Gott og vel, Trump er mögulega ekki eins tröll heimskur og margir vilja láta.
Og jú, einhverju hefur verið logið upp á hann, sumt hefur verið ýkt og eitthvað hefur verið tekið úr samhengi.
En…
Svona, bara, ef við metum hann eingöngu út frá (sannanlega) óklipptum ræðum, tístum og yfirlýsingum.. og fyrstu verkum, þá stendur hann klárlega fyrir flest það sem mér finnst ógeðfellt.
Það er vissulega eitthvað til að hafa áhyggjur af, en við höfum áður séð undarlega einstaklinga í valdastöðum og heimurinn hefur svo sem komist af en óneitanlega verið talsvert verri fyrir vikið.
Það sem ég virkilega óttast og það sem veldur því að ég hef í fyrsta skipti verulegar áhyggjur af leiðtoga í valdastöðu sem getur haft mikil áhrif á heimssöguna (jú, víst) er að..
Ofan á það sem virðist ekkert sérstaklega mikil greind, getu til að vinna úr upplýsingum og alls engan áhuga á að kynna sér mál áður en ákvörðun er tekin – þá virðist þetta vera einstaklingur í verulega miklu ójafnvægi, einstaklingur sem getur ekki höndlað minnsta mótlæti eða frábrigði án þess að bregðast við af gegndarlausu offorsi og persónulegum árásum á þá sem eru ósammála hans (að mér finnst) brengluðu sjónarmiðum.
Síendurtekin vanstilling að hætti þriggja ára barns í skapofsaköstum er einfaldlega eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af hjá einum valdamesta einstaklingi í heimi.
Vonandi er öryggisnetið í lagi og vonandi verður hægt að koma honum (ofbeldidslaust) úr embætti sem fyrst.