Posts Tagged ‘jól’

Hátíðarkveðjur úr Kaldaseli

Posted: desember 23, 2016 in Fjölskylda, Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Það er víst altalað að árið 2016 fari í sögubækurnar sem ömurlegt ár.. og vissulega er margt til í því.

En við getum ekki kvartað mikið hér í Kaldaselinu, árið hefur eiginlega verið nokkuð jákvætt og ég get ekki sagt að við höfum yfir miklu að kvarta.

Við Iðunn höfum náð ansi mörgum góðum kvöldum (og dögum) með góðum vinum, ættingjum, kunningjum og ókunnugu fólki. Mér taldist lauslega til að 92 daga hafi eitthvað sérstakt verið í gangi hjá okkur. Og svo áttum við ótal kvöld í góðu tómi saman í rólegheitunum.

Ferðirnar út fyrir landsteinana voru nokkuð vel heppnaðar. Við fórum til London í byrjun mars, hittum Viktor, fórum á bjórhátíð, sáum Stiff Little Fingers á hljómleikum og hittum á nokkuð góða veitingastaði.

london-mars-chinatown

Iðunn fór í fimmtugsafmælisferð með Sérsveitinni til Amsterdam í apríl – ég kíkti til Kaupmannahafnar og heimsótti Barða sömu helgi.

Stóra ferðin 2016 var svo til Frakklands á EM, að mestu með Viktori og Alla – og í rauninni hátt í tuttugu manns sem við tengdumst lauslega – og enn fleiri sem við hittum af tilviljun.

euro-2016

 

idunn-neglurÉg fór til Amsterdam í september á IBC sýninguna og Iðunn til Parísar í vinkvenna heimsókn til Sóleyjar.

Svo kíktum við til Manchester í lok nóvember með Alla og Matta í svona nokkurs konar jólaferð.

manchester-jolamarkadur-2

Einifellshelgarnar urðu þrjár, alltaf jafn vel heppnaðar, gamli potturinn rifinn eina helgina, sá nýi vígður seinna og lax reyktur í þeirri síðustu. Petanque, matseld, bjór, vín og eðal kræsingar einkenna þessar helgar.

Sambindið fór saman í helgarferð í febrúar og hittist nokkrum sinnum þar fyrir utan.

Postularnir (fótboltahópurinn minn) héldu upp á veturinn í boði Arnars (og Unnar) í helgarferð við Reykholt.

Goutons Voir matar-félagsskapurinn hittist þar fyrir utan og ónefndi matarklúbburinn sem tengist Rúv (Rúv-Tops) náði að hittast óvenju oft.

Auðvitað hittust fjölskyldurnar reglulega og kannski var eftirminnilegast þetta árið að hitta ættingja frá Kanada, og það í tvígang.

Og ekki má gleyma reglulegum póker / bjór kvöldum í Kaldaselinu.

Okkur leiðist sem sagt ekkert að elda og borða góðan mat, drekka eðal vín og góðan bjór.. en kannski aðallega hitta skemmtilegt fólk.

Iðunn hélt upp á afmælið sitt hér heima í Kaldaseli, best heppnaða partý ársins og þó lengra sé leitað. Í framhaldinu var dæmt á Iðunni að fara í fallhlífarstökk og í bústað með Brynju og Óskari.

fallhlif-238

Við Fræbbblar spiluðum ekki mikið, en fyrir utan nokkur einkasamkvæmi er sennilega eftirminnilegast að mæta á Bifröst í byrjun ársins, halda nokkurs konar útgáfuhljómleika á Rosenberg, spila á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar og taka þátt í fullveldispönkhátíð á Hard Rock Cafe í byrjun desember.

Ég er enn hjá Staka, sem færði sig yfir til Deloitte í haust, þessu fylgja talsverðar breytingar og spennandi tímar framundan.

arshatid

Iðunn er enn hjá BUGL, en hefur misst mikið úr vegna myglusveppa á vinnustaðnum.

Andrés vinnur í þjónustuveri Símans og hefur verið virkur í starfi Pírata og var kosinn formaður félagsins í Reykjavík í haust.

Guðjón sinnti tónlistinni framan af ári og spilaði meðal annars á Secret Solstice. Seinni hluta ársins tók hann við rekstri spilastaðar og náði fljótlega að snúa rekstri staðarins við.

Viktor sinnti námi og rannsóknum fyrri hluta ársins, en kom heim í sumar, tók þátt í prófkjöri Pírata og kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar. Hann náði ekki kjöri, þó ekki munaði miklu, en var svo kallaður inn á þing fyrir jól – því miður við erfiðar aðstæður – en situr nú á þingi næstu vikurnar.

Annars eru ítarlegri frásagnir auðvitað í dagbók

Ímyndað samtal, tóm ímyndun?

Posted: desember 17, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Ég hef auðvitað ekkert fyrir mér en það hvarflar að mér að samtal á þessum nótum hafi átt sér stað fyrir nokkrum árum..

– Hvað getum við eiginlega gert í þessu? Krakkarnir eru hætt að koma í kirkju, glápa bara á sjónvarpið á sunnudagsmorgnum, og ekki eru foreldrarnir að fara að mæta?

Úff, ég veit ekki, þetta er orðið rosalega erfitt. Getum við komist inn í barnatímana á sjónvarpsstöðvunum?

– Ég reyndi, en það vildi enginn hlusta á mig á dagskrárdeildinni, þeim fannst þetta ekki vera sitt hlutverk. Og héldu að áhorfið myndi minnka.

Já, hvar getum við eiginlega náð til barnanna?

– Hvað með skólana?

Ja, mér hafði nú dottið það í hug, en er það ekki full gróft?

– Getum við ekki kallað þetta starfskynningu? Eða, enn betra, vettvangsferð?

Jú, en við græðum nú lítið á því, við komum engum boðskap að þannig.

– Nei, nei, við byrjum bara þar. Svo bjóðum við hugvekju frá prestinum. Svo getum við bætt bænum við.

Já! Auðvitað. En verður fólk ekki órólegt? Nú eru börn í skólunum sem koma frá fjölskyldum sem eru trúlaus eða annarrar trúar.

– Við segjum bara að við séum að kynna þeim íslenska menningu.

Jú, það myndi ganga ef við erum bara að sýna þeim kirkjuna, en það gæti orðið erfitt þegar bænir og hugvekjur eru þáttur í þessu.

– Við byrjum auðvitað bara á heimsóknum. Þá segir enginn neitt. Svo þegar við bætum hugvekjunni og bænunum þá verður þetta orðin hefð.

En getum við beðið svo lengi?

– Hver er að tala um að bíða? Við gerum þetta í nokkur ár, svo köllum við þetta gamla og góða hefð, sem ekki má leggjast af.

Já, en það er nú ekki erfitt fyrir fólk að komast að því að þetta er nýbyrjað.

– Hver hefur áhuga á staðreyndum? Við þyrlum bara upp nógu miklu ryki, stöglumst á að þetta sé gömul hefð,
hvað heldurðu að margir nenni að tékka á þessu? Og ef einhver fer að amast við þessu þá skömmum við þá fyrir að vilja banna fólki að halda jólin, segjum að þeir vilji ekki að börnin fái fræðslu, að það megi ekki nefna Jesú á nafn lengur. Við höfum nógu marga fjölmiðla og stjórnmálamenn á okkar bandi.Köllum þá sem gera athugasemdir bara fýlupúka sem ekki vilji halda jól!

Það er nú reyndar ekki satt, flestir halda jú jól.

Hvað kemur það málinu við? Og… segjum lika að það sé bara hávær minnihluti sem vill kúga okkur í meirihlutanum.

Er það ekki varasamt? Það styttist jú í að við verðum í minnihluta.

Já, ef við gerum ekkert í málinu. Hömrum líka á að við séum kristin þjóð.

Við erum nú ekkert sérstaklega kristin.

Jú, ef við höldum áfram að segja fólki að við séum kristin þjóð, þá verðum við það á endanum.

Æi, er þetta nú heiðarlegt??

– Bíddu, ætlar þú að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan börnin alast upp í sinnuleysi gagnvart trúnni?

En hafa foreldrarnir nokkurn áhuga á þessu? Það er ekki eins og þeir séu að mæta í kirkju?

– Þetta er bara börnunum fyrir bestu. Og okkur.

Já, ætli það ekki…

Kannski er þetta tóm ímyndun í mér, en er von að manni detti þetta í hug?

Leti kristna minnihlutans?

Posted: desember 11, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Það er að verða árlegur viðburður að talsmenn kristni rísi upp og barmi sér yfir að mega ekki vaða með trúboð inn í menntastofnanir landsins.

Talað er um að börnum sé bannað hitt og þetta og að verið sé að hafa eitt og annað af þeim.

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þennan málflutning.

Ef fólk hefur svona mikinn áhuga á að börnin upplifi einhverja sérstaka kristna jólastemmingu, er þá ekki einfaldasta mál í heimi fyrir fjölskylduna að sjá um þetta? Þetta má gera á heimilinu. Foreldrarnir geta sem best farið með þau í kirkju ef þeim sýnist svo. Jafnvel getur kirkjan hæglega boðið upp á sérstakar stundir fyrir fjölskyldur og/eða börn á aðventunni. Það þarf ekkert að troða þessu inn í menntastofnanir ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi.

Þetta virkar einfaldlega á mig eins og tóm leti. Fólk nenni einfaldlega ekki að sinna þessu sjálft, en finnist þægilegt að velta yfir á aðra til að geta nú þóst vera kristið.

Sagði ég „minnihlutans“? Já, kannski eru nú ekki öruggar heimildir fyrir því, amk. ekki í augnablikinu. En til þess að gera mjög fáir hafa skráð sig sjálfviljugir í þjóðkirkjuna, könnun frá 2004 bendir til að minni hluti Íslendinga sé kristinn og trúleysi hefur aukist mjög í nágrannaríkjunum á síðasta áratug og ekkert sem bendir til annars en að svipuð þróun sé hér á landi. En, gott og vel – við vitum ekki fyrir víst hvort um meirihluta eða minnihluta er að ræða eins og er. En rök margra kristinna er að hávær minnihluti sé að kúga meirihlutann. Meirihluti / minnihluti eru auðvitað afspyrnu vond rök þegar kemur að mannréttindum. Ef kristnir eru ekki þegar í minni hluta þá styttiast að minnsta kosti hratt og örugglega í það. Hver verða rökin þá?.