Sarpur fyrir september, 2018

Eftir umræður síðustu daga um verðtryggingu er ég kominn á þá skoðun að það væri til mikilla bóta að taka upp sérstakan sýndargjaldmiðil til húsnæðiskaupa, „húsnæðiskaupakrónur“ (HKK), eða kannski eitthvert enn betra nafn.

Umræðan um verðtrygginguna er orðin þannig að hún stýrist af alls kyns rangfærslum og misskilningi og það er eiginlega orðið vonlaust verk að eltast við að leiðrétta og halda réttum upplýsingum til haga.

Með því að taka upp húsnæðiskaupakrónur er virkni lántöku og afborgana mun skiljanlegri („gegnsærri“).

Tökum dæmi.

Segjum okkur að við byrjum með HKK í dag, 1 HKK sé jafnvirði 10.000 íslenskra króna.

Lántakandi sem hefði tekið 10 milljóna lán í íslenskum krónum (sem vantar upp á að kaupa litla eign) fær nú lán upp á 1.000 HKK. Hann skiptir þeim í 10m íslenskar krónur og kaupir sína eign. Gefum okkur að lánið sé til 10 ára með 1% vöxtum (já, ég má láta mig dreyma í bloggfærslu) – og höfum einn gjalddaga á ári til einföldunar.

Ef lánið er með föstum afborgunum, þá borgar lántakandi 100 HKK á hverju ári, vexti af höfuðstól í HKK og kaupir íslenskar krónur á gengi HKK á gjalddaga.

Eftir eitt ár greiðir lántakandi þannig 100 HKK afborgun og 10 HKK í vexti, alls 110 HKK. Gefum okkur að gengi HKK sé 11.000 eftir eitt ár. Lántakandi þarf þá að kaupa íslenskar krónur á genginu 11.000, greiðir lánveitanda 1.210.000 (11.000 * 110) ÍKR.

Gefum okkur að gengi HKK lækki og detti aftur niður í 10.000 fyrir næsta gjalddaga (já, ég mátti láta mig dreyma), þá greiðir lántakandi áfram 100 HKK, 9 HKK í vexti og nú þarf hann að kaupa 1.090.000 ÍKR til að greiða. Afborgunin er alltaf sú sama 100 HKK, vextirnir lækka á hverjum gjalddaga og höfuðstóllinn lækkar sýnilega á hverjum gjalddaga.

Sama gildir um jafngreiðslulán, það er reiknað í HKK (sennilega er greiðslan eitthvað nærri 105-106 HKK á gjalddaga, nenni ekki að reikna nákvæmlega) og þegar kemur að gjalddaga er afborgun og vextir í HKK, greiðslan alltaf sú sama í HKK og lántakandi skiptir yfir í íslenskar krónur til að greiða. Afborgun hækkar aðeins, vextir lækka og höfuðstóll lækkar á hverjum gjalddaga.

Auðvitað kemur þetta í sama stað niður, en það er mun einfaldara að skilja hvernig verðtrygging virkar og það er mun skýrara að sjá höfuðstól lánsins lækka og horfa á fastar afborganir eða fastar greiðslur sem breytast ekki á lánstímanum.

PS. biðst fyrirfram afsökunar á mögulegum innsláttarvillum í útreikningum, er að gera þetta á hlaupum.