Posts Tagged ‘bókhaldskerfi’

Ég hef aldrei haft vit á að forðast það að hætta mér út á hálan ís – og fer ekki að taka upp á því núna.

Ég hef fylgst með umfjöllun um tölvukerfi Fjársýslu ríkisins. Ég þekkti aðeins til á sínum tíma, en hef óneitanlega lítið fylgst með síðustu árin. Þá þekki ég suma þeirra einstaklinga sem hafið komið að verkefninu – frá ýmsum hliðum.

Og áður en lengra er haldið:

 • Ég er ekki að verja þetta verkefni í heild. Alls ekki.
 • Ég er ekki að skrifa þetta af greiðasemi við einhvern.
 • Það er alveg á hreinu að það má (á) að fjalla um svona mál opinberlega.
 • Ég get ekki með nokkru móti skilið þann drátt sem orðið hefur á skýrslu Ríkisendurskoðunar, án þess að hafa hugmynd um hvað veldur.
 • Mér finnast viðbrögðin við því að skýrslunni hafi verið „lekið“ fráleit.

En ég fer gjarnan í baklás þegar umræðan verður of einsleit – og þarf einhvern veginn oft að vera ósammála öllu og öllum.

Nokkur atriði finnast mér að minnsta kosti ósanngjörn eða ruglingsleg í þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið. Og það er lykilatriði að svona umræða sé málefnaleg og markviss.

Það sem truflar mig er:

 • Upphaflega fjárhæð í fjárlögum (sem líklega var ranglega kynnt fyrir þinginu) er notuð til viðmiðunar í stað fjárhæðar tilboðanna.
 • Fjárhæðin til að kaupa kerfið er notuð til að bera saman við kaup, breytingar og rekstur á ellefu árum.
 • Gefið er í skyn að fyrrum forstjóri Skýrr hafi hyglað fyrirtækinu við val á kerfi. Þetta er auðvitað fráleitt, nýir eigendur settu viðkomandi af sem forstjóra og hann hætti fljótlega hjá fyrirtækinu. Er líklegt að hann myndi hygla fyrirtækinu? Var kannað hvaða afstöðu viðkomandi hafði til kerfanna? Eða var betra (auðveldara) að ýja að einhverju óeðlilegu án þess að kanna staðreyndir?
 • Álit starfsmanna Ríkisendurskoðunar að annar valkostur hafi verið betri er tekinn sem einhvers konar stóri dómur í mati á kerfunum. Nú hef ég engar forsendur til að meta hvort (hvert) kerfið hentaði betur (best) en ég veit að þetta er mjög flókið verkefni og eiginlega fráleitt að gefa sér að til sé eitt rétt og afdráttarlaust svar.
 • Litið er á ákvarðanir um aðgangsstýringar sem áfellisdóm yfir kerfinu og getu þess.
 • Sama gildir um verklagsreglur við notkun kerfisins.
 • Ég veit ekki hversu vel kröfur til kerfisins voru skilgreindar eða hvernig þær hafa breyst á þeim tólf árum sem liðin eru. Gjarnan breytast kröfur til svona kerfa á styttri tíma, bæði vegna þess að starfsemi breytist, umhverfið breytist og sama gildir um mögulega tækni.
 • Þá hafa verið nefnd dæmi um villur, hvort þær voru ein eða fjórar er ekki aðalatriði… en ég þekki hugbúnaðargerð ágætlega og ég hef ekki enn séð fullkomlega villufrían hugbúnað af þessari stærðargráðu.
 • Undirskrift verklokasamnings eru talin til mistaka vegna þess að ekki var búið að afhenda alla hluti. En það gleymist að lykilþættir voru komnir í rekstur og varla óeðlilegt að þeir séu afgreiddir þannig, ma. til að fá uppfærslur.
 • Fjölskyldutengsl manns manns sem vann hjá Skýrr árum áður en bróðir hans tók við stöðu Ríkisendurskoðanda, löngu eftir kaupin, eru gerð tortryggileg.
 • Pistlar sem leggja viðskiptin að jöfnu við starfsemi Mafíunnar á Ítalíu.

Það má vel vera að margt hafa farið illa úrskeiðis í þessari innleiðingu. Það er allt eins líklegt að kerfið hafi verið of dýrt og sé ekki nógu gott. Þetta þekki ég ekki. Og það er sjálfsagt að ræða málið og fjalla um það opinberlega.

En mig langar sem sagt að biðja um betri umræðu. Eins og svo oft áður.