjög algengt að þessir sömu einstaklingar bregðist heiftarlega illa við því þegar tölvupóstur og önnur trúnaðar gögn einstaklinga eru tekin ófrjálsri hendi og þeim dreift án leyfis viðkomandi. Þá bregður svo við að engu máli skiptir hversu erfitt er að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu, raunveruleikinn er aukaatriði og ekki skiptir máli hvort eigandi fær mikla athygli. Nú skiptir allt í einu öllu máli að taka siðferðilega afstöðu.

Er alveg nógu gott samræmi í þessu?

Kæra Wow

Posted: febrúar 5, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Kæra Wow,

Ég fagnaði komu ykkar á ferðamarkaðinn þegar þið bættust í hópinn. Bæði er ég fylgjandi samkeppni og eins fylgdi ykkur ferskur blær og óvenjuleg nálgun.

Ég verð samt að segja farir (ferðir?) mínar ekki sléttar í framhaldi af flugi með ykkur. Við keyptum okkur (sautján í hóp) flug til Salzburg þann 18. janúar – nánar um málsatvik má sjá hér að bíða, Wow.

Ég kenni ykkur ekki um veðrið eða lendingarskilyrði. Ég get meira að segja alveg haft góðan skilning á að þetta var óvænt og þið voruð kannski illa undirbúin.

En þið mættuð sýna því skilning að viðbrögð ykkar, eða skortur á viðbrögðum, kom sér verulega illa fyrir marga farþega og að tjón þess er nokkurt fyrir marga farþeganna.

Það sem truflar mig þó ekki síður eru síðbúin og innihaldslaus svör við fyrirspurnum eftir að heim kom. Ég hef sent ykkur sextán – já, sextán! – tölvupósta eftir þessa ferð til að leita skýringa. Ég hef margsinnis útskýrt sömu hluti og ég hef ítrekað spurt um hvaða ábyrgð þið teljið ykkur bera á tjóni vegna ykkar mistaka. Ég hef spurt við hverju ég megi búast ef ég skyldi kjósa að fljúga aftur með ykkur og sambærilegar aðstæður skyldu koma upp. Ég þurfti þrisvar að spyrja um sama atriðið áður en ég fékk svar og svo þurfti ég þrisvar sinnum til viðbótar að útskýra þetta sama atriði, sem var þó nokkuð einfalt. Ég fékk satt að segja á tilfinninguna að þið hafið haldið að ég væri að segja ósatt.

Það eykur ekki traust mitt að þið beitið stundum þeirri aðferð að gera mér upp skoðanir og svara svo þessum tilbúnu skoðunum mínum. Þið talið eins og ég kenni ykkur um veðrið, nokkuð sem ég hef hvergi gert. Þið gefið í skyn að ég láti eins og þið hafið gert þetta að gamni ykkar að lenda ekki í Salzburg, ekki veit ég hvernig ykkur dettur það í hug. Og þið látið í veðri vaka að við ætlumst til að þið takið áhættu í fluginu.

Og það bætir ekki úr skák að þið farið rangt með í nokkrum atriðum sem einfalt væri að hafa í lagi.

Ég var virkilega að vonast til að fá önnur og betri viðbrögð. Ég get alveg „lifað af“ að þurfa að kaupa kvöldmat aukalega eitt kvöld. Og glataður tími er auðvitað þegar farinn. En ég var að vonast til að fá viðbrögð þannig að ég hafi geti treyst því að til dæmis upplýsingagjöf verði í lagi ef sambærilegar aðstæður koma upp. Almennt spjall um að þið séuð að skoða málin breytir ekki miklu. Og kannski allra helst var ég að vonast til að fá boðleg viðbrögð við kvörtunum.

Ykkur finnst sem sagt varla taka því að svara tölvupóstum efnislega. Ég gafst upp á tölvupóstsendingunum þegar ég var enn einu sinni beðinn um skýringu og staðfestingu á atriði sem ykkur var í lófa lagið að kanna.

Kannski finnst ykkur heldur ekki taka því að svara svona færslum. Mér finnst samt rétt að gera eina lokatilraun.

PS. ég á engra hagsmuna að gæta hjá öðrum flugvélögum.

Ég hef aðeins verið að hugsa… kannski á svipuðum nótum og stundum áður þegar ég hef heyrt að tónlistarmenn sem ég hef haldið mikið upp á hafi kannski ekki verið neitt sérstaklega aðlaðandi einstaklingar.

Ég fór að velta þessu aftur fyrir mér eftir að ég sá bréf Dylan Farrow um Woody Allen.

Woody Allen hefur gert margar af kvikmyndir sem eiga heima á topp tuttugu listanum mínum. Vissulega á hann líka nokkrar frekar vondar kvikmyndir – og svo allt þar á milli.

Ég hef engar forsendur til að efast um frásögn Dylan, frekar en ég hef forsendur til að efast um svör Allen, ég get auðvitað ekkert fullyrt, en það er ekki punkturinn með þessari færslu… og fyrir alla muni höldum þeirri umræðu annars staðar.

En ég velti fyrir mér hvort myndirnar hans séu minna virði?

Og í framhaldinu, svona almennt séð, geta glæpamenn og drullusokkar búið til listaverk?