Píratar, já..

Posted: júlí 4, 2016 in Umræða

Ég var að skrá mig í flokk Pírata… nokkuð sem kemur eflaust á óvart eftir að hafa staðið í að þrasa við talsmenn þeirra um höfundarréttarmál síðustu árin, nokkuð sem hefur truflað mig verulega við flokkinn.

En þeir virðast hafa sett þetta til hliðar, þrátt fyrir sögulegan uppruna og ég get skrifað upp á flest, ef ekki öll, þeirra stefnumál.

Þessu fylgir ekki skilyrðislaus stuðningur, það skiptir öllu að vel takist til við að finna fólk til forystu. Ég sé eftir Helga Hrafni af þingi, því þó við höfum oft deilt og oft verið ósammála, þá erum við nú oftar sammála og það er alltaf hægt að ræða við hann og við þurfum einfaldlega fleiri hans líka á þing.

Það truflaði mig sérstaklega fyrir síðustu alþingiskosningar að þar voru í forsvari, og ofarlega á framboðslistum, einstaklingar sem áttu ekkert erindi á þing – svo ég tali nú hreint út – ófærir um rökræður, illa upplýstir, talsmenn bábilja, hjávísinda og hvers kyns rugls. Ég fæ enn kjánahroll þegar ég rifja upp YouTube „svar“ við bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir kosningarnar.

Vonandi tekst vel til við að manna framboðslista, ég hef fylgst nokkuð vel með þar sem tveir synir hafa verið nokkuð virkir og svo langt sem ég sé þá er talsvert mikið af góðu fólki að koma þarna til starfa – fólk sem ég treysti til að vinna heiðarlega á þingi.

Ég geri svo sem ekki ráð fyrir að hafa mig mikið í frammi, en vonandi get ég lagt eitthvað að mörkum við að stilla stefnuna að skynsemi og frá bábiljum, kukli, rökleysum og hvers kyns vitleysu.

Lokað er á athugasemdir.