Sarpur fyrir júlí, 2016

Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Svona rétt í kjölfar þess að ég lýsti yfir stuðningi við pírata greip mig óstjórnleg þörf til að fara að ræða höfundarréttarmál..

Ég er ekki talsmaður þess að beita aðferðum sem skerða persónufrelsi eða brjóta mannréttindi á fólki.

Ég er talsmaður þess að fræða fólk, segja hvers vegna það er rangt að taka efni ófrjálsri hendi og vonast þannig til að ná árangri.

Rökleysurnar fyrir ólöglegri dreifingu fara nefnilega talsvert í taugarnar á mér, ef við skoðum aðeins hvernig færi ef sömu hugmyndafræði væri beitt í víðara samhengi.

Ofbeldi er auðvitað ekki löglegt og auðvitað viljum við ekki að þeir sem beita ofbeldi komist upp með það.

Að dreifa og taka efni í leyfisleysi er auðvitað ekki löglegt og auðvitað viljum við ekki að þeir sem dreifa efni ólöglega komist upp með það.

En það er erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir ofbeldi. Sennilega væri eina mögulega leiðin sú að setja upp eftirlitsmyndavélar í hverju skúmaskoti og vakta allan sólarhringinn. Það finnst okkur (vonandi) óásættanleg innrás í einkalíf fólks og fráleit skerðing á persónufrelsi.

En það er erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir ólöglega dreifingu efnis. Sennilega væri eina mögulega leiðin sú að setja upp eftirlit með allri netumferð, á hverri tölvu og síma og vakta allan sólarhringinn. Það finnst okkur (vonandi) óásættanleg innrás í einkalíf fólks og fráleit skerðing á persónufrelsi.

Við samþykkjum samt ekki að lögleiða ofbeldi. Við segjum ekki, fólk verður bara að sætta sig við að raunveruleikinn er svona. Við höldum áfram að segja fólki að þetta sé rangt, við höldum áfram að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi og reynum allt sem við getum til að minnka.

Við samþykkjum samt ekki að lögleiða ólöglega dreifingu efnis. Við segjum ekki að fólk verði bara að sætta sig við að raunveruleikinn sé svona. Við höldum áfram að segja fólki að þetta sé rangt, við höldum áfram að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi og reynum allt sem við getum til að minnka það.

Gott og vel, ofbeldi og ólögleg dreifing efnis eru ólíkir hlutir, en rök þeirra sem tala um að fyrst ekki sé hægt að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu efnis þá verðum við að sætta okkur við það, þau eru jafn vitlaus  – og við sættum okkur vonandi seint við rökleysurnar fyrir ólöglegri dreifingu efnis þegar ofbeldi á í hlut.

Kæri fyrrverandi forsætis..

Posted: júlí 28, 2016 in Stjórnmál, Umræða

Ekki svo að skilja að ég trúi einu orði af kenningum um hver stóð á bak við að birta svokölluð Panama skjöl eða hver tilgangur viðkomandi hefði getað verið. Það má meira að segja vel vera að þetta sé allt rétt, ég hef ekki grun.

Það skiptir einfaldlega engu máli.

Það sem skiptir máli er hvað stendur í skjölunum.

Og það skipti máli hvernig þú brást við.

Einhverra hluta vegna finnst mér að ég þurfi að útskýra og afsaka hvers vegna ég mæti ekki á alla viðburði sem mér er boðið að mæta á.

Ég fæ ógrynni af boðum um að mæta á alls kyns viðburði, aðallega í gegnum Facebook upp á síðkastið.

Fyrir það fyrsta þá erum við Iðunn ákaflega dugleg að halda sambandi við vini og kunningja – og erum gjarnan bókuð í alls konar samkomur, hittinga, vinnupartý, matarboð og ég veit ekki hvað – þess vegna bæði föstudag og laugardaga – oftar en ekki margar helgar í röð. Ef ekki, þá finnst okkur ekki verra að fá okkur bjór á meðan við erum að elda og rauðvín með matnum.. sem þýðir að við erum ekki ökufær. Leigubílaferðir úr Breiðbolti og til baka eru ekki beinlínis gefnar og strætóferðir taka gjarnan ansi góða tíma og eru sjaldan í boði þegar við erum á ferðinni.

Ekki misskilja, ég vil endilega fá sem flest boð og fá að vita af sem flestum viðburðum. En það er auðvitað útilokað að mæta á allt sem ég frétti af.. mér finnst gaman að mæta á (helst ólíka) viðburði ef ég get… en eins og ég segi, oftast erum við nú búin að ákveða hvað við gerum nokkuð (langt) fram í tímann.

Hafi ég lausan tíma þá er forgangsröðin auðvitað að grípa eitthvað sem mig virkilega langar að sjá. Og ef ég þarf að velja á milli nokkurn veginn jafn áhugaverðra viðburða þá vel ég frekar að kíkja ef sá/sú/þeir/þau sem bjóða mér hafa mætt á viðburði sem ég hef verið að skipuleggja. Svona einhvers konar gagnkvæm tillitssemi og/eða virðing.

Fordómahliðrunin

Posted: júlí 24, 2016 in Umræða
Efnisorð:

Ég er ekki frá því að það sé að verða ákveðin hliðrun á því hvaða skoðanir teljast „jaðarskoðanir“. Þessi hliðrun virðast koma í kjölfar mikillar umræðu sem byggir á fordómum og fáfræði frá fólki sem telur í lagi að dæma heilu hópana út frá örfáum einstaklingum.

Það er nefnilega orðið ansi algengt að sjá og heyra yfirlýsingar um innflytjendur, flóttamenn og hópa sem ekki tilheyra einhverri áratuga staðalímynd um hverjir eigi (megi) búa á Íslandi. Alhæfingar sem settar eru fram út frá fáfræði og einstaka dæmum um einstaklinga (þess vegna ímynduðum) – svona allt eftir hentugleikum.

Sem dæmi eru allir innflytjendur / flóttamenn gjarnan stimplaðir út frá einu og einu dæmi um voðaverk sem eignuð eru innflytjendum / flóttamönnum. En þetta sama fólk dæmir hvorki alla Norðmenn, alla Bandaríkjamenn né sína eigin trúbræður til dæmis eftir voðaverkum Breivik eða fjöldamorðingja í Bandaríkjunum.

Það er svo rauður þráður frá þessum fordómafullu einstaklingum að þeir halda því fram að þeir séu bara að ræða málin, það sé ekkert að því að og kvarta um leið undan því að fólk þoli ekki aðrar skoðanir en sínar eigin.

Sem er aftur nokkuð skondið í ljósi þess að fæstir þeirri vilja yfirhöfuð nokkuð „ræða málin“ heldur bregðast ókvæða við allri umræðu, svörum, leiðréttingum og ábendingum um rangfærslur – hvað þá að þeir þoli að þeirra eigin skoðanir séu gagnrýndar. Því fer nefnilega víðs fjarri að þeir þoli öðrum að hafa skoðanir sem þeim líkar ekki. Það er svo nánast sjálfgefin rútína að þeir sem voga sér að svara fordómunum og hafa aðra skoðun fá yfir sig fúkyrðaflaum – ef ekki óskir um að viðkomandi megi nú bara deyja sem fyrst.

Svo rammt kveður að þessu að fólk sem hefur frammi hógværar skoðanir, bendir á mikilvægi þess að virða mannréttindi og varar við að dæma heilu hópana eftir snarbiluðum einstaklingum (eitthvað sem ætti nú að vera sjálfsagt og óþarfi að ræða) er allt í einu komið á jaðarinn sem eitthvert öfgafólk.. öfgafólk sem kallar sjálft yfir sig dónaskap, uppnefni, hótanir og óskir um dauða.

Það er einhvern veginn eins og fáfræðin, vanþekkingin, mannfyrirlitning og hatrið séu að færa meðalveginn eitthvað langt til hliðar.

 

Ég hef lengi verið talsmaður lýðræðis og ekki síður hef ég verið hrifinn af þeirri hugmynd að beint lýðræði sé framtíðin. Vandinn við beint lýðræði hefur hins vegar reynst sá að allir fá að kjósa, án tillits til þess hvort þeir hafa svo mikið sem óljósan grun um rök með og á móti viðkomandi máli. Þannig virðist að fólk sem greiðir atkvæði hafi ekki alltaf fyrir því að taka málefnalega afstöðu, jafnvel þegar verið er að taka ákvörðun sem allir þurfa að lifa við til langs tíma. Reynslan hefur sýnt að það er auðvelt að spila á tilfinningar og hræðslu með einfeldingslegum áróðri og innantómum slagorðum.

Jafnast þetta ekki út? Eru ekki jafn margir sem kjósa hugsunarlaust í báðar áttir? Ég held ekki. Einhverra hluta vegna virðist fáfræði haldast í hendur við tilfinningar og slagorð – sem aftur verður til að það hallar á skynsemina í atkvæðagreiðslum. Sem skilar augljóslega verri niðurstöðu.

Hef ég eitthvað fyrir mér í þessu? Kannski var úrtakið ekki stórt í tveimur atkvæðagreiðslum sem ég fylgdist með hér heima, en það hringdu viðvörunarbjöllur.

Í kjölfar BrExit kosninganna hefur til dæmis komið í ljós að 7% þeirra Breta sem greiddu atkvæði með úrgöngu úr ESB virðast sjá strax eftir því hvernig þeir greiddu atkvæði.

Skoðum þá atkvæðagreiðslu aðeins betur. Umfjöllunin í kjölfarið bendir til að mjög margir hafi kosið án almennilegrar vitneskju um hvaða afleiðingar niðurstöðurnar gætu haft og/eða einfaldlega ekki verið tilbúið til að taka ábyrgð á sínu atkvæði.

Ég er sannfærður um að við fáum betri ákvarðanir með því að sía burt atkvæði þeirra sem hafa ekki hugmynd um hvað er verið að kjósa um. Er það andstætt hugsuninni um lýðræði? Ég held ekki, það stendur öllum til boða að kynna sér málin og taka málefnalega afstöðu. Kannski er betra að tala um „rökræði“ eða „upplýsingaræði“.

Skoðum BrExit betur sem dæmi. Segjum að hverjum atkvæðaseðli hefði fylgt spurning, td. hvað lýsti ESB (EU) best:

  1. popphljómsveit
  2. fæðubótarefni
  3. alþjóðasamtök ríkja
  4. fótboltalið á Írlandi

Og atkvæði þeirra sem ekki geta svarað rétt væru einfaldlega ekki talin með. Sennilega hefði þetta ekki síað burt mörg atkvæði, en miðað við fjölda „google“ um hvað EU er frá Bretlandi eftir kosningar hefði þetta mögulega getað skipt sköpum!

Önnur og nákvæmari spurning gæti verið

  • Rétt eða rangt? Bretar greiða 350m á viku til ESB sem annars mætti nota í heilbrigðisþjónustuna.

Þetta var áberandi fullyrðing í aðdraganda kosninganna. Þessi spurning er hins vegar væntanlega of sértæk, gerir of miklar kröfur – og hefði líkast til síað út mjög mikið af atkvæðum.

Vandinn er að finna réttu spurningarnar og ákveða hversu stífar kröfur á að gera. Og sennilega þurfa þær að vera handahófskenndar, þeas. ekki bara ein spurning sem hægt er að kenna fólki að svara.

Bara það að fólk viti að það er á von á spurningu er væntanlega nægilegt til að kjósendur kynni sér með- og mótrök betur og taki þannig skynsamlegri ákvörðun í kjörklefanum (eða vonandi áður en það mætir í kjörklefann!).

Klárlega þarf að ræða vel hvernig má útfæra þetta svo vel færi, annað væri það í algjörri andstöðu við hugmyndina sjálfa!

En er eitthvað sem mælir í alvöru á móti þessari hugmynd?

Píratar, já..

Posted: júlí 4, 2016 in Umræða

Ég var að skrá mig í flokk Pírata… nokkuð sem kemur eflaust á óvart eftir að hafa staðið í að þrasa við talsmenn þeirra um höfundarréttarmál síðustu árin, nokkuð sem hefur truflað mig verulega við flokkinn.

En þeir virðast hafa sett þetta til hliðar, þrátt fyrir sögulegan uppruna og ég get skrifað upp á flest, ef ekki öll, þeirra stefnumál.

Þessu fylgir ekki skilyrðislaus stuðningur, það skiptir öllu að vel takist til við að finna fólk til forystu. Ég sé eftir Helga Hrafni af þingi, því þó við höfum oft deilt og oft verið ósammála, þá erum við nú oftar sammála og það er alltaf hægt að ræða við hann og við þurfum einfaldlega fleiri hans líka á þing.

Það truflaði mig sérstaklega fyrir síðustu alþingiskosningar að þar voru í forsvari, og ofarlega á framboðslistum, einstaklingar sem áttu ekkert erindi á þing – svo ég tali nú hreint út – ófærir um rökræður, illa upplýstir, talsmenn bábilja, hjávísinda og hvers kyns rugls. Ég fæ enn kjánahroll þegar ég rifja upp YouTube „svar“ við bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir kosningarnar.

Vonandi tekst vel til við að manna framboðslista, ég hef fylgst nokkuð vel með þar sem tveir synir hafa verið nokkuð virkir og svo langt sem ég sé þá er talsvert mikið af góðu fólki að koma þarna til starfa – fólk sem ég treysti til að vinna heiðarlega á þingi.

Ég geri svo sem ekki ráð fyrir að hafa mig mikið í frammi, en vonandi get ég lagt eitthvað að mörkum við að stilla stefnuna að skynsemi og frá bábiljum, kukli, rökleysum og hvers kyns vitleysu.

Frakklandsferð

Posted: júlí 3, 2016 in Umræða

Við Iðunn fórum til Frakklands í sumar, EM 2016 stýrði valinu á staðnum, en hugmyndin var reyndar líka að heimsækja löngu tímabæra staði og njóta matar og vína.

Fyrir áhugasama má finna dagbók ferðarinnar og eitthvað af myndum hér á Frakkland, myndir.

Þetta var nokkuð vel heppnuð ferð en eitt og annað sem situr eftir, stendur upp úr og gleymist seint.

Fótboltinn

.. var reyndar fyrirferðameiri en við höfðum hugsað okkur, enda tímafrekt að ferðast á leiki og nauðsynlegt að undirbúa vel og ná stemmingunni fyrir leik – og ekki síður að fagna vel og vandlega eftir leik.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um frammistöðu landsliðsins, það er marg búið að fara yfir það og hrósa.

Íslensku áhorfendurnir voru hins vegar frábærir, jákvæðir og stemming fín í hópnum. Og það skipti engu við hverja liðið var að spila, samskiptin við stuðningsmenn hinna liðanna voru alltaf á jákvæðum nótum.

Tvennt er þó minnistæðast..

Á leiknum við Ungverja var tvöföld lína af öryggisvörðum fyrir framan ungversku áhangendurna, en varla nokkur hjá þeim íslensku.

Þegar við horfðum á Ísland-England á bar í Amsterdam, þá var skemmtilega áberandi að stuðningsmenn íslenska liðsins yfirgnæfðu þá ensku nánast allan leikinn.

Kaffi

Það kom mér reyndar á óvart hversu erfitt var að fá gott kaffi. Espresso var gjarnan einfaldlega vont og ef ég bað um einhverja kaffidrykki með mjólk, þá voru hlutföllin yfirleitt 95% mjólk og 5% kaffi.. kannski allt of mikið súkkulaði óumbeðið með. Við fengum reyndar stöku sinnum frábært kaffi, en ímyndin var að kaffið væri nánast alltaf í góðu lagi í Frakklandi.

Lourmarin

Við stoppuðum nokkra daga í þorpinu Lourmarin. Svo sem skemmtilegt þorp, náðum aðeins að smakka vín sem við þekktum ekki og veitingastaðirnir voru fínir. Það er hins vegar (auðvitað) vonlaust að ætla sér að gera héraðinu einhver skil á örfáum dögum. Við kynntumst aðeins stöðum sem við ætlum að heimsækja seinna. En þá er líka fráleitt að vera á bíl og ætla að stunda að heimsækja vínframleiðendur og smakka.

Bjórinn

Ekki vorum við hrifin af bjórnum, frekar fátæklegt úrval, yfirleitt það sama út um allt Frakkland og lítið um spennandi bjóra. Ég er meira að segja nokkuð viss um að Leffe bjórinn, sem var algengur þarna, er talsvert betri í Belgíu og Hollandi! En 1664, Kronenbourg, Heineken og svo Carlsberg – einhvers sérstök sull útgáfa fyrir vellina – voru algengastir og alls ekki góðir. Grimbergen stundum í boði, en gerði ekki mikið fyrir minn smekk.

En svo er auðvitað tómt rugl að liggja í bjór í Frakklandi.

Mers-les-Bains

Við höfðum gert ráð fyrir að geta slakað á í nokkra daga á ströndinni á milli Calais og Le Havre, svona á mörkum Normandy og Picardy. En sennilega var ekki alveg kominn tími til strandferða, frekar kalt, mjög hvasst, ekki hægt að leigja sólstóla eða bekki (enda ekkert veður til).

Vínið

Við drukkum aðallega rauðvín með matnum og það var nánast undartekingarlaust nokkuð gott, jafnvel mjög gott, nokkrum sinnum í meðallagi, en aldrei vont. Þeas. nema þegar við pöntuðum glas af víni hússins, þá kom oft óttalegt sull.

Marseille

Sennilega vorum við með óþarflega neikvæða ímynd af borginni, en hún virtist mjög skemmtileg og margt að skoða og gera. Ég fékk reyndar matareitrun sem skemmdi talsvert fyrir en Alli, Iðunn og Viktor fóru til að mynda út í eyju á bát. Þurfum að koma aftur til Marseille.

París

Við eigum enn eftir að heimsækja París almennilega.. borgin er skemmtileg, fullt af óskoðuðum söfnum og veitingastöðum. Það er þó fráhrindandi hversu yfirgengilega hátt verð er á bjór á helstu stöðunum.

Frakkarnir, enskan og franskan

Frakkarnir eru miklu jákvæðari og kurteisari en við kynntumst hér á árum áður. Þeir reyndu flestir að tala ensku og þeir reyndu flestir að skilja okkur. Og þó það gengi ekki þá vottaði ekki fyrir þessu hroka og fýlupúkahætti sem einkenndi þá áður (nema við höfum verið svona einstaklega óheppin þá, eða einstaklega heppin núna).

Reyndar hvarflaði stundum að mér að skilningsleysið væri uppgerð, við berum frönskuna fyrir bjór eða hvítvín eða rauðvín ekki svo fáránlega illa fram að það sé vonlaust að skilja okkur eftir nokkra daga á sama hóteli með sömu þjónum.

Er ekki kominn tími til að veita börnum kosningarétt, td. við sex ára aldur? Jafnvel yngri?

Því hver eru rökin gegn því að börn fái að greiða atkvæði í almennum kosningum?

Ég er nokkuð viss um að flest rökin gegn kosningarétti barna gilda líka um fólk sem:

  • kýs án þess að nenna að kynna sér málefni sem kosið er um, hvort sem er í þjóðaratkvæðagreiðslum, þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum (ég sleppi kannski forsetakosningum, þar eru jú engin málefni)
  • tekur afstöðu út frá fordómum
  • lætur tilfinningaslagorð stjórna atkvæði sínu
  • stjórnast af órökstuddum hræðsluáróðri
  • getur einfaldlega ekki unnið úr upplýsingum og tekið málefnalega afstöðu