Posts Tagged ‘Trump’

Hnignun þekkingar

Posted: ágúst 13, 2017 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Samsæriskenningar eru auðvitað eldgamlar og stöku sinnum hefur meira að segja verið fótur fyrir þeim. En þessi öld hefur að einhverju leyti litast af uppgangi samsæriskenninganna. Ellefti-september bauð auðvitað upp á alls kyns umræður og vangaveltur. Í kjölfarið var eins og margir ánetjuðust samsæriskenningunum… alls staðar voru samsæri, jafnvel þeir sem upphaflega voru fórnarlömb samsæranna voru nú hluti af þeim, þeir sem ruddu brautina (ef svo má að orði komast) voru hluti af einhverju samsæri. Það voru samsæri komin í hvert horn. Hlýnun jarðar var samsæri, að jörðin væri hnöttótt var samsæri, þoturákir á himni voru samsæri, CIA yfirtók heila fólks, Clinton (og ef ekki allur demókrataflokkur Bandaríkjanna) var kominn í barnavændi á pizzustað :), gott ef sami flokkur var ekki farinn að standa að því að láta myrða fólk, erfðabreytt matvæli voru (auðvitað) eitt stórt samsæri, bólusetningar að sjálfsögðu ekkert annað en samsæri – og ef annað var ekki boði þá voru einhverjir tónlistarmenn annað hvort þátttakendur í samsæri eða fórnarlömb [eins og hverjum sé ekki sama].

Þörfin fyrir næsta „fix“ af samsæri var nánast orðin óbærileg og allt var samþykkt möglunarlaust.

Ég er ekki frá því að þetta sé grunnurinn að ákveðinni heimskun kjósenda og þar af leiðandi upphafið að ákveðinni hnignun sem við erum rétt að fá forsmekkinn af.

Brexit og Trump eru fínasta dæmi um þetta. Ekki svo að skilja að þessar kosningar hafi beinlínis flotið á samsærum. En þeir sem unnu keyrðu á rangfærslum og lygum og fönguðu atkvæða þeirra fáfróðu og auðtrúa.

Þannig virðist dómgreind almennings hefur farið aftur, fólk samþykkir fullyrðingar ef þær eru settar fram í dramatískum YouTube myndböndum, „Photoshoppaðar“ myndir eru góðar og gildar, jafnvel hreinar og klárar lygar, hvers kyns dylgjur eru teknar sem staðreyndir, tíst eru staðreyndir, einföld mistök sannanir um yfirgripsmikil samráð, langsóttar tengingar eru endanlegar sannanir, óljósar getgátur góðar og gildar og fullyrðingar á bloggsíðum nefndar til sögunnar sem rök.

Efasemdir, leit að mótrökum, athugun á sannleiksgildi, einföld rökhugsun er látið liggja á milli hluta.

Þessi grunnur fáfræði og trúgirni eru nefnilega það sem hefur kostað okkur að fáfræðin hefur sigrað.

Og ég er smeykur um að þetta eigi eftir að versna.

Forsetalingurinn

Posted: júlí 25, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég held að ég viti hvernig einfaldast er að koma Trump frá..

Ef við skoðum aðeins ferilinn, þá eyddi hann óhemju orku í að búa til ímynd af sér sem öflugum og hörðum viðskiptamanni með því að gera einhverja „raunveruleika“ sjónvarpsþætti um sjálfan sig. Þetta virðist nú hafa verið ansi brengluð mynd af kjaftagleiðri en getulausri rolu sem spilaði rassinn úr buxunum með arfinn frá pabba.

Fyrstu mánuðir forsetatíðar hans einkennast af allt of lítilli athygli á tilskipanir, rasískar, heimskulegar, hættulegar heilsu, ívilnanir til þeirri ofurríku, skipun fábjána í lykilstöður, takmörkun á vísindarannsóknum, viðskipti við þá sem stunda gróf mannréttindabrot…

Að sama skapi virðist athyglin beinast að innihaldslausum kjaftagangi, stórkarlalegum yfirlýsingum, svívirðingum, yfirkeyrðum athugasemdum, sjálfsvorkunn, myndbrotum þar sem hann gerir sig að fífli, hver vill halda í höndina á honum (og hver ekki) og hvernig honum er heilsað.

Ég held nefnilega að mögulega hafi hann engan sérstakan áhuga á völdum og ég held að hann hafi ekki nokkurn minnsta áhuga á að Ameríka verði aftur „stórkostleg“ – veit reyndar ekki hvort hann tekur El Salvador, Síle og Kanada í þær pælingar.

Ég held að hann sé athyglissjúkur, forsetatíðin sé yfirkeyrður raunveruleikaþáttur og um leið og fólk missir áhugann þá hypjar hann sig burtu..

(ætli það sé ekki nauðsynlegt að gera enska útgáfu af þessari færslu?)

Nokkur atriði sem ég hef tekið eftir varðandi yfirlýsingu Trumps um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu.

  • Hann afneitar ekki hlýnun og að hægt sé að hafa áhrif á hana. Hann aftekur heldur ekki alfarið að fylgja ákvæðum samningsins, hann virðist eingöngu hugsa um hvernig skipta eigi kostnaðinum og að samningurinn eigi að kosta Bandaríkjamenn minna en gert er ráð fyrir.
  • Þær ákvarðanir sem hann tekur núna geta fyrst tekið gildi eftir þrjú og hálft ár, merkilegt nokk, á svipuðum tíma og Bandaríkjamenn kjósa aftur til forseta. Þannig að það má segja að þetta sé ómerkileg sýndarmennska.
  • Hann virðist halda að það sé til eitthvað sem heitir „hrein kol“ („clean coal“) og sé nothæfur orkugjafi.
  • Mörg ríki og borgir í Bandaríkjunum ætla að hunsa ákvarðanir hans í þessu (eins og svo mörgu öðru).
  • Hann virðist halda að að Parísarsamkomulagið sé eingöngu gert fyrir Parísarbúa.

Trump, áhyggjur? Já, já…

Posted: janúar 22, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Gott og vel, Trump er mögulega ekki eins tröll heimskur og margir vilja láta.

Og jú, einhverju hefur verið logið upp á hann, sumt hefur verið ýkt og eitthvað hefur verið tekið úr samhengi.

En…

Svona, bara, ef við metum hann eingöngu út frá (sannanlega) óklipptum ræðum, tístum og yfirlýsingum.. og fyrstu verkum, þá stendur hann klárlega fyrir flest það sem mér finnst ógeðfellt.

Það er vissulega eitthvað til að hafa áhyggjur af, en við höfum áður séð undarlega einstaklinga í valdastöðum og heimurinn hefur svo sem komist af en óneitanlega verið talsvert verri fyrir vikið.

Það sem ég virkilega óttast og það sem veldur því að ég hef í fyrsta skipti verulegar áhyggjur af leiðtoga í valdastöðu sem getur haft mikil áhrif á heimssöguna (jú, víst) er að..

Ofan á það sem virðist ekkert sérstaklega mikil greind, getu til að vinna úr upplýsingum og alls engan áhuga á að kynna sér mál áður en ákvörðun er tekin – þá virðist þetta vera einstaklingur í verulega miklu ójafnvægi, einstaklingur sem getur ekki höndlað minnsta mótlæti eða frábrigði án þess að bregðast við af gegndarlausu offorsi og persónulegum árásum á þá sem eru ósammála hans (að mér finnst) brengluðu sjónarmiðum.

Síendurtekin vanstilling að hætti þriggja ára barns í skapofsaköstum er einfaldlega eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af hjá einum valdamesta einstaklingi í heimi.

Vonandi er öryggisnetið í lagi og vonandi verður hægt að koma honum (ofbeldidslaust) úr embætti sem fyrst.