Að nenna ekki að lesa leiðbeiningarnar..

Posted: desember 29, 2016 in Stjórnmál, Umræða

Ég hef talað fyrir þeirri hugmynd að kjósendur þurfi að sýna að þeir hafi algjöra lágmarks þekkingu á því sem þegar þeir eru að greiða atkvæði í kosningum. Þá hafa verið hugmyndir um að vægi atkvæði þeirra sem nenna að kynna sér málefnið vel vegi þyngra en atkvæði annarra (td. hafa Matthías Ásgeirsson og fleiri hafa nefnt ágætis hugmyndir).

Þetta snýst ekki um greind kjósenda heldur það að leggja á sig lágmarksvinnu. Ég á nefnilega erfitt með að sætta mig við að fólk er að kjósa án þess að nenna að hafa fyrir því að kynna sér um hvað það er að kjósa. Allt of oft þekkir fólk hvorki rök né mótrök og hefur ekki grun um hvort þau rök sem haldið er fram standist skoðun. Það eru meira að segja óteljandi dæmi um að fólk hafi kosið án þess að vita einu sinni um hvað það var að kjósa.

Því fleiri atkvæðagreiðslum sem ég fylgist með, því sannfærðari verð ég um ágæti þess að gera lágmarkskröfu til kjósenda, ekki einhver greindarpróf, heldur einfaldlega að athuga hvort fólk hafi nennt að sinna sjálfsögðum undirbúningi.

Þetta er að einhverju leyti ekki ósvipað því að einhver kaupi flugelda, nennir ekki að lesa leiðbeiningarnar og kveiki í nærliggjandi húsum.

Sama gildir í raun um kosningar, ef kjósendur lesa ekki leiðbeiningarnar og vita ekki hvað þeir eru að gera… þá er hætta á slysi – slysi sem getur verið dýrkeypt fyrir okkur hin.

Við erum ekki að tala um að sauðurinn með flugeldana hafi ætlað sér að kveikja í eða valda tjóni, þetta var sinnuleysi, leti og/eða áhugaleysi um lágmarks tillitssemi og lágmarks undirbúning við einfalt verk.

Svipaðar hugmyndir eru að einhverju leyti í núverandi kerfi þar sem kosningaréttur er takmarkaður við aldur. 17 ára einstaklingur, með mikla þekkingu, borgar sína skatta og er fullfær um að taka meðvitaða ákvörðun, fær ekki að kjósa á meðan annar 18 ára sem nennir ekki að skilja um hvað málið snýst, fellur fyrir ómerkilegum slagorðum og tekur ákvörðun sem hefur gríðarleg áhrif á okkur hin.

Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvað mælir á móti þessari hugmynd. Jú, eitthvað virðist hugmyndin nýstárleg og þurfa umhugsun, stundum er erfitt að yfirvinna hefðir og gamlan vana.

Þeir einu sem væntanlega hafa eitthvað á móti því að bæta kosningakerfið eru sennilega þeir sem vilja geta spilað á vanþekkingu og komist til valda og náð ákvörðunum í geng með hreinu lýðskrumi.

Lokað er á athugasemdir.