Sarpur fyrir febrúar, 2020

Það dylst væntanlega engum að ég er ekki mikill stuðningsmaður núverandi forseta Bandaríkjanna. Samkvæmt öllum mínum viðmiðunum fer þarna sannanlega viðbjóðsleg mannvera sem keypti sér embætti forseta með aumkunarverðum sjónvarps auglýsingum og með því að spila á lægstu hvatir einfeldninga.

En kannski er ekki allt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Auðvitað finn ég til með vinum og kunningjum sem þurfa að búa við þetta ástand, ástand sem einkennist af rasisma, kvenfyrirlitningu, glæpsamlegri hegðun, hömlulausum lygum, fáfræði, ofbeldisdýrkun, hunsun á þekkingu, útlendingahatri,mannfyrirlitningu – og svona almennt að hyskið í kringum forsetann og hann sjálfur hagar sér eins og leiðtogar í skipulegri glæpastarfsemi. Réttindi minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín eru skert á kostnað þeirra sem hvort sem er hafa meira en nóg (nei, ég er samt ekki „sósíalisti“).

En, hvað er þá jákvætt?

Jú, almennt séð, og svona í stóru samhengi, er ég ekki á því að stórveldi sem ráða miklu af heiminum séu af hinu góða – sérstaklega ekki þau sem hunsa mannréttindi. Sagan kennir okkur líka að – sem betur fer – endast þau sjaldan. Sagan sýnir líka að þau falla gjarnan innanfrá, ákveðin „úrkynjun“ (kann ekki betra orð fyrir stóran hluta þeirra sem komu forsetanum til valda), samfara sorglegri blöndu af dómgreindarskorti, sjálfsupphafningu og mannfyrirlitningu.

Í þessu tilfelli verður það þeim væntanlega að falli að kjósa sér getulausan ræfil til forystu og það að missa sig í persónudýrkun og það að missa sjónar á þeim grunngildum sem þetta þjóðfélag lagði upp með.

Er það kannski ekkert sérstaklega neikvætt? Svona til lengri tíma litið…

Það eru nefnilega nokkuð margar vísbendingar um yfirvofandi hrun. Auðvitað eru sumir mælikvarðar jákvæðir, margir reyndar vegna aðgerða fyrri forseta [enda gerast svona breytingar ekki á einni nóttu] og tefja fyrir niðurrifinu á meðan aðrir ættu að hringja öllum viðvörunarbjöllum „í húsinu“. Sennilega gerist þetta ekki nægilega hratt fyrir næstu kosningar [enda gerist svona ekki á einni nóttu] en það breytir kannski ekki öllu.

Fyrir utan sterkar vísbendingar um að það stefni í efnahagslegt hrun eru auðvitað fleiri tákn á loft sem minna harkalega á fall fyrri stórvelda sögunnar, samanburðinn við fall rómverska heimsveldisins er bæði nærtækur og ótrúlega margt sem rímar saman.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru í rauninni bara tveir kostir í stöðunni – að snúa við blaðinu eða falla. Ég get í sjálfu sér sætt mig við báða – enda þarf ég ekki að búa þarna.