Stöð 2 Sport – að reyna að kaupa áskrift…

Posted: febrúar 7, 2014 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það virðast einhver álög á mér við að reyna að fá þjónustu þessar vikurnar… þeas. ef ég tryði á svoleiðis þvælu (þeas. eins og álög).

Ég hef gjarnan keypt áskrift að enska boltanum og/eða Evrópuboltanum nokkra mánuði á ári, en nenni ekki að sitja yfir þessu allt árið.

Nú var komið að því að kaupa nokkra mánuði og ég byrjaði að hringja í Stöð2 síðasta mánudag. Ég ætlaði bara að kaupa febrúar, mars og apríl, ég næ væntanlega lítið að horfa í maí, hvort sem er.

Nú, fimmtán símtölum seinna, fjórum tölvupóstum og löngu, tímafreku netspjalli er ég búinn að gefast upp.

Sá sem tók við fyrsta símtalinu gleymdi að senda mér tilboðið. Hann benti mér hins vegar á smá hugmynd sem gæti nýst mér þar sem ég vinn. Gott mál. Vel þegið hversu vel vakandi hann var. Ég hringdi aftur og sá sem tók við því símtali sendi mér tilboð, en ekki miðað við upphaflegar forsendur og ekkert kom fram um að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði. Einu sinni enn hringdi ég… .

Já, vel á minnnst, ég hringdi.. það er ekkert einfalt að hringja. Yfirleitt var ég þetta ellefti til tuttugasti og annar í röðinni. Og biðin eftir að ná í gegn var ekki beinlínis mæld í sekúndum eða örfáum mínútum. Ég gat nú reyndar ekki alltaf beðið lengi.

Þrisvar þáði ég að panta að fá símtal til baka. Það var bara einu sinni hringt til baka.

En, já, einu sinni enn hringdi ég. Nú var mér sagt að ég þyrfti að senda tölvupóst á ákveðið netfang og að yfirmaður minn þyrfti að staðfesta. Gott og vel. Við gerðum það síðasta miðvikudag. Ekkert svar. Þá var mér sagt að það hefði verið skráð í kerfið að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði þó það kæmi ekki fram í tilboðinu. En viðkomandi sagðist senda staðfestingu í tölvupósti. Sú staðfesting kom ekki.

Einu sinni enn hringdi ég. Ég þurfti að byrja upp á nýtt og útskýrði að ég hefði sent tölvupóst, þá var lofað að skoða málið. Ég fékk svo tölvupóst um kvöldið þar sem mér var sagt að ég þyrfti að senda tölvupóst á ákveðið netfang. Sem ég hafði útskýrt að ég væri löngu búinn að gera. Ég svaraði tölvupóstinum og útskýrði einu sinni enn að ég hefði sent umbeðinn tölvupóst á þetta tiltekna netfang.

Ekkert svar.

Ég ákvað að prófa eitthvað sem er kallað „netspjall“, eitthvað sem var alltaf verið að benda á þegar ég beið í símanum – og hélt að væri einhvers konar spjallþráður fyrir áskrifendur, „netspjall“ gefur það jú til kynna. Þetta reyndist vera þjónustu á netinu.

Enn eina ferðina útskýrði ég að ég hefði sent tölvupóst á uppgefið netfang. Svarið var, „þú þarft að senda tölvupóst á þetta netfang“. Mér var farið að líða eins og ég væri að tala við vegg. Ég útskýrði enn einu sinni.

Ég var kominn á fremsta hlunn með að kaupa áskrift án þess að nýta mér vinnustaðinn, vildi bara fá staðfestingu á að þetta yrði í lagi um helgina. Og ég bað enn einu sinni um staðfestingu á að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði, febrúar – mars og apríl – alls ekki maí og ég vildi ekki þurfa að hafa fyrir að segja upp þá. Já, já, kom svarið eftir drykklanga stund, ég er búinn að senda þér uppsögn frá 1. júní 2014. Ég benti á að ég ætlaði bara að kaupa þrjá mánuði og tók það skýrt fram í netspjallinu nokkrum línum áður. Nú var mér sagt að ég yrði að borga fyrir maí. Ég get sem sagt ekki keypt febrúar, mars og apríl. Þrátt fyrir að það væri margsinnis búið að staðfesta við mig að ég gæti keypt þrjá mánuði.

smá viðbót

Ég fékk loksins svar við tölvupóstunum sem ég hafði sent á miðvikudag. Svarið var þess eðlis að starfsmenn þar sem ég vinn ættu ekki rétt á neinu. Og að ég yrði að kaupa maí.

Enn eitt ruglið. Því samstarfsfélagi minn er með áskrift á þessum kjörum, honum hafði reyndar fyrst verið sagt að okkar fyrirtæki væri ekki hluti af tilboði, en síðar leiðrétt…

Ég hef verið harður talsmaður þess að fólk kaupi löglega áskrift og notfæri sér ekki að stela efni. En svei mér þá ef ég er ekki farinn að fá ákveðna samúð…

Lokað er á athugasemdir.