Posts Tagged ‘Loftslagsmál’

Mér finnst alltaf skelfilega grátlegt og um leið svolítið fyndið þegar þeir sem efast um niðurstöður vísindanna, td. talsmenn hinna og þessa samsæriskenninga, skjóta sig í fótinn með tilvísun í ‘fræðimenn’. Gjarnan með því að bæta „virtur“ við án nokkurrar fótfestu.
Til að mynda, nú síðast, Covid-19 samsæriskenningasmiðar vísa í að svo og svo margir læknar telji að Covid-19 veiran / faraldurinn sé eitt alls herjar plat (‘hoax’). [Flestir á meðan þeir voru að lepja upp einhverja þvælu til stuðnings bandaríkjaforseta, þar til í ljós kom að hann var bara að ljúga]. En þetta er svona svipað og þegar loftslagsafneitarar eru að flagga því að sérfræðingar í loftlagsmálum séu á einhverri tiltekinni „skoðun“.
Mótsögnin er nefnilega nokkuð æpandi. Ef viðkomandi telur það styrkja sitt mál að þeir sem vísað er til séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar… hvers vegna ekki að taka mark á um það bil eitthvað nálægt tuttugu þúsund sinnum fleiri sérfræðingum?
Og á hinn bóginn, ef punkturinn með efasemdunum og kenningunum er sá að ekkert sé að marka sérfræðinga, hvers vegna þá að taka fram máli sínu til stuðnings að þetta séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar?
Er þetta ekki svolítið eins og að segja, „allir sköllóttir karlmenn eru lygarar“ og í næstu setningu „ég þekki sköllóttan karlmann sem staðfestir það sem ég segi“ [OK, kannski ekki gott dæmi, en ég er með próf upp á að vísa í sköllótta kalla].
Svo er auðvitað fínt að hafa í huga að við hin tökum ekki gott og gilt að sérfræðingar hafi einhverja tiltekna skoðun, við horfum við þess *hvað* viðkomandi hefur fram að færa, ekki *hver* viðkomandi er. Standast gögnin skoðun? Eru greinar ritrýndar? Eru tilvísanir í heimildir áreiðanlegar?

Nokkur atriði sem ég hef tekið eftir varðandi yfirlýsingu Trumps um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu.

  • Hann afneitar ekki hlýnun og að hægt sé að hafa áhrif á hana. Hann aftekur heldur ekki alfarið að fylgja ákvæðum samningsins, hann virðist eingöngu hugsa um hvernig skipta eigi kostnaðinum og að samningurinn eigi að kosta Bandaríkjamenn minna en gert er ráð fyrir.
  • Þær ákvarðanir sem hann tekur núna geta fyrst tekið gildi eftir þrjú og hálft ár, merkilegt nokk, á svipuðum tíma og Bandaríkjamenn kjósa aftur til forseta. Þannig að það má segja að þetta sé ómerkileg sýndarmennska.
  • Hann virðist halda að það sé til eitthvað sem heitir „hrein kol“ („clean coal“) og sé nothæfur orkugjafi.
  • Mörg ríki og borgir í Bandaríkjunum ætla að hunsa ákvarðanir hans í þessu (eins og svo mörgu öðru).
  • Hann virðist halda að að Parísarsamkomulagið sé eingöngu gert fyrir Parísarbúa.