Sarpur fyrir desember, 2014

Við erum jú rassskellingaþjóð..

Posted: desember 18, 2014 in Trú, Umræða

Heyrðu, þurfum við ekki að senda skólabörn einu sinni á ári í duglega flengingu?

Nei, er það, hvers vegna?

Það er jú söguleg hefð fyrir því að flengja börn. Hér fyrr á síðustu öld var þetta viðtekin venja og hefð.

En eru ekki flestir löngu hættir þessu?

Jú, jú, en við erum jú að fræða börnin um menningu og sögu lands og þjóðar. Þetta var jú ríkur þáttur í uppeldi barna á síðustu öld.

Nægir ekki bara að kennarar segir börnunum frá þessu?

Nei, það er engan veginn það sama og að þau upplifi hlutina sjálf.

Þetta er nú ekki gott fyrir börnin og kemur alls kyns ranghugmyndum í hausinn á þeim.

Ég var nú rassskelltur reglulega þegar ég var yngri og ekki gerði það mér neitt.

Það er nú ekki hægt fullyrða neitt út frá því. En hvað með ef foreldrar barnanna vilja þetta ekki?

Við erum nú ekki að láta einhvern minnihluta kúga okkur í meirihlutanum.

En er þetta ekki jafnvel mannréttindabrot og stangast á við mannréttindasáttmálann?

Nei, sko, ef meirihlutanum finnst eitthvað þá skipta mannréttindi engu máli.

Ég er nú ekki svo viss um það. Og þar fyrir utan held ég að það sé nú mikill minni hluti foreldra sem rassskellir börnin sín.

Hvað veist þú um það? Fólk hefur almennt ekkert haft fyrir því að skrá skoðanir sínar að þessu leiti.

Já, já, ég veit að börnin eru ekki lamin í kirkju – og ég er ekki bera þetta saman við kirkjuferðir, hlífið mér við þannig útúrsnúningum – en mögulega skýrir þetta vond rök.

Ímyndað samtal, tóm ímyndun?

Posted: desember 17, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Ég hef auðvitað ekkert fyrir mér en það hvarflar að mér að samtal á þessum nótum hafi átt sér stað fyrir nokkrum árum..

– Hvað getum við eiginlega gert í þessu? Krakkarnir eru hætt að koma í kirkju, glápa bara á sjónvarpið á sunnudagsmorgnum, og ekki eru foreldrarnir að fara að mæta?

Úff, ég veit ekki, þetta er orðið rosalega erfitt. Getum við komist inn í barnatímana á sjónvarpsstöðvunum?

– Ég reyndi, en það vildi enginn hlusta á mig á dagskrárdeildinni, þeim fannst þetta ekki vera sitt hlutverk. Og héldu að áhorfið myndi minnka.

Já, hvar getum við eiginlega náð til barnanna?

– Hvað með skólana?

Ja, mér hafði nú dottið það í hug, en er það ekki full gróft?

– Getum við ekki kallað þetta starfskynningu? Eða, enn betra, vettvangsferð?

Jú, en við græðum nú lítið á því, við komum engum boðskap að þannig.

– Nei, nei, við byrjum bara þar. Svo bjóðum við hugvekju frá prestinum. Svo getum við bætt bænum við.

Já! Auðvitað. En verður fólk ekki órólegt? Nú eru börn í skólunum sem koma frá fjölskyldum sem eru trúlaus eða annarrar trúar.

– Við segjum bara að við séum að kynna þeim íslenska menningu.

Jú, það myndi ganga ef við erum bara að sýna þeim kirkjuna, en það gæti orðið erfitt þegar bænir og hugvekjur eru þáttur í þessu.

– Við byrjum auðvitað bara á heimsóknum. Þá segir enginn neitt. Svo þegar við bætum hugvekjunni og bænunum þá verður þetta orðin hefð.

En getum við beðið svo lengi?

– Hver er að tala um að bíða? Við gerum þetta í nokkur ár, svo köllum við þetta gamla og góða hefð, sem ekki má leggjast af.

Já, en það er nú ekki erfitt fyrir fólk að komast að því að þetta er nýbyrjað.

– Hver hefur áhuga á staðreyndum? Við þyrlum bara upp nógu miklu ryki, stöglumst á að þetta sé gömul hefð,
hvað heldurðu að margir nenni að tékka á þessu? Og ef einhver fer að amast við þessu þá skömmum við þá fyrir að vilja banna fólki að halda jólin, segjum að þeir vilji ekki að börnin fái fræðslu, að það megi ekki nefna Jesú á nafn lengur. Við höfum nógu marga fjölmiðla og stjórnmálamenn á okkar bandi.Köllum þá sem gera athugasemdir bara fýlupúka sem ekki vilji halda jól!

Það er nú reyndar ekki satt, flestir halda jú jól.

Hvað kemur það málinu við? Og… segjum lika að það sé bara hávær minnihluti sem vill kúga okkur í meirihlutanum.

Er það ekki varasamt? Það styttist jú í að við verðum í minnihluta.

Já, ef við gerum ekkert í málinu. Hömrum líka á að við séum kristin þjóð.

Við erum nú ekkert sérstaklega kristin.

Jú, ef við höldum áfram að segja fólki að við séum kristin þjóð, þá verðum við það á endanum.

Æi, er þetta nú heiðarlegt??

– Bíddu, ætlar þú að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan börnin alast upp í sinnuleysi gagnvart trúnni?

En hafa foreldrarnir nokkurn áhuga á þessu? Það er ekki eins og þeir séu að mæta í kirkju?

– Þetta er bara börnunum fyrir bestu. Og okkur.

Já, ætli það ekki…

Kannski er þetta tóm ímyndun í mér, en er von að manni detti þetta í hug?

Að taka það sem fyrirlitið er sér til fyrirmyndar

Posted: desember 16, 2014 in Trú
Efnisorð:

Það kom fram nokkuð hávær hópur fyrr á árinu sem fann múslimum allt til foráttu og taldi sig vera að verja einhver kristin gildi Íslendinga, hver svo sem þau eru nú annars.

Ég er reyndar alveg sammála þessum hóp að einu leyti, við eigum að sporna við öfgum og mannfyrirlitningu í nafni trúar, hver svo sem trúin er.. og það er jú, vissulega rétt að margir múslimar hafa gengið fram með miklu hatri í nafni trúarinnar.

Ég svo ósammála þeim að því leytinu til að mér dettur ekki í hug að yfirfæra hegðun nokkurra yfir á allan hópinn, þess vegna mega hófsamir múslimar (eins og aðrir) hafa sína trú í friði, bara á meðan þeir láta mig í friði.

Nú ber svo við að nokkurn veginn nákvæmlega sami hópur er að missa sig yfir því að gerðar séu athugasemdir við það að kirkjan fór nýlega að sækja í skólabörn á skólatíma. Nei, þetta er ekki gömul hefð, þetta er til þess að gera nýbyrjað.

Það er nefnilega skondið og um leið grátlegt að hugsa til þess að þessi ásókn kirkju og trúarhópa er (segjum nánast) hvergi samþykkt nema í þeim löndum þar sem öfgatrúarmenn hafa völdin. Og í nokkrum (mörgum?) sveitarfélögum á Íslandi. Og einhverjir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa kveðið sér hljóðs og telja þetta í góðu lagi.

Mér hefur ekki alveg tekist að halda mig utan við árlega umræðu.. hún fer reyndar talsvert illa í taugarnar á mér.

Ekki það að ég hafi ekki áhuga á málefnalegri umræðu. En þar stendur hnífurinn í kúnni, hún er ekki málefnaleg.

Það sem einkennir umræðuna þessa dagana er að fólk er að skamma mig fyrir að hafa skoðanir sem ég hef ekki. Og það er tilgangslaust að biðja um dæmi þess að ég hafi einhverju sinni viðrað tilgreinda skoðun. Þá tekur bara við fordómar.. aftur án nokkurs rökstuðningar (auðvitað, annars væru þetta ekki fordómar).

En hvernig á að rökræða við fólk sem heldur því fram að þú hafir aðra skoðun en þú hefur og neitar að taka gott og gilt þegar þú reynir að koma leiðréttingu á framfæri?

Það er auðvitað ekki hægt.

Það eina sem hægt er að gera er að sætta sig við að á meðan ekki eru rök gegn mínum raunverulegu skoðunum þá halda þær vatni.

Leti kristna minnihlutans?

Posted: desember 11, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Það er að verða árlegur viðburður að talsmenn kristni rísi upp og barmi sér yfir að mega ekki vaða með trúboð inn í menntastofnanir landsins.

Talað er um að börnum sé bannað hitt og þetta og að verið sé að hafa eitt og annað af þeim.

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þennan málflutning.

Ef fólk hefur svona mikinn áhuga á að börnin upplifi einhverja sérstaka kristna jólastemmingu, er þá ekki einfaldasta mál í heimi fyrir fjölskylduna að sjá um þetta? Þetta má gera á heimilinu. Foreldrarnir geta sem best farið með þau í kirkju ef þeim sýnist svo. Jafnvel getur kirkjan hæglega boðið upp á sérstakar stundir fyrir fjölskyldur og/eða börn á aðventunni. Það þarf ekkert að troða þessu inn í menntastofnanir ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi.

Þetta virkar einfaldlega á mig eins og tóm leti. Fólk nenni einfaldlega ekki að sinna þessu sjálft, en finnist þægilegt að velta yfir á aðra til að geta nú þóst vera kristið.

Sagði ég „minnihlutans“? Já, kannski eru nú ekki öruggar heimildir fyrir því, amk. ekki í augnablikinu. En til þess að gera mjög fáir hafa skráð sig sjálfviljugir í þjóðkirkjuna, könnun frá 2004 bendir til að minni hluti Íslendinga sé kristinn og trúleysi hefur aukist mjög í nágrannaríkjunum á síðasta áratug og ekkert sem bendir til annars en að svipuð þróun sé hér á landi. En, gott og vel – við vitum ekki fyrir víst hvort um meirihluta eða minnihluta er að ræða eins og er. En rök margra kristinna er að hávær minnihluti sé að kúga meirihlutann. Meirihluti / minnihluti eru auðvitað afspyrnu vond rök þegar kemur að mannréttindum. Ef kristnir eru ekki þegar í minni hluta þá styttiast að minnsta kosti hratt og örugglega í það. Hver verða rökin þá?.