Rökræði / upplýsingaræði frekar en lýðræði

Posted: júlí 4, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef lengi verið talsmaður lýðræðis og ekki síður hef ég verið hrifinn af þeirri hugmynd að beint lýðræði sé framtíðin. Vandinn við beint lýðræði hefur hins vegar reynst sá að allir fá að kjósa, án tillits til þess hvort þeir hafa svo mikið sem óljósan grun um rök með og á móti viðkomandi máli. Þannig virðist að fólk sem greiðir atkvæði hafi ekki alltaf fyrir því að taka málefnalega afstöðu, jafnvel þegar verið er að taka ákvörðun sem allir þurfa að lifa við til langs tíma. Reynslan hefur sýnt að það er auðvelt að spila á tilfinningar og hræðslu með einfeldingslegum áróðri og innantómum slagorðum.

Jafnast þetta ekki út? Eru ekki jafn margir sem kjósa hugsunarlaust í báðar áttir? Ég held ekki. Einhverra hluta vegna virðist fáfræði haldast í hendur við tilfinningar og slagorð – sem aftur verður til að það hallar á skynsemina í atkvæðagreiðslum. Sem skilar augljóslega verri niðurstöðu.

Hef ég eitthvað fyrir mér í þessu? Kannski var úrtakið ekki stórt í tveimur atkvæðagreiðslum sem ég fylgdist með hér heima, en það hringdu viðvörunarbjöllur.

Í kjölfar BrExit kosninganna hefur til dæmis komið í ljós að 7% þeirra Breta sem greiddu atkvæði með úrgöngu úr ESB virðast sjá strax eftir því hvernig þeir greiddu atkvæði.

Skoðum þá atkvæðagreiðslu aðeins betur. Umfjöllunin í kjölfarið bendir til að mjög margir hafi kosið án almennilegrar vitneskju um hvaða afleiðingar niðurstöðurnar gætu haft og/eða einfaldlega ekki verið tilbúið til að taka ábyrgð á sínu atkvæði.

Ég er sannfærður um að við fáum betri ákvarðanir með því að sía burt atkvæði þeirra sem hafa ekki hugmynd um hvað er verið að kjósa um. Er það andstætt hugsuninni um lýðræði? Ég held ekki, það stendur öllum til boða að kynna sér málin og taka málefnalega afstöðu. Kannski er betra að tala um „rökræði“ eða „upplýsingaræði“.

Skoðum BrExit betur sem dæmi. Segjum að hverjum atkvæðaseðli hefði fylgt spurning, td. hvað lýsti ESB (EU) best:

  1. popphljómsveit
  2. fæðubótarefni
  3. alþjóðasamtök ríkja
  4. fótboltalið á Írlandi

Og atkvæði þeirra sem ekki geta svarað rétt væru einfaldlega ekki talin með. Sennilega hefði þetta ekki síað burt mörg atkvæði, en miðað við fjölda „google“ um hvað EU er frá Bretlandi eftir kosningar hefði þetta mögulega getað skipt sköpum!

Önnur og nákvæmari spurning gæti verið

  • Rétt eða rangt? Bretar greiða 350m á viku til ESB sem annars mætti nota í heilbrigðisþjónustuna.

Þetta var áberandi fullyrðing í aðdraganda kosninganna. Þessi spurning er hins vegar væntanlega of sértæk, gerir of miklar kröfur – og hefði líkast til síað út mjög mikið af atkvæðum.

Vandinn er að finna réttu spurningarnar og ákveða hversu stífar kröfur á að gera. Og sennilega þurfa þær að vera handahófskenndar, þeas. ekki bara ein spurning sem hægt er að kenna fólki að svara.

Bara það að fólk viti að það er á von á spurningu er væntanlega nægilegt til að kjósendur kynni sér með- og mótrök betur og taki þannig skynsamlegri ákvörðun í kjörklefanum (eða vonandi áður en það mætir í kjörklefann!).

Klárlega þarf að ræða vel hvernig má útfæra þetta svo vel færi, annað væri það í algjörri andstöðu við hugmyndina sjálfa!

En er eitthvað sem mælir í alvöru á móti þessari hugmynd?

Lokað er á athugasemdir.