Vefverslunarsíður

Posted: janúar 4, 2021 in Umræða

Ég hef verið að reyna að vera sem minnst á ferðinni síðustu mánuði, auðvitað gengið mis vel – en eitt af því sem ég hef reynt mikið er að nýta vefsíður söluaðila til að velja vörur og fækka þannig heimsóknum í verslanir.

Og ég verð að játa að ég er oftar en ekki gjörsamlega gáttaður á hversu lélegar upplýsingar og framsetningin er.

Ég fer ekki á vefsíðu til að sjá hversu flinkur vefforritarinn er að setja fljúgandi hluti í andlitið á mér þegar ég er að leita að upplýsingum.

Sjálfsögð atriði eins og símanúmer, tölvupóstfang og heimilisfang eiga að vera augljós á fyrstu síðu.

Ég vil hafa verð og vöruúrval á hreinu, geta flokkað og síað eftir þeim atriðum sem skipta máli, sem geta verið ansi fjölbreytt.

Ég vil geta síað eftir eiginleikum vörunnar, raðað eftir þeim atriðum sem ég kýs og borið saman nokkra valkosti.

Ég hef áhuga á upplýsingum, ekki spjalli, td. hef ég engan sérstakan áhuga á því, þegar ég er til að mynda að velja ofn í eldhúsið, að fá að vita hvort hann sé „stórskemmtilegur“ eða ekki.

Mér finnst óboðlegt að vera vísað á síðu framleiðanda með dönskum texta, þó ég sé nú kannski betur settur með dönsku, amk. lestur, en margir.

Lokað er á athugasemdir.