Sarpur fyrir maí, 2021

Ég fékk svar frá Umboðsmanni Alþingis vegna erindis um sóknargjöld. Ákvað að ítreka að fá niðurstöðu.

Ef ég skil svarið rétt þá er talið að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að segja álit sitt á efninu þar sem farið sé að lögum og að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að hafa skoðanir á lögum.

En svo segir að umboðsmaður geti samt tilkynnt Alþingi ef hann verði þess var að meinbugir séu á gildandi lögum.

Það kemur ekki fram hvers vegna ekki er talin ástæða til að benda Alþingi á galla í löggjöfinni, eða yfirhöfuð skoða hvort ástæða sé til þess.

Þá hefur umboðsmaður (ef ég skil rétt) ekki athugasemdir við svör ráðuneytisins. Svör ráðuneytisins eru ekki í samræmi við það álit umboðsmanns að það sé eingöngu verið að fara að lögum heldur er vísað til tæknilegra annmarka – sem eru ekki fyrir hendi – og þess sem starfsmenn ráðuneytisins telja að megi segja. Standast þessi svör ráðuneytisins að mati umboðsmanns?

Telur umboðsmaður að þetta séu góðar og gildar skýringar – og að svarið sé fullnægjandi?

Í ljósi þess að ég tel mig hafa fært sterk rök fyrir því að þarna sé brot á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu vil ég fara fram á að þessi afstaða verði endurskoðuð, skoðað verði hvort ástæða sé til að benda Alþingi á galla í viðkomandi lögum – og senda ábendingu til Alþingis ef það verður niðurstaðan.

Það ætti að vera óþarfi að ónáða Mannréttindadómstól Evrópu eina ferðina enn – en svona í ljósi þess hversu augljóst ég tel þetta vera þá er í rauninni ekki annað í stöðunni ef ekki næst að laga þetta innanlands.