Sarpur fyrir janúar, 2015

Með svínakjöt á heilanum

Posted: janúar 30, 2015 in Umræða
Efnisorð:,

Einhverra hluta vegna virðast stuðningsmenn þess að smala börnum í kirkjuferðir fyrir jólin vera með svínakjöt á heilanum.

Ég hef engan veginn tölu á því hversu oft ég hef heyrt eitthvað á þeim nótum að þetta sé nú bara að verða ferlegt að ekki megi lengur bjóða upp á svínakjöt í mötuneytum í skólum.

Þetta er auðvitað rökleysa á fleiri en einn veg.

Fyrir það fyrsta þá fer þetta með svínakjötið í taugarnar á fólki þegar múslimar vilja ekki borða svínakjöt. Það virðist trufla viðkomandi minna ef þetta eru gyðingar. Og sjálfir afþakka þeir sumir hverjir hrossakjöt. Nú get ég alveg tekið undir að það er frekar fráleitt að neita sér um mat af trúarástæðum. En hvað þá með grænmetisætur? Þeir afþakka jú kjöt í mörgum tilfellum vegna lífsskoðana, þó ekki séu þær endilega trúarlegs eðlis. Eru þeir líka að vaða yfir menningu og hefðir og sögu okkar á skítugum skónum? Nei, auðvitað ekki…

En í öðru lagi þá er þetta svokölluð hálubrautarrökleysa („slippery slope“) þeas. það virðist flestum sama um hvort svínakjöt eða ekki er í boði í skólum og rökin ganga út á, „hvað gerist næst ef við samþykkjum þetta?“. Sem er auðvitað rökleysa.

En aðallega virðist fólki vera nákvæmlega sama um svínakjötið í sjálfu sér en grípur til þessarar (fáránlegu) samlíkingar til að réttlæta það að draga börn í kirkjuferðir fyrir jólin. Og þar kemur enn ein rökleysan, svínakjöt eða ekki svínakjöt hefur ekkert með það að gera hvort skólinn takmarkar sig við að vera menntastofnun eða ekki og það eru ekki utanaðkomandi aðilar að innræta börnum svínakjötsát.

Verst er auðvitað að fólk grípur til þessara rökleysu (eða má setja „rökleysna“, þeas. í fleirtölu?) vegna þess að það eru engin haldbær rök fyrir því að reka börn í kirkju. Og það er jú enn ein rökleysan.

Getur guðfræði verið fræðigrein?

Posted: janúar 4, 2015 in Spjall

Ég velti stundum fyrir mér fyrirbærinu „guðfræði“.

Ég geri ekki lítið úr áhrifum trúarbragðanna á sögu heimsins. En þau fræði tilheyra væntanlega fræðigrein sem kallast „saga“.

Og auðvitað eru ýmsar bókmenntir og rit tengd trú og trúarbrögðum. En þau kalla ekki á sérstaka fræðigrein, „bókmenntir“ ættu að ná auðveldlega yfir þetta.

Aðrir hlutar sem gjarnan eru talin með tilheyra svo frekar „heimspeki“ („siðfræði“) og þurfa þess vegna ekki eigin grein.

Hvað er þá eftir? Einhverjar vangaveltur um yfirnáttúrulegar verur sem gætu hafa skapað heiminn, skipta sér af smáatriðum í daglegu lífi fólks og svara bænum (eða ekki), senda okkur manneskjur sem brjóta öll náttúrulögmál og taka við okkur (eða hafna) eftir dauðann.

Ekkert af þessu stenst lágmarkskröfur um rannsóknir eða fræðilega vinnu. Mögulega gæti jú til þess að gera stutt skoðun leitt til þeirrar niðurstöðu að enginn fótur sé fyrir þessum vangaveltum manna um yfirnáttúrulegar verur. Sem aftur leiðir sjálfkrafa til þess að engin ástæða er til að halda úti sérstakri fræðigrein vegna þessa…

Óumræðilega leiðinleg ó-umræða

Posted: janúar 3, 2015 in Umræða

Ég hef tekið þátt í umræðum um hin og þessi mál síðustu ár.. málum sem ég hef áhuga á og/eða held að megi færa til betri vegar.

Ég hef ekki önnur markmið eða tilgang en að taka þátt í málefnalegri umræðu og komast þannig mögulega að niðurstöðu.

Eins og gengur eru ekki allir sammála mér.

Ég held / vona að mér hafi tekist þokkalega vel til að vera málefnalegur, færa rök fyrir mínum skoðunum og forðast að gera lítið úr þeim sem mér eru ósammála.

Ég get meira að segja haft ágætlega gaman af að rökræða við fólk sem ekki er mér sammála, það er að minnsta kosti óþarfi að rökræða við þá sem mér eru sammála fyrir.

Þetta er hins vegar orðið ansi þreytandi að reyna að vera með í umræðum.

  • Allt of oft er mér gerður upp annarlegur tilgangur.
  • Þá eru mér enn oftar gerðar upp skoðanir sem ég hef ekki – og svo gert lítið úr þeim.
  • Ef ég leiðrétti rangfærslur þá er ég neikvæður og stöðugt að gagnrýna.
  • Ef ég bið um rökstuðning fyrir órökstuddum skoðunum þá er ég með leiðindi.

Að gagnrýna gagnrýni..

Posted: janúar 1, 2015 in Umræða

Ég heyrði í fréttum að einhver maður hefði gert það að umræðuefni að þjóð þrifist ekki á gagnrýni einni saman – og átti þá við Íslendinga, ef ég skil rétt.

Ég veit svo sem ekki til að gagnrýni sé það sem við þrífumst á – en kannski er erfitt að halda jarðsambandi þegar menn eru upphafnir til skýjanna af sjálfum sér.

Burtséð frá því þá er frekar mótsagnakennt að gagnrýna gagnrýni. Enda er gagnrýni ekkert vandamál í sjálfu sér.

Annað hvort er gagnrýni málefnaleg og á rétt á sér. Eða ekki.

Ef gagnrýni er ekki málefnaleg þá er auðvelt að svara henni málefnalega og kveða hana þannig í kútinn.

Ef hún á rétt á sér er engin ástæða til að kvarta undan henni… hún er meira að segja bráðnauðsynleg.

Þannig er aldrei ástæða til að amast við gagnrýni.

Nema auðvitað þeir sem eru að bulla, þeir vilja auðvitað losna við alla gagnrýni, hún getur jú verið ansi óþægileg. Það er um að gera að óska að þeir sem gagnrýna rangfærslur haldi sér saman.. Og ein aðferðin er að gera lítið úr þeim sem gagnrýna.