Posts Tagged ‘Svínakjöt’

Með svínakjöt á heilanum

Posted: janúar 30, 2015 in Umræða
Efnisorð:,

Einhverra hluta vegna virðast stuðningsmenn þess að smala börnum í kirkjuferðir fyrir jólin vera með svínakjöt á heilanum.

Ég hef engan veginn tölu á því hversu oft ég hef heyrt eitthvað á þeim nótum að þetta sé nú bara að verða ferlegt að ekki megi lengur bjóða upp á svínakjöt í mötuneytum í skólum.

Þetta er auðvitað rökleysa á fleiri en einn veg.

Fyrir það fyrsta þá fer þetta með svínakjötið í taugarnar á fólki þegar múslimar vilja ekki borða svínakjöt. Það virðist trufla viðkomandi minna ef þetta eru gyðingar. Og sjálfir afþakka þeir sumir hverjir hrossakjöt. Nú get ég alveg tekið undir að það er frekar fráleitt að neita sér um mat af trúarástæðum. En hvað þá með grænmetisætur? Þeir afþakka jú kjöt í mörgum tilfellum vegna lífsskoðana, þó ekki séu þær endilega trúarlegs eðlis. Eru þeir líka að vaða yfir menningu og hefðir og sögu okkar á skítugum skónum? Nei, auðvitað ekki…

En í öðru lagi þá er þetta svokölluð hálubrautarrökleysa („slippery slope“) þeas. það virðist flestum sama um hvort svínakjöt eða ekki er í boði í skólum og rökin ganga út á, „hvað gerist næst ef við samþykkjum þetta?“. Sem er auðvitað rökleysa.

En aðallega virðist fólki vera nákvæmlega sama um svínakjötið í sjálfu sér en grípur til þessarar (fáránlegu) samlíkingar til að réttlæta það að draga börn í kirkjuferðir fyrir jólin. Og þar kemur enn ein rökleysan, svínakjöt eða ekki svínakjöt hefur ekkert með það að gera hvort skólinn takmarkar sig við að vera menntastofnun eða ekki og það eru ekki utanaðkomandi aðilar að innræta börnum svínakjötsát.

Verst er auðvitað að fólk grípur til þessara rökleysu (eða má setja „rökleysna“, þeas. í fleirtölu?) vegna þess að það eru engin haldbær rök fyrir því að reka börn í kirkju. Og það er jú enn ein rökleysan.