Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér vændi, klámi og öðrum „ófögnuði“. Þeir sem ekki hafa áhuga á rökum eða umræðu og vilja afgreiða allar skoðanir með þeirri rökleysu að ég sé gamall karl og skoðun mín sé þar af leiðandi einskis virði geta hætt að lesa strax.
Ég er ekkert sérstaklega hlynntur vændi.
Mér finnst mansal stórglæpur sem þarf að berjast gegn með öllum tiltækum ráðum. Og mér finnst ömurlegt ef einhver fer að stunda vændi vegna þess að ekki séu önnur úrræði í boði.
En þó ég sé ekkert sérstaklega hrifinn af þessu – frekar en svo mörgu öðru – þá finnst mér ekki vera mitt að banna fullorðnu fólki eitthvað sem það kýs sjálft, mér finnst mér einfaldlega ekki koma það neitt við. Þess vegna vil ég leyfa ýmislegt sem ég er sjálfur mótfallinn, til að mynda „gras“reykingar, svo eitthvað sé nefnt. Ég veit ekkert um hversu margar konur eða karlar hafa áhuga á að stunda vændi, hvorki sem seljendur eða kaupendur, en það skiptir einfaldlega ekki nokkru máli.
Vandamálin liggja í mansali og hjá þeim sem sjá ekki aðra kosti í stöðunni, þeas. fjárhagslega.
Það virðist nú nokkuð ljóst að á meðan framboð og eftirspurn er til staðar þá gerir bann ekki annað en að færa starfsemina í undirheimana. Þar er auðveldara fyrir glæpamenn að brjóta á þeim sem ekki geta varið sig og eru utan kerfis. Það að sópa vandanum undir teppið og telja sig hafa náð árangri vegna þess að opinberar tölur sýni einhvern „árangur“ er auðvitað ekkert annað en sjálfsblekking.
Svarið hlýtur að liggja í því að auðvelda fórnarlömbum mansals að leita réttar síns, efla löggæslu og taka mun harðar á þeim sem stunda mansal. Þetta er hægt. Og þetta er auðveldara ef ekki verið að fela starfsemina.
Hitt vandamálið liggur í þeim fjölda sem virðast ekki sjá annan kost en að stunda vændi.
Það er einhver hrikaleg hugsanavilla að halda að þeim sé einhver hjálp í að banna þeim að stunda vændi. Svarið liggur augljóslega í betra öryggisneti og betri stuðningi við fólk sem er í vandræðum, hjálpa þeim og styrkja þannig að vændi sé ekki lengur úrræði.
Er kannski kominn tími til að hugsa þetta aðeins aftur? En, hvað veit ég, ég er bara gamall karl..