Sarpur fyrir september, 2012

Breiðablik – Stjarnan

Posted: september 28, 2012 in Fótbolti

Frá 1991 hafa Breiðablik og Stjarnan bæði átt lið átta sinnum í efstu deild karla í fótbolta.

Það hefur ótrúlegt oft fallið þannig að liðin hafa mæst í síðustu umferð og oftar en ekki hefur talsvert verið undir.

1991 var Stjanan reyndar fallin og Breiðablik í þægilegri stöðu. Blikar björguðu sér frá falli í Garðabæ í síðasta leik 1994 en féllu 1996 á sama stað – í síðustu umferð, 3-3 jafntefli, en aðrir leikir spiluðust þannig að úrslitin skiptu ekki máli. Og síðustu umferð á Kópavogsvelli árið 2000 fór 3-3 sem nægði til að bjarga Blikum frá falli – aftur fóru aðrir leikir þannig að þetta skipti ekki máli.

Í fyrra átti Stjarnan möguleika á Evrópusæti en tapaði fyrir Blikum í Kópavoginum.

2010 fóru Blikar í Garðabæinn og náðu að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í erfiðum leik. Ógleymanlegur dagur fyrir Blika.

Og á morgun spila liðin hreinan úrslitaleik um Evrópusæti. Ég mæti að sjálfsögðu og vona að Blikar nái sigri. Það munar miklu að vera í Evrópukeppni og gefur næsta sumri allt annan svip.

Á móti kemur að fari nú ekki vel þá er þá get ég vel unnt Stjörnunni að ná þessum áfanga.

PS. Ekki leiðinlegt að vinna. Evrópusæti á næsta ári gerir heilmikið fyrir næsta sumar.  Og ekki spillir að hafa náð öðru sætinu. Undarlegt að sjá til Stjörnunnar, sem hafa spilað vel það sem ég hef séð í sumar og hugsað um fótboltann.

Ég hef aldrei haft vit á að forðast það að hætta mér út á hálan ís – og fer ekki að taka upp á því núna.

Ég hef fylgst með umfjöllun um tölvukerfi Fjársýslu ríkisins. Ég þekkti aðeins til á sínum tíma, en hef óneitanlega lítið fylgst með síðustu árin. Þá þekki ég suma þeirra einstaklinga sem hafið komið að verkefninu – frá ýmsum hliðum.

Og áður en lengra er haldið:

  • Ég er ekki að verja þetta verkefni í heild. Alls ekki.
  • Ég er ekki að skrifa þetta af greiðasemi við einhvern.
  • Það er alveg á hreinu að það má (á) að fjalla um svona mál opinberlega.
  • Ég get ekki með nokkru móti skilið þann drátt sem orðið hefur á skýrslu Ríkisendurskoðunar, án þess að hafa hugmynd um hvað veldur.
  • Mér finnast viðbrögðin við því að skýrslunni hafi verið „lekið“ fráleit.

En ég fer gjarnan í baklás þegar umræðan verður of einsleit – og þarf einhvern veginn oft að vera ósammála öllu og öllum.

Nokkur atriði finnast mér að minnsta kosti ósanngjörn eða ruglingsleg í þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið. Og það er lykilatriði að svona umræða sé málefnaleg og markviss.

Það sem truflar mig er:

  • Upphaflega fjárhæð í fjárlögum (sem líklega var ranglega kynnt fyrir þinginu) er notuð til viðmiðunar í stað fjárhæðar tilboðanna.
  • Fjárhæðin til að kaupa kerfið er notuð til að bera saman við kaup, breytingar og rekstur á ellefu árum.
  • Gefið er í skyn að fyrrum forstjóri Skýrr hafi hyglað fyrirtækinu við val á kerfi. Þetta er auðvitað fráleitt, nýir eigendur settu viðkomandi af sem forstjóra og hann hætti fljótlega hjá fyrirtækinu. Er líklegt að hann myndi hygla fyrirtækinu? Var kannað hvaða afstöðu viðkomandi hafði til kerfanna? Eða var betra (auðveldara) að ýja að einhverju óeðlilegu án þess að kanna staðreyndir?
  • Álit starfsmanna Ríkisendurskoðunar að annar valkostur hafi verið betri er tekinn sem einhvers konar stóri dómur í mati á kerfunum. Nú hef ég engar forsendur til að meta hvort (hvert) kerfið hentaði betur (best) en ég veit að þetta er mjög flókið verkefni og eiginlega fráleitt að gefa sér að til sé eitt rétt og afdráttarlaust svar.
  • Litið er á ákvarðanir um aðgangsstýringar sem áfellisdóm yfir kerfinu og getu þess.
  • Sama gildir um verklagsreglur við notkun kerfisins.
  • Ég veit ekki hversu vel kröfur til kerfisins voru skilgreindar eða hvernig þær hafa breyst á þeim tólf árum sem liðin eru. Gjarnan breytast kröfur til svona kerfa á styttri tíma, bæði vegna þess að starfsemi breytist, umhverfið breytist og sama gildir um mögulega tækni.
  • Þá hafa verið nefnd dæmi um villur, hvort þær voru ein eða fjórar er ekki aðalatriði… en ég þekki hugbúnaðargerð ágætlega og ég hef ekki enn séð fullkomlega villufrían hugbúnað af þessari stærðargráðu.
  • Undirskrift verklokasamnings eru talin til mistaka vegna þess að ekki var búið að afhenda alla hluti. En það gleymist að lykilþættir voru komnir í rekstur og varla óeðlilegt að þeir séu afgreiddir þannig, ma. til að fá uppfærslur.
  • Fjölskyldutengsl manns manns sem vann hjá Skýrr árum áður en bróðir hans tók við stöðu Ríkisendurskoðanda, löngu eftir kaupin, eru gerð tortryggileg.
  • Pistlar sem leggja viðskiptin að jöfnu við starfsemi Mafíunnar á Ítalíu.

Það má vel vera að margt hafa farið illa úrskeiðis í þessari innleiðingu. Það er allt eins líklegt að kerfið hafi verið of dýrt og sé ekki nógu gott. Þetta þekki ég ekki. Og það er sjálfsagt að ræða málið og fjalla um það opinberlega.

En mig langar sem sagt að biðja um betri umræðu. Eins og svo oft áður.

Ég er alltaf jafn gáttaður á fréttamatinu hjá okkar annars ágætu fréttastofum þegar rokið er upp til handa og fóta og sagt frá því í löngu máli að einhver hafi keypt sér nýjan síma – samanber „fréttir“ Stöðvar2 í gær. Eða að komin né ný útgáfa af einhverri græju.

Ég veit að þeir eplamenn eru frábærir sölu/markaðsmenn og ná að kveikja í fjölmiðlum í hvert skipti sem þeir senda frá sér uppfærslu á einhverri vörunni.

En fjandinn hafi það.. er það frétt að einhver kona hafi ákveðið að kaupa sér nýja útgáfu af símtæki? Og það fimm mínútur á besta tíma.

Ég hringi kannski í fréttastofuna fyrir helgi, ég er að hugsa um að skipta um dyrabjöllu…

Að blekkja í umræðu um þjóðkirkju

Posted: september 23, 2012 in Umræða

Mér hefur aldrei þótt það bera vitni um góðan málstað þegar fólk fer vísvitandi með rangfærslur og blekkingar þegar reynt er að halda málefnalegri umræðu uppi.

Stuðningsmenn þess að halda ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni hafa nýlega gert sig seka um óboðlega útúrsnúninga og rangfærslur.

Í umræðunni um ákvæðið hafa komið fram fullyrðingar (eða gefið í skyn) að það að fella ákvæði um þjóðkirkju úr stjórnarskrá þýði að

  • ekki verði lengur haldin jól eða aðrir frídagar
  • ekki verði hægt að jarða þá sem látast
  • breyta verði þjóðfánanum
  • þjóðsöngurinn verði úreltur

Einfaldasta skýringin er auðvitað að benda á nokkrar nágrannaþjóðir sem án þjóðkirkju tekst að sjá um útfarir, halda frídaga (sem flestir eiga rætur löngu fyrir daga kristninnar), eru með fána með trúartákni og búa við hégómlega og hallærislega þjóðsöngva.

Ég veit amk. ekki til að frídagar hafi verið afnumdir, lík hrannist upp ójörðuð eða rokið hafi verið til við að breyta fánum eða þjóðsöng í nágrannaríkjum okkar þó ríki og kirkja hafi verið aðskilin.

Fyrir utan nú það – eins og Friðrk Þór Guðmundsson bendir réttilega á – þá hefur ríkiskirkjan engan einkarétt á þessum trúartáknum.

Ég trúi því ekki að viðkomandi einstaklingar viti ekki betur. Og þetta eru hreinar og klárar rangfærslur. Þá er ekkert eftir nema vísvitandi blekkingaleikur. Og hann bendir ekki til að viðkomandi hafi góðan málstað.

Eiga stuðningsmenn þjóðkirkjunnar ekki betri talsmenn? Einhverja sem hægt er að ræða málefnalega við og af einhverju viti.

.. hafa verið talsvert í umræðunni síðustu daga, aðallega vegna mikillar og gagnrýnislausrar umfjöllunar um rannsókn sem í fljótu bragði virtist benda til að erfðabreytt matvæli myndu auka líkurnar á krabbameini í rottum.

Ég verð að fá að benda á greinar Ernu Magnúsdóttur http://www.vantru.is/2012/09/21/13.00/ og http://apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/1258761/ Arnars Pálssonar um rannsóknina.

Fjölmiðlar virðast taka þessari rannsókn eins og heilögum sannleik. En það er klárlega ansi margt bogið, eða að minnsta kosti varhugavert, við framkvæmdina. Aðeins tíu rottur voru notaðar til samanburðar, nokkuð sem aldrei getur gefið tölfræðilega vissu. Og ekki nóg með það, hluti þeirra fékk líka krabbamein. Þá virðist sem rannsóknin hafi grautað saman erfðabreyttum matvælum og RoundUp skordýraeitri.

Ég get auðvitað ekki fullyrt af eða á um skaðsemi erfðabreyttra matvæla. En tvennt fer aðeins í skapið á betri-umræðu-grundvöll áhuganum mínum.

Fyrir það fyrsta þá virðist gert ráð fyrir að allar erfðabreytingar á matvælum lúti sömu lögmálum. Svona hundalógík eins og að ef hægt er að blanda eitri í drykk þá hljóti allir blandaðir drykkir að vera eitraðir.

Í öðru lagi virðist i gert ráð fyrir að áhrif séu þau sömu á rottur og á menn.

Í þriðja lagi þá er tölfræðin engan vegin marktæk fyrir svona lítinn viðmiðunarhóp.

Í fjórða lagi þá gleymist að megnið af matvælum sem við neytum í dag eru erfðabreytt, líka þau „lífrænt ræktuðu“.

Í fimmta lagi þá er gert ráð fyrir að allir sem spyrja erfiðra spurninga séu launaðir útsendarar Monsanto.

Í sjötta lagi þá virðist umræðan, bæði hér á landi og annars staðar – stýrast af fáfræði og því sem kallað var „kerlingarbækur“ (með fullri virðingu fyrir kerlingum) þegar ég var ekki eins hundgamall og ég er í dag…

OK, ég hef sex athugasemdir, ekki bara tvær.

Einhvern veginn upplifi ég þessa gagnrýni meira sem tískubylgju en alvöru gagnrýni.

Ný tónlist

Posted: september 20, 2012 in Tónlist
Efnisorð:, , , ,

Það er heldur betur að detta inn ný tónlist þessa dagana, eftir frekar rólega mánuði… mig minnir að Hellvar platan, „Stop That Noise“, sé sú næsta á undan sem ég hlustaði á, svona að minnsta kosti eitthvað að ráði.

Ojba Rasta platan kom í síðustu viku. Frábær plata frá einni mest spennandi hljómsveit landsins. Sterkustu lögin voru reyndar komin út og svo sakna ég að minnsta kosti eins lags frá hljómleikum. En í heildina flott plata. Ég man ekki eftir eins vel heppnaðri íslenskri Reggae hljómsveit, það er eitthvað „ekta“ við Ojba Rasta. Sum lögin eru reyndar nær því að vera Ska en Reggae, en það er fyrir það fyrsta ekkert verra, fyrir utan að auðvitað skipta svona stimplar ekki nokkru máli.

Ég keypti svo nýja EP plötu Pollock bræðra í gær – og kom satt að segja nokkuð á óvart. Ég þóttist reyndar vita að þetta yrði ekki í anda Bodies, en þetta er óneitanlega „lengra“ út í kántrí / blús en ég átti von á – og gera bara helv.. vel. Að minnsta kosti stend ég mig að því að hlusta á hana aftur og aftur í óvenju mörgum bílferðum í dag.

Dizzy Ninjas eru svo með „Hefur þig langað“ í spilun, sérstakt og heillandi lag sem ég er nokkuð viss um að á eftir að heyrast vel í haust / vetur.

Ég er ekki almennilega kominn í gegnum nýju Vaccines plötuna, „Come Of Age“. „What Did You Expect..“ er sú plata frá síðasta ári sem ég hlustaði hvað mest á og hlakkaði til að heyra nýtt efni. Ég stóð mig kannski mest að því að hlusta á viðbótarefnið, gömlu lögin á hljómleikum. En mér leist satt að segja ekkert sérstaklega á gripinn í fyrstu, fannst hún minna mig á Strokes (sem er ekki jákvætt) en hún vinnur talsvert á við að renna oftar í gegn.

Og svo er ég að bíða eftir nýju Green Day plötunni, þó fyrsta lagið lofi nú ekki góðu. Eiginlega langt frá því.

Og jú, ég þekki auðvitað vel til margra þessara hljómsveita.. sonurinn er í Dizzy Ninjas, við Pollock bræður eru góðir og gamlir félagar frá upphafsárum okkar Fræbbbla og nýlega höfum við átt gott samstarf við Ojba Rasta… fyrir utan að þekkja suma meðlimina utan þeirrar dagskrár.

Að „pönkast“ í einhverjum…

Posted: september 19, 2012 in Spjall
Efnisorð:,

Ég er alltaf jafn áttavilltur þegar ég heyri fólk tala um að „pönkast“ í einhverjum. Fyrir mér væri þetta spila skemmtilega rokktónlist fyrir viðkomand. Sem er auðvitað mjög jákvætt.

En einhverra hluta vegna virðist þetta vera farið að hafa merkinguna að ónáða einhvern stöðugt og gera honum lífið leitt.

Kannski er þetta komið frá einhverjum sem hefur misheyrt að „bögga“ einhvern.

Fyrir rúmri viku setti ég inn færslu um þráhyggjuna við að halda því til streitu að árásirnar 11. september 2001 hefðu verið  einhvers konar samsæri bandarískra stjórnvalda.

Ég gaf svo sem ekkert út á hvað mér finnst, en gerði kröfu um að þeir, sem þykjast hafa sannanir fyrir því að þarna hafi verið samsæri, kæmu með haldbærar upplýsingar. Ég skal játa að ég gerði nokkuð stífar kröfur, en mér finnst allt í lagi að gera stífar kröfur þegar haldið er fram að eitthvað hafi verið sannað.

Ég átti von á flóði af athugasemdum af hvers kyns tagi… og fullt af fólki sem hefði eitthvað haldbært fram að færa.

En, nei… það kom nákvæmlega ekki neitt. Núll, Ekkert.

Og óneitanlega fyndið í ljósi allra sérfræðinganna sem hafa kynnt sér málið rosalega vel.

PS., jú kannski hafa ekki allir lesið þetta, en miðað við fjölda þeirra sem heimsóttu síðuna hefur þetta varla farið framhjá samsærurum.

Ég viðurkenni að ég er orðinn ansi þreyttur á samsæriskenningunum vegna 11. september 2001.

Kenningarnar um koma úr mörgum áttum, taka stöðugum breytingum, eru skelfilega ruglingslegar, ganga út á kjaftasögur og hálfkveðnar vísur – og svo oftar en ekki mótsagnakenndar í öllum þvælingnum fram og til baka.

Það má vel vera að það megi spyrja spurninga um einstök atriði um 11. september. Og það má vel vera að það sé ástæða til að rannsaka einhverja þætti betur. Það er í góðu lagi. Um að gera. Það getur líka meira en verið að þetta hafi allt verið allsherjar samsæri. Ég hef ekki hugmynd um það.

En því sem dælt hefur verið samhengislaust á vefinn því til „sönnunar“ að um samsæri hafi verið að ræða stenst ekki skoðun. Sérstaklega ekki þau „dramatíseruðu“ YouTube myndbönd, þar sem hljóðeffektar, klippingar og alvarlegur þulur reyna að breiða yfir að innihaldið er nákvæmlega ekki neitt. Sama gildir um allt of margar þeirra „heimildarmynda“ sem í boði eru. Og það sama gildir líka um hálfkveðnar vísur um að óskyldir atburðir „sanni“, meintar spádómsgáfur eða ólíklegir atburðir hafi eitthvert sönnunargildi.

Þannig að ef þið efist um opinberu skýringarnar, hvort sem þið dragið einstök smáatriði í efa eða haldið að mikið vanti upp á.. þá er það í góðu lagi mín vegna. En ég er orðinn þreyttur á þessum endalausu fullyrðingum að „sannað“ sé að eitthvert samsæri hafi verið í gangi.

Það er líka í góðu lagi mín vegna að fólk trúi hverju sem er, hversu mikil vitleysa sem mér finnst það annars vera. En þegar þessum samsæriskenningum er haldið að manni árum saman af þráhyggju sem jafnast á við heitasta trúboð þá verður þetta þreytandi. Það bætir ekki úr skák þegar þetta dynur á manni úr öllum áttum. Sérstaklega þegar ég hef mjög takmarkaðan áhuga á málinu og það myndi ekki breyta neinu til eða frá fyrir mig þó ég fengi „sönnun“ í hendurnar. Og svo rjúka fjölmiðlar auðvitað upp til handa og fóta í hvert skipti sem einhver „frægur“ endurtekur bábiljurnar.

Ég hef skoðað óteljandi rök með og á móti. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til tímans sem ég hef sóað í þetta.

Það sem einkennir þá sem telja sannað að um samsæri sé að ræða er

  • gjarnan er gefið í skyn, eða sagt hreint út, að þeir ekki að sömu niðurstöðu og „samsærarar“ eftir að hafa skoðað gögn og kenningar séu heimskir – þekkt rökvilla
  • eins er gert lítið úr þeim með dylgjum um stuðning við fjöldamorð og þess vegna barnamorð – aftur þekkt rökvilla og taktík sem einkennir fátækleg rök
  • þeir sem dirfast að hafa aðra skoðun eru strax spyrtir við Bandaríkjastjórn og sagðir stuðningsmenn hennar – enn ein rökvillan
  • vísað er í sérfræðinga sem hafa ákveðna skoðun en ekki getið sérfræðinga sem eru annarrar skoðunar
  • fullyrt er að eitthvað geti ekki hafa gerst og/eða hafi aldrei gerst áður (sem er reyndar sitt hvor hluturinn) þrátt fyrir að dæmi finnist sem sýni fram á annað – og þrátt fyrir að auðvitað hefur ekkert þessu líkt gerst áður – sem getur auðvitað virkað á hvorn veginn sem er
  • aðeins eru týnd til rök og upplýsingar sem sýna fram á samsæri, mótrök eru hunsuð, sem og mögulegar skýringar
  • hálf sagan er gjarnan sögð og mikilvægum atriðum sleppt, þetta er ýmist gert af ráðnum hug í flestum tilfellum til að sannfæra viðmælanda eða vegna þess að viðkomandi hefur ekki haft fyrir að skoða málið
  • mögulegar villur og/eða ónákvæmni í viðamikilli rannsókn eru talin merki um samsæri þegar líklegasta skýringin er handvömm og/eða klaufaskapur
  • gjarnan er vísað í myndbönd, upptökur og ljósmyndir sem eiga að sýna eitthvað en ef vel er gáð kemur oft ekkert fram í þá veru sem fullyrt er – myndbönd eru klippt til þannig að þau segja aðeins hálfa söguna og ljósmyndum hefur verið breytt
  • upplýsingar eru birtar úr réttri tímaröð
  • tilviljanir, sem geta auðveldlega gerst, eiga að sanna eitthvað en eftir smá umhugsun er augljóst að ótrúlega trúgirni að tengja við atburðina
  • óskyld atvik eiga að hafa eitthvert sönnunargildi sem ekki nokkur leið er að tengja rökrétt við atburðina, amk. vona ég að þeir sem trúa þessu þurfi aldrei að sitja í kviðdómi

Í ljósi alls þessa finnast mér samsæriskenningarnar um 11. september óttalegt röfl. Er ekki  kominn tími til að sætta sig við að það eru engar staðreyndir sem finnast sem benda til eða staðfesta samsæri. Ef þær finnast má taka málið upp, en er þetta ekki hrein tímasóun á meðan ekkert haldbært kemur fram? Nóg er af staðfestum dæmum sem tímanum væri betur varið í að gagnrýna.

Á hinn bóginn skal ég alveg taka rökum – eins og alltaf – en:

  • Ekki benda mér á heimildarmyndir, ég er búin að sjá meira en nóg og þar er engar sannanir að finna. Bendið á gild rök í viðkomandi myndum ef einhver eru.
  • Ekki byrja á einhverju rausi um hversu heimskur, einfaldur, vitlaus eða mikill útsendari Bandaríkjastjórnar ég sé. Það er rangt. Og þó það væri rétt, þá kemur það málinu ekkert við.
  • Komið með staðreyndir.
  • Ekki segja mér að ég þurfi að skoða svo og svo mikið af hálfkveðnum vísum og getgátum til að sjá einhverja heildarmynd og þar af leiðandi samsærið. Ef ekki eru staðreyndir fyrir hendi, þá er engin heildarmynd af neinu samsæri.
  • Ekki vísa í fjölda sérfræðinga sem hafi einhverja skoðun nema tilgreina líka hversu margir sérfræðingar eru á annarri skoðun. Hafið með öðrum orðum rænu á að kynna ykkur báðar hliðar. Ekki afgreiða sérfræðinga sem eru á annarri skoðun en þið með því að þeir séu á mála hjá stjórnvöldum. Með sömu rökum má afgreiða aðra sérfræðinga sem ótrúverðuga. Takið sem sagt annað hvort mark á sérfærðingum eða ekki. Ekki velja og hafna út frá fyrirfram gefinni niðurstöðu.
  • Ekki vísa í óritrýndar greinar á þeim forsendum að um vísindagreinar eða rannsóknir sé að ræða.
  • Ekki benda á klippt YouTube videó sem segur hálfa sögu, skoðið hvort til sé annað myndband sem segir aðra sögu.
  • Ekki benda á YouTube myndbönd nema þau sýni efnislega fram á eitthvað, þeas. séu af atburðum þennan dag. Alls ekki bjóða upp á myndskreyttan texta – sem vel væri hægt að skrifa – þar sem hefðbundnum áróðursbrögðum kvikmyndatækninnar er beitt.
  • Ekki benda á breyttar („fótósjoppaðar“) ljósmyndir, skoðið hvort myndin er upprunaleg, að minnsta kosti athugið hvort til séu aðrar útgáfur af viðkomandi ljósmynd.
  • Ekki benda á myndbönd sem eiga að sýna eitthvað sem ekki er til staðar og sést ekki.
  • Sama gildir um hljóðupptökur þar sem fullyrt er að einhver segi eitthvað annað en sagt er. Látið líka vera að túlka eða leggja einhverja langsótta merkingiu í það sem sagt er.
  • Ekki benda á myndir af einhverju án þess að skoða hvaða myndir sýna aðra hlið.
  • Ekki vísa í samhengislausa atburði.
  • Ekki stæra ykkur af því hversu margar greinar þið hafið lesið, hversu margar heimildamyndir þið hafið séð eða hversu mörgu YouTube skot þið hafið horft á. Sýnið hvað þið hafið skiljið af þessu með því að lýsa með eigin orðum. Magn er ekki sama og gæði þegar kemur að því að skoða og vinna úr upplýsingum.
  • Ekki yfirheyra mig um hvað ég hafi horft á og hvað ég hef skoðað, ef þið viljið sannfæra mig, komið með sannfærandi efni.
  • Að lokum, segið mér svo endilega hversu margir tóku þátt í þessu. Segið mér hvernig þetta var framkvæmt. Ef þið haldið því fram að um samsæri sé að ræða hafið að minnsta kosti einhverja hugmynd um umfangið og hvernig þetta gæti mögulega hafa verið gert.

Svo ég sé nú sjálfum mér ósamkvæmur þá skil ég að mörgu leyti viljann til að trúa því að þetta hafi verið einhvers konar samsæri og að bandarísk stjórnvöld beri einhverja ábyrgð. Mér þykir ekki útilokað að vitneskja hafi verið um yfirvofandi árásir en þær hafi verið hunsaðar, annað hvort af hreinu og kláru getuleysi eða þess vegna vísvitandi. Ég kemst einfaldlega ekki framhjá því að engar staðreyndir eða upplýsingar benda til samsæris. Þess vegna samþykki ég ekki þessar kenningar.

PS. Ég er svo heppinn að verða utan þjónustusvæðis næstu daga og kem ekki til með að  sjá athugasemdir strax. Allar athugasemdir fara í bið og ég samþykki aðeins til birtingar þær sem standast þær kröfur sem ég nefni. Ég nenni ekki að eyða meiri tíma í ómarkvissar getgátur og óvandaðar kenningar.

Ég ímynda mér að flestir skilji spurninguna um þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá þannig að þeir sem styðja núverandi „fyrirkomulag“ um þjóðkirkju í stjórnarskrá eigi að segja „já“.

Það segir kannski sitt um hversu hroðvirknislega þessi kjörseðill er unnin að það má hæglega túlka svarið „já“ þannig að viðkomandi vilji hafa ákvæði í stjórnarskrá sem taki af allan vafa að ekki megi vera þjóðkirkja eða ríkisrekin kirkja á Íslandi.

Ég skal játa að fyrst fannst mér þetta sjónarmið hálfgerður útúrsnúningur.

En við nánari umhugsun, og smá rökræður, þá er sennilega góð hugmynd að festa í stjórnarskrá að eitt trúfélag megi ekki njóta þeirra forréttinda að vera ríkisrekið.