Einhverra hluta vegna virðast stuðningsmenn þess að smala börnum í kirkjuferðir fyrir jólin vera með svínakjöt á heilanum.
Ég hef engan veginn tölu á því hversu oft ég hef heyrt eitthvað á þeim nótum að þetta sé nú bara að verða ferlegt að ekki megi lengur bjóða upp á svínakjöt í mötuneytum í skólum.
Þetta er auðvitað rökleysa á fleiri en einn veg.
Fyrir það fyrsta þá fer þetta með svínakjötið í taugarnar á fólki þegar múslimar vilja ekki borða svínakjöt. Það virðist trufla viðkomandi minna ef þetta eru gyðingar. Og sjálfir afþakka þeir sumir hverjir hrossakjöt. Nú get ég alveg tekið undir að það er frekar fráleitt að neita sér um mat af trúarástæðum. En hvað þá með grænmetisætur? Þeir afþakka jú kjöt í mörgum tilfellum vegna lífsskoðana, þó ekki séu þær endilega trúarlegs eðlis. Eru þeir líka að vaða yfir menningu og hefðir og sögu okkar á skítugum skónum? Nei, auðvitað ekki…
En í öðru lagi þá er þetta svokölluð hálubrautarrökleysa („slippery slope“) þeas. það virðist flestum sama um hvort svínakjöt eða ekki er í boði í skólum og rökin ganga út á, „hvað gerist næst ef við samþykkjum þetta?“. Sem er auðvitað rökleysa.
En aðallega virðist fólki vera nákvæmlega sama um svínakjötið í sjálfu sér en grípur til þessarar (fáránlegu) samlíkingar til að réttlæta það að draga börn í kirkjuferðir fyrir jólin. Og þar kemur enn ein rökleysan, svínakjöt eða ekki svínakjöt hefur ekkert með það að gera hvort skólinn takmarkar sig við að vera menntastofnun eða ekki og það eru ekki utanaðkomandi aðilar að innræta börnum svínakjötsát.
Verst er auðvitað að fólk grípur til þessara rökleysu (eða má setja „rökleysna“, þeas. í fleirtölu?) vegna þess að það eru engin haldbær rök fyrir því að reka börn í kirkju. Og það er jú enn ein rökleysan.
Það er svo önnur mjög skemmtileg rökleysa í þessu: Þetta er einfaldlega ekki satt.
Þessi umræða kom upp fyrir nokkrum árum þegar Austurbæjarskóli ákvað að prófa að taka út svínakjöt vegna þess að einhverjir nemendur í skólanum borðuðu ekki svínakjöt af trúarástæðum. Af einhverjum ástæðum hefur þetta þróast yfir í það að fólk heldur því fram að þetta sé svona almennt í leik- og grunnskólum, sem er bara þvæla.
Og hvað varðar Austurbæjarskóla og þessa tilraun þeirra þá tekur ekki langan tíma að finna út hvort hún er ennþá í gangi. Skemmst er frá því að segja að það er grísapottréttur með hrísgrjónum á boðstólum þar akkúrat í dag: http://www.austurbaejarskoli.is/index.php/component/utmschoolmenu/
Ég sem kennari verð svo að viðurkenna að ég skil ekki af hverju þetta skiptir máli. Ef við höldum okkur bara við Austurbæjarskóla þá er tvisvar á matseðlinum fyrir Janúar svínakjöt á boðstólum; áðurnefndur pottréttur og svo pylsupasta. Og þar sem ég þekki til er það bara nokkuð algengt, hvort sem um er að ræða leik- eða grunnskóla. Svínakjöt er yfirleitt í boði frá engu og upp í tvö skipti í mánuði. Er eitthvað stórmál að sleppa því? Eins og það er í sjálfu sér lítið mál fyrir skólana að vera með annað í boði fyrir þá sem ekki borða svínakjöt (rétt eins og með þá sem eru með ofnæmi fyrir hinu og þessu) þá er ennþá einfaldara að sleppa bara svínakjötinu. Og ég get ekki séð að það skipti einhverju máli.
Já, svo má ekki gleyma þessu.. skal játa að áróðurinn hefur verið svo mikill að ég hélt að þetta væri meira en það greinilega er.