Sarpur fyrir desember, 2016

Ég hef talað fyrir þeirri hugmynd að kjósendur þurfi að sýna að þeir hafi algjöra lágmarks þekkingu á því sem þegar þeir eru að greiða atkvæði í kosningum. Þá hafa verið hugmyndir um að vægi atkvæði þeirra sem nenna að kynna sér málefnið vel vegi þyngra en atkvæði annarra (td. hafa Matthías Ásgeirsson og fleiri hafa nefnt ágætis hugmyndir).

Þetta snýst ekki um greind kjósenda heldur það að leggja á sig lágmarksvinnu. Ég á nefnilega erfitt með að sætta mig við að fólk er að kjósa án þess að nenna að hafa fyrir því að kynna sér um hvað það er að kjósa. Allt of oft þekkir fólk hvorki rök né mótrök og hefur ekki grun um hvort þau rök sem haldið er fram standist skoðun. Það eru meira að segja óteljandi dæmi um að fólk hafi kosið án þess að vita einu sinni um hvað það var að kjósa.

Því fleiri atkvæðagreiðslum sem ég fylgist með, því sannfærðari verð ég um ágæti þess að gera lágmarkskröfu til kjósenda, ekki einhver greindarpróf, heldur einfaldlega að athuga hvort fólk hafi nennt að sinna sjálfsögðum undirbúningi.

Þetta er að einhverju leyti ekki ósvipað því að einhver kaupi flugelda, nennir ekki að lesa leiðbeiningarnar og kveiki í nærliggjandi húsum.

Sama gildir í raun um kosningar, ef kjósendur lesa ekki leiðbeiningarnar og vita ekki hvað þeir eru að gera… þá er hætta á slysi – slysi sem getur verið dýrkeypt fyrir okkur hin.

Við erum ekki að tala um að sauðurinn með flugeldana hafi ætlað sér að kveikja í eða valda tjóni, þetta var sinnuleysi, leti og/eða áhugaleysi um lágmarks tillitssemi og lágmarks undirbúning við einfalt verk.

Svipaðar hugmyndir eru að einhverju leyti í núverandi kerfi þar sem kosningaréttur er takmarkaður við aldur. 17 ára einstaklingur, með mikla þekkingu, borgar sína skatta og er fullfær um að taka meðvitaða ákvörðun, fær ekki að kjósa á meðan annar 18 ára sem nennir ekki að skilja um hvað málið snýst, fellur fyrir ómerkilegum slagorðum og tekur ákvörðun sem hefur gríðarleg áhrif á okkur hin.

Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvað mælir á móti þessari hugmynd. Jú, eitthvað virðist hugmyndin nýstárleg og þurfa umhugsun, stundum er erfitt að yfirvinna hefðir og gamlan vana.

Þeir einu sem væntanlega hafa eitthvað á móti því að bæta kosningakerfið eru sennilega þeir sem vilja geta spilað á vanþekkingu og komist til valda og náð ákvörðunum í geng með hreinu lýðskrumi.

Það tekur því kannski ekki að vera að fjalla um heimsóknir skólabarna í kirkjur á skólatíma. Þetta var heitt deilumál nokkur síðustu ár, en svo er það smám saman að síast inn að auðvitað á menntun að vera í höndum kennara, sem hafa til þess bæra mennun – en ekki presta, sem samkvæmt starfslýsingu eiga að sinna trúboði.

Þannig er umræðan að mestu að fjara út og flestir sáttir við að halda þessu aðgreindu og færa mennta umhverfið til baka í það horf sem það var áður en kirkjan hóf markaðsókn inn í skólana.

Það dúkka upp stöku pistlar til varnar þessum ósið, nú síðast frá Einari Kárasyni, sem allt of margir eru að dreifa með jákvæðum ummælum.

Innihald pistilsins er hreinn og klár útúrsnúningur… það er lagt að jöfnu að vilja aðgreina fræðslu í skólum frá trúboði, við það að vilja banna börnum að fara í kirkju utan skólatíma. Svo er farið að grauta því saman hvort barn „megi“ koma inn í húsið annars vegar og því hins vegar að sitja undir áróðri og trúboði í þessu sama húsi. Og eftir að þessu grundvallar misskilningur hefur verið lagður, kemur einhver tilgangslaus langloka um verðmæti menningar og sögu – sem er vissulega rétt, en tilgangslaus vegna þess að hún kemur þessu máli nákvæmlega ekki neitt við.

Það er enginn að tala um að banna börnum að fara í kirkju, það er hlutverk foreldra og á að gerast utan skólatíma.

Það er enginn að segja að börn eigi ekki að kynnast sögu, menningu og bókmennum. En það á að gerast á forsendum menntunar og undir leiðsögn kennara.

Það er kannski ekki við öðru að búast en að gripið sé til útúrsnúninga þegar verja þarf vondan málstað. En það fer ekki stofnun vel, sem gefur sig út fyrir að standa vörð um heiðarleika og sannleika, að standa í svona rangfærslum.

Hátíðarkveðjur úr Kaldaseli

Posted: desember 23, 2016 in Fjölskylda, Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Það er víst altalað að árið 2016 fari í sögubækurnar sem ömurlegt ár.. og vissulega er margt til í því.

En við getum ekki kvartað mikið hér í Kaldaselinu, árið hefur eiginlega verið nokkuð jákvætt og ég get ekki sagt að við höfum yfir miklu að kvarta.

Við Iðunn höfum náð ansi mörgum góðum kvöldum (og dögum) með góðum vinum, ættingjum, kunningjum og ókunnugu fólki. Mér taldist lauslega til að 92 daga hafi eitthvað sérstakt verið í gangi hjá okkur. Og svo áttum við ótal kvöld í góðu tómi saman í rólegheitunum.

Ferðirnar út fyrir landsteinana voru nokkuð vel heppnaðar. Við fórum til London í byrjun mars, hittum Viktor, fórum á bjórhátíð, sáum Stiff Little Fingers á hljómleikum og hittum á nokkuð góða veitingastaði.

london-mars-chinatown

Iðunn fór í fimmtugsafmælisferð með Sérsveitinni til Amsterdam í apríl – ég kíkti til Kaupmannahafnar og heimsótti Barða sömu helgi.

Stóra ferðin 2016 var svo til Frakklands á EM, að mestu með Viktori og Alla – og í rauninni hátt í tuttugu manns sem við tengdumst lauslega – og enn fleiri sem við hittum af tilviljun.

euro-2016

 

idunn-neglurÉg fór til Amsterdam í september á IBC sýninguna og Iðunn til Parísar í vinkvenna heimsókn til Sóleyjar.

Svo kíktum við til Manchester í lok nóvember með Alla og Matta í svona nokkurs konar jólaferð.

manchester-jolamarkadur-2

Einifellshelgarnar urðu þrjár, alltaf jafn vel heppnaðar, gamli potturinn rifinn eina helgina, sá nýi vígður seinna og lax reyktur í þeirri síðustu. Petanque, matseld, bjór, vín og eðal kræsingar einkenna þessar helgar.

Sambindið fór saman í helgarferð í febrúar og hittist nokkrum sinnum þar fyrir utan.

Postularnir (fótboltahópurinn minn) héldu upp á veturinn í boði Arnars (og Unnar) í helgarferð við Reykholt.

Goutons Voir matar-félagsskapurinn hittist þar fyrir utan og ónefndi matarklúbburinn sem tengist Rúv (Rúv-Tops) náði að hittast óvenju oft.

Auðvitað hittust fjölskyldurnar reglulega og kannski var eftirminnilegast þetta árið að hitta ættingja frá Kanada, og það í tvígang.

Og ekki má gleyma reglulegum póker / bjór kvöldum í Kaldaselinu.

Okkur leiðist sem sagt ekkert að elda og borða góðan mat, drekka eðal vín og góðan bjór.. en kannski aðallega hitta skemmtilegt fólk.

Iðunn hélt upp á afmælið sitt hér heima í Kaldaseli, best heppnaða partý ársins og þó lengra sé leitað. Í framhaldinu var dæmt á Iðunni að fara í fallhlífarstökk og í bústað með Brynju og Óskari.

fallhlif-238

Við Fræbbblar spiluðum ekki mikið, en fyrir utan nokkur einkasamkvæmi er sennilega eftirminnilegast að mæta á Bifröst í byrjun ársins, halda nokkurs konar útgáfuhljómleika á Rosenberg, spila á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar og taka þátt í fullveldispönkhátíð á Hard Rock Cafe í byrjun desember.

Ég er enn hjá Staka, sem færði sig yfir til Deloitte í haust, þessu fylgja talsverðar breytingar og spennandi tímar framundan.

arshatid

Iðunn er enn hjá BUGL, en hefur misst mikið úr vegna myglusveppa á vinnustaðnum.

Andrés vinnur í þjónustuveri Símans og hefur verið virkur í starfi Pírata og var kosinn formaður félagsins í Reykjavík í haust.

Guðjón sinnti tónlistinni framan af ári og spilaði meðal annars á Secret Solstice. Seinni hluta ársins tók hann við rekstri spilastaðar og náði fljótlega að snúa rekstri staðarins við.

Viktor sinnti námi og rannsóknum fyrri hluta ársins, en kom heim í sumar, tók þátt í prófkjöri Pírata og kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar. Hann náði ekki kjöri, þó ekki munaði miklu, en var svo kallaður inn á þing fyrir jól – því miður við erfiðar aðstæður – en situr nú á þingi næstu vikurnar.

Annars eru ítarlegri frásagnir auðvitað í dagbók

Hatursorðræðan, já og nei

Posted: desember 9, 2016 in Umræða

Já, hatursorðræða er óþolandi og á ekki að líðast í siðuðu samfélagi. Og mér fallast hendur („fallast hugsanir“?) við að lesa viðbjóðinn sem sumir einstaklingar hafa fengið á sig.

En, nei, ég er samt ekki á því að það sé réttu viðbrögðin séu að kæra fólk og dæma til refsingar.

Látum umræðuna um tjáningarfrelsi aðeins liggja á milli hluta og bíðum aðeins með hversu erfitt getur verið að draga mörkin svo vel fari. [ekki svo að skilja að sú umræða sé ekki mikilvæg]

Það einfaldlega virkar ekki að dæma fólk til refsingar í þessu samhengi.

Hatursorðræða er afleiðing af fáfræði, skorti á upplýsingum, takmarkaðri reynslu, hreinni heimsku – oftast er þetta einhver blanda af þessum þáttum. Það er engin tilviljun að þeir sem hafa sig mest í frammi að þessu leyti eru fæstir skrifandi á íslensku, sem (fyrir utan kaldhæðnina) er nokkuð góð vísbending um litla menntun. Ekkert af þessu breytist með ákærum og dómum.

Ég er amk. sannfærður um að það eina sem telur í baráttunni við hatursorðræðuna sé fræðsla, upplýsingar og vakandi umræða.

En, svo því sé haldið til haga, þá er ég alltaf til í að taka rökum.