Leti kristna minnihlutans?

Posted: desember 11, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Það er að verða árlegur viðburður að talsmenn kristni rísi upp og barmi sér yfir að mega ekki vaða með trúboð inn í menntastofnanir landsins.

Talað er um að börnum sé bannað hitt og þetta og að verið sé að hafa eitt og annað af þeim.

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þennan málflutning.

Ef fólk hefur svona mikinn áhuga á að börnin upplifi einhverja sérstaka kristna jólastemmingu, er þá ekki einfaldasta mál í heimi fyrir fjölskylduna að sjá um þetta? Þetta má gera á heimilinu. Foreldrarnir geta sem best farið með þau í kirkju ef þeim sýnist svo. Jafnvel getur kirkjan hæglega boðið upp á sérstakar stundir fyrir fjölskyldur og/eða börn á aðventunni. Það þarf ekkert að troða þessu inn í menntastofnanir ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi.

Þetta virkar einfaldlega á mig eins og tóm leti. Fólk nenni einfaldlega ekki að sinna þessu sjálft, en finnist þægilegt að velta yfir á aðra til að geta nú þóst vera kristið.

Sagði ég „minnihlutans“? Já, kannski eru nú ekki öruggar heimildir fyrir því, amk. ekki í augnablikinu. En til þess að gera mjög fáir hafa skráð sig sjálfviljugir í þjóðkirkjuna, könnun frá 2004 bendir til að minni hluti Íslendinga sé kristinn og trúleysi hefur aukist mjög í nágrannaríkjunum á síðasta áratug og ekkert sem bendir til annars en að svipuð þróun sé hér á landi. En, gott og vel – við vitum ekki fyrir víst hvort um meirihluta eða minnihluta er að ræða eins og er. En rök margra kristinna er að hávær minnihluti sé að kúga meirihlutann. Meirihluti / minnihluti eru auðvitað afspyrnu vond rök þegar kemur að mannréttindum. Ef kristnir eru ekki þegar í minni hluta þá styttiast að minnsta kosti hratt og örugglega í það. Hver verða rökin þá?.

Lokað er á athugasemdir.