Samfélagsmiðlar, aðgangur

Posted: janúar 9, 2021 in Samfélag, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það hafa verið nokkrar umræður um hvort samfélagsmiðlar hafi gert rétt í að loka aðgangi einstaklinga sem hafa neitað að fylgja reglum.

Ég er ekki nokkrum vafa.. einkafyrirtækjum ber engin skylda til að leyfa misyndismönnum að misnota kerfi og vettvang þeirra til að koma hættulegum og viðbjóðslegum skilaboðum á framfæri. Einhverra hluta vegna lítur reyndar út fyrir að þeir vinir mínir á samfélagsmiðlum sem aðhyllast frjálshyggju og frjálsa samkeppni eru hvað ákveðnastir í því að skylda eigi einkafyrirtæki til að

Það er kannski einfaldast að bera saman við að ef ég væri að reka leigu á hljóðkerfum, sjónvarpstöð eða bar. Mér bæri engin skylda til að leigja fólki hljóðkerfi til að breiða út hatursboðskap og koma þannig óorði á mitt fyrirtæki. Væri ég að reka bar og einn fastagesturinn væri stöðugt að stofna til rifrilda og slagsmála þá þætti mér ég í fullum rétti að meina honum aðgang. Og með sjónvarpsstöð, þá bæri mér engin skylda til að hleypa hverjum sem er að með hvaða bull sem er eins lengi og þeim sýnist. Enda gera sjónvarpsstöðvar þetta ekki.

Margir hafa vísað til Voltaire og talið mikils virði að leyfa öllum að segja sína skoðun, hversu ósammála sem við erum viðkomandi.

Þarna kemur tvennt til.

Fyrir það fyrsta, þá er mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum, lygum, rangfærslum og óstaðfestum fullyrðingum hins vegar. Ég hef aldrei skilið hugmynd Voltaires þannig að hann talaði fyrir sannanlegum lygum, ósannindum eða óstaðfestum fullyrðingum. Það er ekki skoðun að fjórir plús fjórir geri ellefu, það er einfaldlega rangt. Og það er ekki skoðun að heiminum sé stjórnað af eðlum frá öðrum sólkerfum, það er fullyrðing út í bláinn.

En jafnvel þar fyrir utan. Ég er einfaldlega ekkert á því að allar skoðanir eigi rétt á sér. Það er gjarnan talað um einhvern heilagan rétt þegar kemur að stjórnmálum, en sama fólki vefst gjarnan tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar ég spyr hvort skoðanir sem styðja fjöldamorð, stríðsglæði, áróður rasista og barnaníð eigi rétt á sér.

Fyrir mér er þetta kýrskýrt, einkafyrirtæki ráða því hvernig kerfi þeirra eru notuð, rangfærslur eru ekki skoðanir og það eiga ekkert allar skoðanir rétt á sér.

Lokað er á athugasemdir.