Archive for the ‘Stjórnmál’ Category

Í rauninni hef ég kannski ekkert sérstaklega mikinn áhuga á komandi forsetakosningum og er ekki enn búinn að gera upp hug minn.

Baldur og Jón Gnarr eru báðir mjög góðir kostir en á ólíkan hátt.

Katrín kemur ekki til greina og breytir engu þó margir sameiginlegir vinir og kunningjar beri henni vel söguna. Það gengur einfaldlega ekki í mínum huga að á forsetastóli sitji einstaklingur sem mótaði og var leiðtogi núverandi ríkisstjórnar. Eitt hlutverk forseta er að vera hemil á ríkisstjórn og Alþingi ef til kemur.

Þar fyrir utan hefur hún hunsað afdráttarlausan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, haldið hlífiskildi yfir spillingu og frændhygli og látið viðgangast að Ísland taki ekki afdráttarlausa afstöðu til mannréttindamála.

Steinunn Ólína kemur til greina, en hefur ekki náð að sannfæra mig um að hún sé betri kostur en aðrir og það hjálpar ekki að hún virðist ekki eiga möguleika.

Halla Tómasdóttir kom ágætlega út úr umræðum (fyrir utan hallærislegt ‘name-drop’) en fyrsta kynningarefni var undarlegt og tal um samfélagsþjónustu bendir ekki til mikils skilnings á hlutverki forseta. Engu að síður, margir vinir mæla sterklega með – það telur, en nægir ekki.

Halla Hrund kemur enn til greina, kannski helst vegna þess að margir vinir mæla með og virðast treysta – en það er einfaldlega heldur ekki nóg til að ég skipti um skoðun. Lopapeysu- harmonikku ímyndin er ekki að virka fyrir mig (svo ég taki nú ekki dýpra í árinni), hún virkaði hálf utan gátta í sjónvarpsumræðum (hef ekki grun um hvert hún var að fara með Vestmannaeyja/Vestfjarðatali) og grein sem hún hefur skrifað hljómar eins og hún sé í framboði til þings frekar en forseta.

Síðan eru tveir minna álitlegir kostir. Annar er lögfræðingur sem virðist ekki geta lesið sér til gagns, ég sé ekki betur en að sé haldinn alvarlegum ranghugmyndum og hefur beinlínis borið lífshættulegan áróður á borð. Hinn er velviljaður og með stórar hugmyndir sem samrýmast varla forsetaembættinu, fer gjarnan fram með miklum flumbrugangi – og þarf nú svolítið til að ganga fram af mér.

Ég veit svo lítil sem engin deili á öðrum – og með núverandi kosningakerfi virðist varla taka því að setja tíma í að kynna sér hvað þeir standa fyrir.

Gott og vel, það má taka tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af mögulegum aukaverkunum vegna bólusetninga vegna Covid-19. En þetta er mjög fámennur hópur sem getur haft raunverulegar áhyggjur og sá fjöldi telur lítið.

Stóra vandamálið er alvarleg fáfræði og getuleysi til að vinna úr einföldustu upplýsingum.

Þarna er ansi fjölmennur hópur sem er ekki einungis að leggja eigin heilsu og jafnvel líf í hættu, sem væri kannski ásættanlegt, heldur fjölda fólks í kringum sig.

Ekki vegna góðra og gilda athugasemda.

Heldur beinlínis og bókstaflega vegna fullkomins getuleysis til að vinna úr einföldum upplýsingum og einhverrar undarlegrar óskhyggju / trúarofstækis.

Nú nýlega kom innlegg í umræður um gildi bólusetninga á Facebook… andstæðingur bólusetning tefldi fram máli sínu til stuðnings myndbandi frá einhverjum náunga. Ekki hafði viðkomandi fyrir því að kanna hvort viðkomandi talsmaður hefði einhverja sögu eða eitthvað staðfesti að hann væri sá sem hann sagðist vera. Og þegar nánar var skoðað virtist viðkomandi ekki einu sinni yfirhöfuð vera til! Og lykilinnihaldið í videó-langhundi var fullyrðing sem stóðst ekki einfalda skoðun.

Síðan komu alls kyns „fabúleringar“ máli hans til stuðnings, löggan átti að hafa truflað útsendinguna, sennilega sviðsett, hvort sem er, breytti engu um innihald fullyrðinganna.

Einhver vinkona/kærasta/eiginkona var tekin sem dæmi um að viðkomandi hefði látist í kjölfar „árásar“ lögreglunnar. Það voru reyndar svo margar ruglingslegar sögur sem hafðar voru eftir viðkomandi konu að andstæðingarnir töldu vænlegast að gefa í skyn að hennar innlegg væri komið frá CIA til að rugla málið. „Verst“ að þeir/þau gleymdu að þeir höfðu rétt áður vísað í þetta sjálf(ir) máli sínu til stuðnings.

Eftir stendur að besta sem andstæðingar bólusetninga gátu bent á var fyrirlestur frá einhverjum gaur sem sennilega er ekki til (amk. ekki sá sem hann segist vera) að halda fram einhverju sem stenst ekki 10 sekúndna skoðun.

Þegar bent var á þetta stjórnlausa og glórulausa rugl var síðasta vörnin,“þið þurfið að sanna að þetta sé ekki rétt“.

Fyrir það fyrsta, þá var búið sanna afdráttarlaust að þetta væri sannanlega rangfærslur sem stæðust ekki einfalda skoðun, komst ekki fram hjá fyrstu athugun.

Þar fyrir utan. það er hlutverk þess sem ber einhverjar fullyrðingar á borða að færa rök fyrir þeim og staðfesta, ekki annarra að afsanna. Það að geta ekki fundið neitt máli sínu til stuðnings og heimta að aðrir afsanni, er hin endanlega uppgjöf í rökræðum.

Þetta er auðvitað svolítið fyndið.

En þetta er líka óendanlega sorglegt.

Fullt af fólki er að leggja eigin heilsu og líf í hættu vegna, til dæmis, einhvers gaurs sem er ekki til að fullyrða eitthvað sem stenst ekki einfalda skoðun.

Og ekki bara eigið líf og heilsu, heldur allra í kringum þau.

Ég er ekki hlynntu skyldu bólusetningu, langt frá því.

En svona glórulaus þvættingur fær mann óneitanlega til að hugsa.

Þrír flokkar í framboði næst?

Posted: september 28, 2021 in Stjórnmál

Eftir kosningar með ellefu flokkum velti ég fyrir mér hvort ekki sé einfaldara að vera með þriggja flokka kerfi.

Viðreisn gæti verið borgara/hægri [nenni ekki að skilgreina nákvæmlega] flokkur, sennilega eiga margir félagar Sjálfstæðisflokksins heima þarna, ef ekki væri fyrir gamlan vana, þeir sem eftir standa eiga nú ekki mikið erindi. Sennilega gæti einhver hluti Framsóknarmanna fundið sig þarna líka.

Á hinum endanum einhvers konar félagshyggju/vinstri [nenni heldur ekki að skilgreina nákvæmlega] flokkur þar sem megnið af Samfylkingu, Vinstri-grænum, Flokki fólksins, jafnvel Sósíalistum og hluta Framsóknarflokksins gætu fundið sig. Auðvitað ekki þeir sem eru lengst „á kantinum“ eða þeir sem eru að sækjast eftir sviðsljósinu, en að miklu leyti ættu stefnumál að rúmast í einum flokki og það ætti að vera hægt að leysa ágreining innan flokks í stað þess að bjóða fram sitt í hvoru lagi með tilheyrandi þrasi og töpuðum atkvæðum.

Þriðji flokkurinn væri svo eitthvað í ætt við Pírata, endilega skipta um nafn, losa sig við upprunann, en gæti tekið talsvert af fólki úr flestum hinna, gegn spillingu, með nútímalegri nálgun, með stjórnarskrá og án þess að nenna að skilgreina, svona þriðja víddin.

Það er engin þörf á jaðarflokkum, eins máls flokkum, flokkum sem eru lítið annað en „vagn“ fyrir egó einstaklinga, eða flokkum sem hafa ekki grun um hvað þeir eru að reyna að segja.

Og það er engin þörf á miðflokki… hvernig í dauðanum á að vera þörf á stjórnmálaflokki sem hefur ekki annað fram að færa en að vera einhvers staðar á milli annarra?

Ég fékk símtal frá starfsmanni hjá umboðsmanni Alþingis í gær þar sem erindið var að útskýra fyrir mér afstöðu umboðsmanns vegna erindis míns vegna sóknargjalda. Og fara fram á að það nægði sem svar í stað þess að senda formlegt svarbréf. Það skiptir mig svo sem engu á hvaða formi svarið er. En ég ætla að senda þessa færslu til umboðsmanns til staðfestingar á mínum skilningi á símtalinu, nú eða gefa tækifæri á leiðréttingu.

Fyrir það fyrsta þá kom fram að megin efnið í svarbréfi umboðsmanns skipti engu máli, þeas. sá kafli sem útskýrði að umboðsmaður vildi ekki taka mál sem fyrri (settur) umboðsmaður hefði svarað.

Þá kom fram að þrátt fyrir að umboðsmaður hafi svarað málefninu með allt öðrum rökum en ráðuneytið – án þess að ég skilji hvers vegna umboðsmaður var að taka sjálfstæða afstöðu til erindis míns til ráðuneytisins í stað þess að taka afstöðu til þess hvort svar ráðuneytisins væri boðlegt – og hann myndi ekki svara frekar hvort hann teldi svar ráðuneytisins eðlilegt en hann myndi ekki gera athugasemdir við svörin.

Þá var ítrekað að hlutverkumboðsmaðsmanns væri að bregðast við ef fólk teldi brotið á sér af stjórnsýslunni, ekki (svona almennt) að gera athugasemdir við störf Alþingis.

Hitt er að ég fór fram á að umboðsmaður benti Alþingi á að það væru meinbugur á núgildandi lögum, eins og umboðsmaður [benti sjálfur á] getur gert, hefur gert og er full ástæða til. Mér var sagt að umboðsmaður myndi ekki nýta sér þennan rétt en ég fékk engin svör, upplýsingar eða rökstuðning um hvers vegna honum þætti ekki ástæða til að benda á þennan (að mér finnst) augljósa galla.

Píratar og sóttvarnarlög

Posted: apríl 26, 2021 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er ekkert leyndarmál að ég er verulega ósáttur við framgöngu sumra þingmanna Pírata á Alþingi.

Ég hef kosið Pírata í síðustu kosningum.

Ég hef svo sem líka kannski rifist hvað mest við Pírata… ruglið sem flokkurinn var stofnaður í kringum byggir að mínu viti á vanþekkingu og skammsýni. En þeim til hróss hafa þau verið tilbúin í rökræður og það fer lekki lengur mikið fyrir þessum upphaflegu hugmyndum.

Þau hafa staðið sig mjög vel, verið ferskt afl á Alþingi og spurt erfiðra spurninga.

En mér finnst framganga sumra þingmanna í umræðum um sóttvarnarlög einfaldlega ekki verjandi.

  • Þau tala um „geðþóttaákvarðanir“, það er ekki geðþóttaákvörðun að fylgja ráðum vísindamanna.
  • Þau tala um að það hefði átt að reyna vægari aðgerðir, vitandi (eða amk. höfðu alla möguleika á að vita) að það að búið að reyna og einfaldlega ekki að virka.
  • Þau tala um að frumvarp hafi verið illa undirbúið og unnið á skömmum tíma. Fyrir það fyrsta, þá var nú ekki mikill tími til stefnu. Þá þarf ekki að hafa fylgst mikið með til að vita að búið er að ræða málið fram og til baka og bókstaflega fráleitt að gefa í skyn að hér sé einhver flumbrugangur á ferð.
  • Að tala um að frumvarpið hafi verið samið á einum degi er svo dæmi um fullkomlega marklausar athugasemdir. Það er ólíklegt að frumvarpið hafi verið samið á einum degi þó frágangur hafi mögulega verið unninn í flýti. En það skiptir bara ekki nokkru einasta [hér má velja kjarnyrt blótsyrði] máli hversu langan tíma tók að skrifa frumvarpið.. það sem skipti máli er hvort það var nógu gott eða ekki.
  • Píratar kvarta undan að breytingatillaga þeirra hafi ekki verið samþykkt, mögulega, sennilega, líklega hefði frumvarpið verið betra þannig, en það þýðir ekki að ekki megi samþykkja það.
  • Þá er gjarnan gripið í að snúa þessu upp í mannréttindamál. Mannréttindi eru mikilvæg, en ég gef einfaldlega ekkert fyrir baráttu fólks fyrir mannréttindum ef það lítur svo á að mannréttindi felist í að fólk hafi rétt til að leggja aðra í lífshættu að nauðsynjalausu.
  • Og svo virðist „háll-halli-rökleysan“ (slippery-slope fallacy) stöðugt dúkka upp í réttlætingu á afstöðu sumra þingmanna.

Þetta er alvarlegt mál. Ef fólk er situr á Alþingi og er að greiða atkvæði þá er lágmarkskrafa að vinna heimavinnuna og halda þræði í hugsun og rökfærslu – sleppa klisjum og innantómum frösum.

Ef ekki verður breyting á þessu þá er líklegt að mitt atkvæði fari annað í Alþingiskosningunum í haust.

Ég styð Pírata áfram í borgarstjórn og öðrum sveitarstjórnum þar sem þau eru að vinna gott verk.

Það hafa verið nokkrar umræður um hvort samfélagsmiðlar hafi gert rétt í að loka aðgangi einstaklinga sem hafa neitað að fylgja reglum.

Ég er ekki nokkrum vafa.. einkafyrirtækjum ber engin skylda til að leyfa misyndismönnum að misnota kerfi og vettvang þeirra til að koma hættulegum og viðbjóðslegum skilaboðum á framfæri. Einhverra hluta vegna lítur reyndar út fyrir að þeir vinir mínir á samfélagsmiðlum sem aðhyllast frjálshyggju og frjálsa samkeppni eru hvað ákveðnastir í því að skylda eigi einkafyrirtæki til að

Það er kannski einfaldast að bera saman við að ef ég væri að reka leigu á hljóðkerfum, sjónvarpstöð eða bar. Mér bæri engin skylda til að leigja fólki hljóðkerfi til að breiða út hatursboðskap og koma þannig óorði á mitt fyrirtæki. Væri ég að reka bar og einn fastagesturinn væri stöðugt að stofna til rifrilda og slagsmála þá þætti mér ég í fullum rétti að meina honum aðgang. Og með sjónvarpsstöð, þá bæri mér engin skylda til að hleypa hverjum sem er að með hvaða bull sem er eins lengi og þeim sýnist. Enda gera sjónvarpsstöðvar þetta ekki.

Margir hafa vísað til Voltaire og talið mikils virði að leyfa öllum að segja sína skoðun, hversu ósammála sem við erum viðkomandi.

Þarna kemur tvennt til.

Fyrir það fyrsta, þá er mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum, lygum, rangfærslum og óstaðfestum fullyrðingum hins vegar. Ég hef aldrei skilið hugmynd Voltaires þannig að hann talaði fyrir sannanlegum lygum, ósannindum eða óstaðfestum fullyrðingum. Það er ekki skoðun að fjórir plús fjórir geri ellefu, það er einfaldlega rangt. Og það er ekki skoðun að heiminum sé stjórnað af eðlum frá öðrum sólkerfum, það er fullyrðing út í bláinn.

En jafnvel þar fyrir utan. Ég er einfaldlega ekkert á því að allar skoðanir eigi rétt á sér. Það er gjarnan talað um einhvern heilagan rétt þegar kemur að stjórnmálum, en sama fólki vefst gjarnan tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar ég spyr hvort skoðanir sem styðja fjöldamorð, stríðsglæði, áróður rasista og barnaníð eigi rétt á sér.

Fyrir mér er þetta kýrskýrt, einkafyrirtæki ráða því hvernig kerfi þeirra eru notuð, rangfærslur eru ekki skoðanir og það eiga ekkert allar skoðanir rétt á sér.

Mér heyrist tal um laga- eða réttaróvissu sé orðin einhvers konar þungavigtar klisja í málflutningi þeirra sem vilja með öllu forðast að afgreiða nýja stjórnarskrá.

Það er auðvitað gott og gilt að þetta sé haft í huga í meðförum Alþingis og nauðsynlegar breytingar gerðar ef þurfa þykir.

En þetta er farið að hljóma eins og einhver allsherjar afsökun fyrir að sleppa því að, svo mikið sem, taka málið fyrir. Oftar en ekki á einhverjum dularfullum og óútskýrðum nótum.

Nú er ég ekki lögfræðimenntaður og ekki skal ég útiloka að einhver atriði megi betur fara.

En í hverju er þessi óvissa fólgin.. kannski gengur mér illa að leita, en ég finn afskaplega lítið haldbært um þetta. Þetta er aðallega á „ýmsir telja..“ og „sumir óttast..“ nótunum.

Stangast einhver lög á við nýja stjórnarskrá. Nú þá er ekkert að því að breyta viðkomandi lögum. Nú eða breyta stjórnarskránni ef þetta eru einhver tæknileg smáatriði.

Jú, „dómafordæmi“ eru stundum nefnd til sögunnar. Hvaða dómafordæmi? Það er enginn að tala um að stjórnarskrá eigi, frekar en lög, að vera afturvirk.

Stangast ákvæði hennar á forsendur dóma? Gott og vel, er það ekki einfaldlega verkefni dómstóla að leysa úr þessu í framtíðinni? Ég man ekki til að hafa heyrt um að ekki megi breyta lögum vegna dómafordæma…

Það dylst væntanlega engum að ég er ekki mikill stuðningsmaður núverandi forseta Bandaríkjanna. Samkvæmt öllum mínum viðmiðunum fer þarna sannanlega viðbjóðsleg mannvera sem keypti sér embætti forseta með aumkunarverðum sjónvarps auglýsingum og með því að spila á lægstu hvatir einfeldninga.

En kannski er ekki allt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Auðvitað finn ég til með vinum og kunningjum sem þurfa að búa við þetta ástand, ástand sem einkennist af rasisma, kvenfyrirlitningu, glæpsamlegri hegðun, hömlulausum lygum, fáfræði, ofbeldisdýrkun, hunsun á þekkingu, útlendingahatri,mannfyrirlitningu – og svona almennt að hyskið í kringum forsetann og hann sjálfur hagar sér eins og leiðtogar í skipulegri glæpastarfsemi. Réttindi minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín eru skert á kostnað þeirra sem hvort sem er hafa meira en nóg (nei, ég er samt ekki „sósíalisti“).

En, hvað er þá jákvætt?

Jú, almennt séð, og svona í stóru samhengi, er ég ekki á því að stórveldi sem ráða miklu af heiminum séu af hinu góða – sérstaklega ekki þau sem hunsa mannréttindi. Sagan kennir okkur líka að – sem betur fer – endast þau sjaldan. Sagan sýnir líka að þau falla gjarnan innanfrá, ákveðin „úrkynjun“ (kann ekki betra orð fyrir stóran hluta þeirra sem komu forsetanum til valda), samfara sorglegri blöndu af dómgreindarskorti, sjálfsupphafningu og mannfyrirlitningu.

Í þessu tilfelli verður það þeim væntanlega að falli að kjósa sér getulausan ræfil til forystu og það að missa sig í persónudýrkun og það að missa sjónar á þeim grunngildum sem þetta þjóðfélag lagði upp með.

Er það kannski ekkert sérstaklega neikvætt? Svona til lengri tíma litið…

Það eru nefnilega nokkuð margar vísbendingar um yfirvofandi hrun. Auðvitað eru sumir mælikvarðar jákvæðir, margir reyndar vegna aðgerða fyrri forseta [enda gerast svona breytingar ekki á einni nóttu] og tefja fyrir niðurrifinu á meðan aðrir ættu að hringja öllum viðvörunarbjöllum „í húsinu“. Sennilega gerist þetta ekki nægilega hratt fyrir næstu kosningar [enda gerist svona ekki á einni nóttu] en það breytir kannski ekki öllu.

Fyrir utan sterkar vísbendingar um að það stefni í efnahagslegt hrun eru auðvitað fleiri tákn á loft sem minna harkalega á fall fyrri stórvelda sögunnar, samanburðinn við fall rómverska heimsveldisins er bæði nærtækur og ótrúlega margt sem rímar saman.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru í rauninni bara tveir kostir í stöðunni – að snúa við blaðinu eða falla. Ég get í sjálfu sér sætt mig við báða – enda þarf ég ekki að búa þarna.

Mér sýnast strax komin merki um að einhver íslensku stjórnmálaflokkanna ætli sér að læra af árangri nýlega kjörins forseta og nýskipaðs forsætisráðherra sem beittu óhefðbundnum aðferðum við að ná kjöri.

Flestir fjölmiðlar birta reglulega fréttir um að einhver tilvonandi frambjóðandinn hafi lýst yfir umdeilanlegri skoðun. Oftar en ekki er þetta einhver dómsdags þvættingur, stangast á við staðreyndir, spilar á tilfinningar, jafnvel ótta, gerir lítið úr ákveðnum hópum – þjóðrembingur og kynþáttafordómar eru heldur ekki fjarri.

Ef þessu er ekki svarað gera margir ráð fyrir að það sé nú eitthvað til í því sem viðkomandi er að halda fram.

Ef svarað er með því að setja athugasemdir við fréttirnar á vefmiðlum og/eða þeim dreift með athugasemdum og tenglum – þá er vakin athygli á viðkomandi og tilgangnum að einhverju leyti náð.

Ég kann engar töfralausnir, en (og vonandi tekst mér að halda mig við)

  • ég ætla ekki að smella á fréttir á vefsíðum með dómsdags þvættingi
  • ég set ekki inn athugasemdir við hvers kyns rugl á vefmiðlun
  • ég afþakka prentmiðla sem dreifa þvælu og rangfærslum
  • ég slekk á útvarpi eða sjónvarpi þegar fréttamenn hleypa fólki sem bullar gagnrýnislaust í viðtöl
  • ég loka á Facebook vini sem dreifa rangfærslum, skætingi og glórulausum fullyrðingum [af-vina sjaldnast, læt nægja að hætta að fá færslur]
  • ég hendi tölvupóstum sem ég fæ með greinum með botnlausu og samhengislausu rugli

Ég svara hins vegar öðru hverju mestu þvælunni, en á mínum forsendum – í bloggfærslu á minni eigin síðu, á Facebook, með Twitter tísti – en án tilvísunar í viðkomandi bullara eða frétta um bullið.

Mín hegðun breytir kannski ekki miklu. En ef fleiri taka þetta upp þá kannski hætta vefmiðlar að birta sorp, ljósvakamiðlar hætta að veita viðtöl og prentmiðlar hætta að dreifa þvættingnum.

Þessir miðlar lifa jú á því að við lesum og hlustum og horfum.

PS. og svo það sé á hreinu… ég hef ekkert á móti undarlegum skoðunum og / eða öðrum sjónarmiðum – ég er að tala um markvissan áróður sem byggir á rangfærslum, rökleysum, tilfinningaklámi, kynþáttafordómum, fáfræði, þjóðrembu og stangast á við þekktar staðreyndir.

Nú stefnir í að greiðslur ríkissjóðs til kirkjunnar hækki all verulega, eiginlega algjörlega út í bláinn, upp úr þurru og án nokkurrar jarðtengingar (enda finnst kirkjunni það eflaust óþarft) – ja, nema við teljum með gegndarlausan áróður frá almennatengslavél kirkjunnar.

Það virðist gjarnan gleymast hvernig þetta kom til. Samkvæmt því sem kirkjan heldur fram afhenti hún ríkinu einhverjar óskilgreindar eignir, fékk eignir afhentar 1997 og enn fleiri 2006 (eða þar um bil). Út af fyrir sig er stór undarlegt að ríkissjóður afhendi nokkrum einstaklingum verðmætar eignir án endurgjalds.

Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að kirkjan hafi aldrei átt neinar eignir til að afhenda. Nú skal ég viðurkenna að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og/eða gögn, en miðað við aðgengilegar upplýsingar þá einfaldlega gengur þetta ekki upp.

Við siðaskiptin færðust allar eignir kirkjunnar til Danakonungs og við fullveldi/sjálfstæði til íslenska ríkisins. Þessi flutningur eigna virðist staðfestur og það var einn af grundvallarþáttum í mismun á kaþólsku og lúter, kirkjan var ekki sjálfstæð heldur tilheyrði hún ríkinu – (amk. eins og mér var kennt þetta í barnaskóla).

Þjóðkirkjan er enn þann dag í dag ríkisstofnun á fjárlögum, svokölluð A hluta stofnun og ekki betur séð en að hún hafi verið þannig frá siðaskiptum. Þá má benda á (aftur) að lengst af var ekki trúfrelsi og því áttu allir íslendingar sinn hlut í kirkjunni og hennar eignum.

Aftur skal ég játa að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og gögn.

En sönnunarbyrðin er hjá kirkjunni. Telji kirkjan sig hafa átt einhverjar eignir til að afhenda þarf hún að sýna skjalfest fram á að hún hafi verið sjálfstæður lögaðili og gefa yfirlit yfir nákvæmlega hvaða eignir þetta voru og hvernig hún eignaðist þær.

Það þarf líka að gera kröfu um að kirkjan hafi ekki eignast neitt með vafasömum viðskiptaháttum, svo sem að lofa einhverju en ekki var staðið við, það myndi jú væntanlega gera viðskiptin ólögmæt.