Frakklandsferð

Posted: júlí 3, 2016 in Umræða

Við Iðunn fórum til Frakklands í sumar, EM 2016 stýrði valinu á staðnum, en hugmyndin var reyndar líka að heimsækja löngu tímabæra staði og njóta matar og vína.

Fyrir áhugasama má finna dagbók ferðarinnar og eitthvað af myndum hér á Frakkland, myndir.

Þetta var nokkuð vel heppnuð ferð en eitt og annað sem situr eftir, stendur upp úr og gleymist seint.

Fótboltinn

.. var reyndar fyrirferðameiri en við höfðum hugsað okkur, enda tímafrekt að ferðast á leiki og nauðsynlegt að undirbúa vel og ná stemmingunni fyrir leik – og ekki síður að fagna vel og vandlega eftir leik.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um frammistöðu landsliðsins, það er marg búið að fara yfir það og hrósa.

Íslensku áhorfendurnir voru hins vegar frábærir, jákvæðir og stemming fín í hópnum. Og það skipti engu við hverja liðið var að spila, samskiptin við stuðningsmenn hinna liðanna voru alltaf á jákvæðum nótum.

Tvennt er þó minnistæðast..

Á leiknum við Ungverja var tvöföld lína af öryggisvörðum fyrir framan ungversku áhangendurna, en varla nokkur hjá þeim íslensku.

Þegar við horfðum á Ísland-England á bar í Amsterdam, þá var skemmtilega áberandi að stuðningsmenn íslenska liðsins yfirgnæfðu þá ensku nánast allan leikinn.

Kaffi

Það kom mér reyndar á óvart hversu erfitt var að fá gott kaffi. Espresso var gjarnan einfaldlega vont og ef ég bað um einhverja kaffidrykki með mjólk, þá voru hlutföllin yfirleitt 95% mjólk og 5% kaffi.. kannski allt of mikið súkkulaði óumbeðið með. Við fengum reyndar stöku sinnum frábært kaffi, en ímyndin var að kaffið væri nánast alltaf í góðu lagi í Frakklandi.

Lourmarin

Við stoppuðum nokkra daga í þorpinu Lourmarin. Svo sem skemmtilegt þorp, náðum aðeins að smakka vín sem við þekktum ekki og veitingastaðirnir voru fínir. Það er hins vegar (auðvitað) vonlaust að ætla sér að gera héraðinu einhver skil á örfáum dögum. Við kynntumst aðeins stöðum sem við ætlum að heimsækja seinna. En þá er líka fráleitt að vera á bíl og ætla að stunda að heimsækja vínframleiðendur og smakka.

Bjórinn

Ekki vorum við hrifin af bjórnum, frekar fátæklegt úrval, yfirleitt það sama út um allt Frakkland og lítið um spennandi bjóra. Ég er meira að segja nokkuð viss um að Leffe bjórinn, sem var algengur þarna, er talsvert betri í Belgíu og Hollandi! En 1664, Kronenbourg, Heineken og svo Carlsberg – einhvers sérstök sull útgáfa fyrir vellina – voru algengastir og alls ekki góðir. Grimbergen stundum í boði, en gerði ekki mikið fyrir minn smekk.

En svo er auðvitað tómt rugl að liggja í bjór í Frakklandi.

Mers-les-Bains

Við höfðum gert ráð fyrir að geta slakað á í nokkra daga á ströndinni á milli Calais og Le Havre, svona á mörkum Normandy og Picardy. En sennilega var ekki alveg kominn tími til strandferða, frekar kalt, mjög hvasst, ekki hægt að leigja sólstóla eða bekki (enda ekkert veður til).

Vínið

Við drukkum aðallega rauðvín með matnum og það var nánast undartekingarlaust nokkuð gott, jafnvel mjög gott, nokkrum sinnum í meðallagi, en aldrei vont. Þeas. nema þegar við pöntuðum glas af víni hússins, þá kom oft óttalegt sull.

Marseille

Sennilega vorum við með óþarflega neikvæða ímynd af borginni, en hún virtist mjög skemmtileg og margt að skoða og gera. Ég fékk reyndar matareitrun sem skemmdi talsvert fyrir en Alli, Iðunn og Viktor fóru til að mynda út í eyju á bát. Þurfum að koma aftur til Marseille.

París

Við eigum enn eftir að heimsækja París almennilega.. borgin er skemmtileg, fullt af óskoðuðum söfnum og veitingastöðum. Það er þó fráhrindandi hversu yfirgengilega hátt verð er á bjór á helstu stöðunum.

Frakkarnir, enskan og franskan

Frakkarnir eru miklu jákvæðari og kurteisari en við kynntumst hér á árum áður. Þeir reyndu flestir að tala ensku og þeir reyndu flestir að skilja okkur. Og þó það gengi ekki þá vottaði ekki fyrir þessu hroka og fýlupúkahætti sem einkenndi þá áður (nema við höfum verið svona einstaklega óheppin þá, eða einstaklega heppin núna).

Reyndar hvarflaði stundum að mér að skilningsleysið væri uppgerð, við berum frönskuna fyrir bjór eða hvítvín eða rauðvín ekki svo fáránlega illa fram að það sé vonlaust að skilja okkur eftir nokkra daga á sama hóteli með sömu þjónum.

Lokað er á athugasemdir.